c

Pistlar:

2. október 2025 kl. 14:31

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Þjóðarhöll eða þjóðarfangelsi?

Yfirgnæfandi meirihluti þeirra sem núna dvelja í íslenskum fangelsum er af erlendum uppruna og í flestum tilfellum erlendir ríkisborgarar. Sem dæmi má taka að 75% af öll­um þeim sem úr­sk­urðaðir voru í gæslu­v­arðhald á árinu 2023 voru er­lend­ir rík­is­borg­ar­ar. Þetta hlutfall er viðvarandi í dag. Þessu fylgir mikið álag á réttarvörslukerfið sem þarf að takast á við margvíslegar áskoranir sem fylgja auknum fjölda fanga og að mörgu leyti harðsvíraðri glæpamönnum. Þegar rætt er við fólk í réttarvörslukerfinu hafa margir miklar áhyggjur af þróun mála og þó að verið sé að bæta við lögregluþjónum og áform séu um að reisa ný fangelsi þá slær það ekki á áhyggjur manna.Hraunið

Það er sláandi að heyra lýsingar af stöðu mála inni á Litla-Hrauni og Hólmsheiði þegar svo mikið er af erlendum mönnum að taka út refsingu. Það breytir algerlega starfsemi fangelsanna og kallar á breytta vinnuferla. Fangaverðir þurfa nú mun oftar að bregðast við líkamlegu ofbeldi af hendi fanga og fyrir vikið þurfa fangaverðir að grípa oftar inn í með valdbeitingu. Það eitt og sér eykur hættu á að fangaverðir slasist enda hefur það færst í vöxt. Samskipti eru sem gefur að skilja erfiðari vegna tungumálaerfiðleika því ekki tala allir erlendu fangarnir góða ensku.

Eitt af því sem fylgir erlendum föngum er að þeir geta ekki tekið út hluta refsingar með samfélagsþjónustu og miklu síður dvalist á áfangaheimilum Verndar. Þeirra bíður því fyrst og fremst fangelsisvist. Ástandið mun reyndar vera svo núna að boðunarþjónusta Fangelsismálastofnunar er nánast sprungin og lengri og lengri tími líður þar til fangar geta hafið afplánum. Erlendir fangar geta nýtt sér það til að komast úr landi.

Viðhald býður á Hólmsheiði

Hér er spurt í fyrrisögn hvort hér verði reist Þjóðarhöll eða þjóðarfangelsi. Hvað er átt við með því? Jú, eftir að nokkur kraftur var í því ferli að reisa Þjóðarhöll er eins og slokknað sé á því. Spurningin er því hvort skattgreiðendur verði ekki að beina fjármunum sínum í að flýta þeim úrræðum sem þarf í fangelsismálum og hefur verið vikið að hér í pistlum áður. Getum við reist tvær slíkar byggingar á sama tíma, Þjóðarhöll og þjóðarfangelsi? Það er til að gera málið erfiðara að fregnir eru af því að það sé komið að þungu viðhaldi fangelsisins á Hólmsheiði sem er farið að leka og þarf á viðgerð að halda. Á meðan á viðgerð stendur má ætla að starfsemin á Hólmsheiði raskist verulega.

Öryggisfangelsið Stóra-Hraun

Um nokkurt skeið hefur legið fyrir að reisa yrði nýtt fangelsi frá grunni sem leysir fangelsið á Litla-Hrauni af hólmi. Nýja fangelsið hefur fengið heitið Stóra-Hraun enda rétt hjá gamla fangelsinu, við Eyrarbakka. Í byrjun maí samþykkti ríkisstjórnin tillögu dómsmálaráðherra um að ráðast í byggingu öryggisfangelsis að Stóra-Hrauni. Þetta verður fyrsta fangelsið sem er sérstaklega hannað og byggt sem öryggisfangelsi á Íslandi. Litlum sögum fer af fjárveitingum til fangelsisins í fjárlagafrumvarpinu en hér fylgja hönnunarmyndir frá kynningu á því.Skjámynd 2025-10-02 142755

Með byggingu Stóra-Hrauns á að vera hægt að tryggja nauðsynleg öryggisskilyrði og bætta aðstöðu fyrir fanga og starfsfólk. Gert er ráð fyrir að í fyrsta áfanga verði byggð rými fyrir 92 fanga og er áætlaður kostnaður við hann 17,8 milljarðar króna og fellur sá kostnaður undir fjármálaáætlun fyrir árin 2026-2030. Veruleg hækkun var á kostnaði frá fyrstu áætlun enda má segja að því meiri öryggiskröfur - því meiri kostnaður. Það er sérstök umræða að ræða kostnað við vistun félaga í skipulögðum glæpasamtökum. Það hefur enda komið á daginn að Eistar vilja ekki taka við slíkum föngum frá Svíþjóð en þjóðirnar höfðu gert samkomulag um vistun fanga.

Dugar rými fyrir 128 fanga?

Í fyrsta áfanga verksins er gert ráð fyrir 84 klefum á Stóra-Hrauni og þangað til fangelsið verður fullbyggt verði nokkrir klefar á Litla-Hrauni notaðir samhliða. Er því gert ráð fyrir að pláss verði fyrir um 90 til 98 fanga á hverjum tíma. Þegar fangelsið að Stóra-Hrauni verður fullbyggt er gert ráð fyrir að það geti hýst allt að 128 fanga en því hefur verið fleygt að fullbúið, kosti fangelsið um 30 milljarða króna.

Fangelsismálastofnun rekur fjögur fangelsi: Fangelsið Hólmsheiði og Fangelsið Litla-Hraun sem eru lokuð fangelsi, Fangelsið Sogni og Fangelsið Kvíabryggju sem eru opin fangelsi. Á árinu 2023 kostaði reksturinn 3.053 milljónir króna. Á árinu 2024 var ársveltan 3.146,6 milljónir króna og afkoma neikvæð um 77,4 milljónir króna. Augljóslega þurfa skattgreiðendur að setja gríðarlega fjármuni í refsivörslukerfið á næstu árum. Því má spyrja. Er hægt að reisa Þjóðarhöll og þjóðarfangelsi á sama tíma?