Á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar ríkti Verkamannaflokkurinn undir stjórn Harold Wilsons í Bretlandi en hann varð forsætisráðherra tvisvar, fyrst 1964 til 1970 og svo aftur 1974 til 1976. Á þessum tíma jókst skattbyrði almennt í Bretlandi. Efnahagurinn staðnaði og svar stjórnar Wilsons var að hækka skatta enn frekar. Ekki varð það til að bæta ástandið að sterlingspundið féll árið 1967 og olíukreppan lék Breta illa árið 1973. Allt leiddi þetta til enn hærri skatta en með þeim hætti var reynt að fjármagna velferðarkerfið sem Verkamannaflokkurinn reyndi að efla á sama tíma.
Á meðan Harold Wilson var forsætisráðherra Bretlands innleiddi stjórn Verkamannaflokksins háa skatta. Þar á meðal voru illa þokkaðir „ofurskattar“ á hátekjufólk, sem gátu numið allt að 83% á launatekjur og 98% á fjármagnstekjur. Þessir skattar leiddu til þess að nokkrir þekktir breskir listamenn og frægðarmenni fluttu úr landi til að forðast skattbyrðina. Farið var að beita sköttum til að draga úr ójöfnuði í samfélaginu en einnig voru innleiddir nýir skattar. Heildarskattbyrðin, sem hlutfall af landsframleiðslu, hækkaði verulega í Bretlandi undir stjórn Wilsons. Eins og kom fram í grein fyrir stuttu er Verkamannaflokkurinn enn við sama heygarðshornið.
En það voru ekki bara framsæknir tímar í skattsókn heldur tók breskt tónlistarlíf stakkaskiptum. England varð heimili framsæknustu tónlistarmanna heims með Bítlana, Rolling Stones og David Bowie í broddi fylkingar. Nýríkum rokkstjörnum samdi hins vegar ekki vel við hina framsæknu skattastefnu Verkamannaflokksins og margar rokkstjörnur á þessum tíma urðu „skattaútlagar“ og kusu að setjast að í löndum með mun lægra skatthlutfalli, stundum á meðan stjörnurnar greiddu niður skuldir sínar. Hér hefur áður í pistli verið fjallað um skattaflótta (ætti að segja skattasniðgöngu?) Bítlanna en goðin í Rolling Stones voru einnig fljótir að nýta þessa aðferð þegar þeir fluttu til Frakklands árið 1971. Útlegðin birtist í plötu þeirra Exile on Main St. sem telst nú klassísk.
Hinn eini sanni skattaútlagi
„Á áttunda áratugnum voru skattar miklu hærri um allan heim en þeir eru í dag og það var alls ekki andstætt kerfinu að vera skattaútlagi,“ segir Nicholas Shaxson, höfundur bókarinnar Treasure Islands: Uncovering the Damage of Offshore Banking and Tax Havens. „Skattskjól höfðu einhvers konar James Bond ímynd, nánast eins og um spennu og njósnir væri að ræða. Í Bretlandi nútímans og mörgum löndum hafa skattsvik orðið miklu algengari og eru stærri hluti af kerfinu.“
Á áttunda og níunda áratugnum settust rokkarar að í skattaskjólum um allan heim, flestir þó tímabundið. David Bowie og Marc Bolan fluttu til Sviss, Cat Stevens til Brasilíu og Rod Stewart og hljómsveitin Bad Company til Kaliforníu. Trommari Bítlanna, Ringo Starr, flutti til Monte Carlo árið 1975. Í viðtali við útvarpsmanninn Howard Stern sagði Ringo að hann greiddi „enga skatta“. Jafnvel Sting, söngvari The Police, sem hafði sungið „I don’t wanna be no tax exile“ í laginu „Dead End Job“ frá 1978, fór til Írlands tveimur árum síðar til að flýja skattheimtuna.
Tónlistamenn með fyrirtæki í skattaskjólum
Nicholas Shaxson segir að í Bretlandi nútímans og mörgum öðrum löndum hafi skattahagræði orðið miklu algengara og sé hluti af viðurkenndu kerfi.
Í dag gera tónlistarmenn hljómsveitir sínar að fyrirtækjum með aðsetur í skattaskjólum eins og Hollandi, Lúxemborg og Bresku Jómfrúareyjum. „Þeir ráða fjármálaráðgjafa til að finna leiðir í gegnum alþjóðlega skattkerfið til að komast undan skatti,“ segir Shaxson. „Í lok dagsins snýst þetta venjulega um að finna glufur.“ Áður fyrr keyptu margar rokkstjörnur miða í eina átt frá Heathrow-flugvellinum í London. Það þarf ekki lengur en margar þessar sögur af skattaútlögum rokkheimsins lifa enn.
Þótt þeir hafi selt milljónir platna á sjöunda áratugnum þá ollu slæmar ákvarðanir ráðgjafa því að meðlimir Rolling Stones voru næstum orðnir gjaldþrota árið 1971. „Í upphafi fékkstu alls ekkert greitt,“ sagði Mick Jagger við tímaritið Fortune árið 2002. „Ég mun aldrei gleyma samningunum sem ég gerði á sjöunda áratugnum, sem voru bara hræðilegir. ... Þú segir: „Ó, ég er skapandi manneskja, ég mun ekki hafa áhyggjur af þessu.“ En það virkar bara ekki, því allir myndu bara stela hverjum einasta eyri sem þú átt,“ bætti Jagger við.
Hver og einn af meðlimum Rolling Stones skuldaði bresku ríkisstjórninni fjórðung milljón dollara í skatta, sem var gríðarleg upphæð á þeim tíma. Þeir ákváðu því að flytja hljómsveitina til Frakklands til að komast hjá sköttum og geyma tekjur sínar í hollensku eignarhaldsfélagi.
„Við þurftum að fara frá Englandi til að afla okkur nægra tekna til að greiða skattana því á þeim tíma, í Englandi, var hæsta skatthlutfallið 90 prósent, svo það var mjög erfitt,“ sagði Jagger við CNN. „Þú græddir 100 pund, þeir tóku 90. Svo það var mjög erfitt að greiða skuldir til baka. Svo þegar við fórum úr landi snérist þetta hlutfall við.“
Jagger og Richards enn í skattaútlegð
Þessi flutningur reyndist bæði hafa skapandi og fjárhagslegan árangur. Platan Exile on Main St., þar sem fyrstu upptökur voru gerðar í kjallaravillu Keith Richards nálægt Nice, skilgreindi nánast rokkheiminn þá enda ein af bestu plötum rokksins.
Nú meira en 40 árum síðar eru Jagger og Richards enn í skattaútlegð og mega aðeins eyða nokkrum mánuðum á ári í Bretlandi. Jagger ferðast á milli heimila í London, Frakklandi og Vestur-Indíum. Richards býr í Connecticut. „Allur viðskiptaferillinn byggist að miklu leyti á skattalögum,“ sagði Richards við New Yorker. Hann segist ekki biðjast afsökunar á því að yfirgefa Bretland vegna skatthlutfallsins þar. „Við fórum og þeir töpuðu.“