c

Pistlar:

30. september 2025 kl. 13:59

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Afnám haftanna: Einstök aðgerð - einstök áhrif

Þegar áætlun ríkisstjórnarinnar um haftaafnámið var kynnt í júní 2015 sagði Lee C. Buchheit, ráðgjafi framkvæmdahóps um losun hafta, í samtali við vefritið Kjarnann: „Ef áætlunin gengur upp munu um 650 milljarðar króna renna til ríkissjóðs. Ég veit ekki nákvæmlega hver endanlega talan verður. Það fer eftir því á hvað nýju bankarnir munu seljast, á hvað kröfurnar gegn innlendu aðilunum skila og svo framvegis. En mér finnst þetta líkleg tala. Þessi upphæð kemur aukalega inn í ríkissjóð. Það er ekki gert ráð fyrir henni í fjárlögum eða neinu slíku og hún er á pari við árleg útgjöld ríkisins. Hversu oft í sögu lands gerist slíkt?“ Í samtali við Vísi sagðist Buchheit orðlaus yfir lausninni.afnám

Já, hve oft í sögu þjóðar gerast slíkir atburðir? Nánast í einni svipan leystist efnahagslíf þjóðarinnar úr læðingi og staða ríkissjóðs gerbreyttist. Undir orð Lee C. Buchheit þetta tók Jón Daníelsson, prófessor í hagfræði við LSE, í samtali við Morgunblaðið: „Mér virðist við fyrstu sýn sem að þetta sé mjög gott plan. Það virðist vera vel undirbúið og vel hugsað. Menn virðast hafa séð fyrir mörg þau vandamál sem gætu komið upp og hafa hannað kerfið þannig að það lágmarki líkurnar á að eitthvað fari úrskeiðis. Þeir sem komu að þessu geta verið mjög stoltir af sinni vinnu.“

Einstök aðgerð – einstök áhrif

Bandaríski lögmaðurinn Lee C. Buchheit lét af störfum árið 2019 en vann þó áfram sem ráðgjafi. Á starfsferli sínum starfaði hann í Washington DC, London, New York og Hong Kong. Hann kom að því að leysa úr nánast öllum gjaldþrotum ríkja sem höfðu átt sér stað á síðustu fjórum áratugum, allt frá Mexíkó og Rússlandi á níunda og tíunda áratugnum til Grikklands og Argentínu um leið og hann var ráðgjafi hér á landi, fyrst vegna Icesave og síðar í tengslum við samskipti við kröfuhafana.

Þrátt fyrir víðfeðman feril sagði hann að niðurstaða afnámsins sýndu glögglega hve einstakar aðgerðir voru á ferðinni. Ekki bara í íslensku samhengi heldur ekki síður í alþjóðlegu samhengi. Uppgjörið við slitabúið, sem var gert undir formerkjum stöðugleika, gerbreytti erlendri skuldastöðu þjóðarbúsins og hafði gríðarleg áhrif á fjárhag ríkisins árin á eftir. Í raun er það sérstakt umfjöllunarefni í dag af hverju ríkissjóði hefur ekki tekist að vinna áfram með þessa stöðu en nú eru vaxtagreiðslur ríkissjóðs aftur orðnar vandamál.

Lee C. Buchheit sagði að aðgerðirnar myndu skapa spíral upp á við fyrir íslenskt hagkerfi. „Hann mun myndast vegna þess að íslenska ríkið mun greiða um þriðjung skulda sinna, sem mun spara ykkur nokkra tugi milljarða króna í vaxtagreiðslur. Það mun þýða að lánshæfismatsfyrirtækin munu hækka lánshæfi ríkisins, og í kjölfarið íslenskra fyrirtækja, sem mun draga úr lánakostnaði. Svo mun lyfting hafta gera það að verkum að fjárfesting á Íslandi gæti aukist. Þetta vandamál, lausn á losun hafta, var síðasta stóra vandamálið sem hefti efnahagslegan bata Íslands.“

Stóru ákvarðanirnar reyndust réttar

Lee C. Buchheit sagði einnig í áðurnefndu viðtali að Ísland hefði upplifað fordæmalausa tíma frá efnahagshruni og að allar stóru ákvarðanirnar sem teknar hafi verið á síðustu tæpu sjö árum hafi reynst réttar. Þetta hefur verið áreynslumikill tími fyrir Ísland. En ég spái því að eftir tíu ár muni viðskiptadeild Harvard-háskóla vera að vinna með dæmi (e. case-study) sem heiti Ísland frá 2008 til 2015“. Ég man ekki eftir neinu landi sem varð fyrir eins miklum og víðtækum áhrifum vegna efnahagsáfallsins en hefur jafnað sig á jafn ótrúlegan hátt á svona skömmum tíma. Ég er ekki að gera lítið úr þeim sársauka sem þetta ferli hefur valdið mörgum á Íslandi en endurreisnin hefur verið hraðari en flestir töldu mögulegt.“

Mat á virði stöðugleikaeigna sem gert var við framsal þeirra í janúar 2016, og byggði að mestu leyti á bókfærðu virði eignanna hjá slitabúunum sjálfum, nam alls 384,3 milljörðum króna. Þar af var laust fé metið á 17,2 milljarða króna, framseldar eignir á 60,4 milljarða, skilyrtar fjársópseignir á 18,4 milljarða og framlög vegna viðskiptabanka á 288,3 milljarða. Heildar umfang aðgerðanna nam um 1.200 milljörðum króna. Íslandsbanki var síðasta stöðuleikaframlagið en ríkissjóður fékk um 360 milljarða vegna sölu á bankanum og arðgreiðslur. Það væri verðugt verkefni hjá fjármálaráðuneytinu núna að birta niðurstöðutölu um hvað kom þarna inn í ríkissjóð en rækilega var farið yfir atburðarásina í bók pistlaskrifara.afnám

Málþing um losunina

Endurreisn íslensks efnahagslíf má að talsverðu leyti þakka farsælu afnámi fjármagnshafta og þeim aðgerðum sem gripið var til af hálfu íslenskra stjórnvalda. Umfanga aðgerðanna og ábati ríkissjóðs liggur ekki að fullu fyrir fyrr en endurskipulagningu fjármálakerfisins er lokið.

Í dag verður þess minnst með málþingi í Arion banka að tíu ár eru liðin frá árangursríkri losun fjármagnshafta eftir bankahrun. Þar hafa framsögu þeir Már Guðmundsson fv. Seðlabankastjóri, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fv. forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson þáv. fjármálaráðherra og lögmennirnir Lee C. Buchheit og Barry Russell.

Í pallborði verða Ásgeir Reykfjörð Gylfason forstjóri Skeljar, Benedikt Gíslason bankastjóri Arion, Guðrún Þorleifsdóttir skrifstofustjóri fjármálaráðuneytis, Gunnar Þór Þórarinsson lögmaður hjá BBA/ Fjeldco í London, Jón Þ. Sigurgeirsson stjórnarformaður Landsbanka, Lilja Alfreðsdóttir fv. ráðherra og Sigurður Hannesson hjá Samtökum iðnaðarins.