c

Pistlar:

7. október 2025 kl. 10:12

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Samgöngumál í stærra samhengi

Margir upplifa ákveðið ráðaleysi í kringum samgöngumál þjóðarinnar, bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni. Það bætir ekki úr að sjá að Færeyingar eru að vinna hvert þrekvirkið á fætur öðru og eru að ná að tengja saman eyjasamfélag sitt og skapa þannig fyrsta flokks samgöngur við að mörgu leyti erfiðari aðstæður en við eigum að þekkja. Pistlaskrifari kynntist því á fögrum haustdögum fyrir ári síðan hvað samgöngur í Kaupmannahöfn eru góðar en þar hefur tekist að blanda saman almenningssamgöngum og reiðhjólum með frábærum hætti.aaumferð

En við verðum að vera raunsæ. Hjólreiðar verða ekki sama lausnin hér á Íslandi og í suðlægari löndum. Þó er sjálfsagt að hvetja til þeirra en hjólreiðamenn mega heldur ekki ofmetnast og halda að þeir séu eina lausnin. Reiðhjólin eru það ekki og hvort sem okkur líkar betur eða verr þá verður einkabíllinn mikilvægasta samgöngutækið hér á landi um ókomna tíð. Því miður er samfélagstilraun meirihlutans í Reykjavík að gera borgarbúum stöðugt erfiðara að nýta þennan augljósa kost. Engin virðing er borin fyrir tíma fólks sem er dæmt til að verja sífellt meiri tíma í bílnum og er nú svo komið að margir veigra sér við að vera á ferli á álagstímum.

Vantar heildarhugsun

En það er heldur ekki raunsætt að halda að við komumst þangað sem við viljum þegar við viljum og á þeim tíma sem hentar. En ef vilji er til þess er hægt að gera margt til að bæta samgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Einhverja heildarhugsun vantar eins og það að tryggja gott flæði á stofnbrautum. Meirihlutinn í Reykjavík hefur lagst gegn mislægum gatnamótum og haldið því fram að það leysi ekki umferðarhnúta, þeir færist bara til. Það er röng nálgun og hefur leitt okkur inn á ranga braut. Ef stofnbrautir til og frá höfuðborgarsvæðinu væru byggðar upp á skilvirkan og einfaldan hátt væri þegar búið að einfalda málin. Þá þurfa öll borgarsamfélög á því að halda að tilteknar stofnbrautir bjóði upp á greitt flæði. Slíkar brautir í Reykjavík væru Miklabraut, Sæbraut, Reykjanesbraut og Kringlumýrarbraut. Á þessum brautum ætti umferðin að flæða. Minna skiptir þó að vegir í íbúðahverfum bjóði upp á hægari umferð ef ferðalangurinn veit að þegar hann er kominn út á stofnbraut þá flæði umferðin til þess að gera greiðlega. 

Stokkarnir

En hvað er hægt að gera í framtíðinni til að greiða úr umferðinni? Reykjavíkurmeirihlutinn hefur í undanförnum kosningum boðið upp á stokkalausnir og þar hafa Miklubrautarstokkur og Sæbrautarstokkur verið mest áberandi eins og rætt hefur verið hér í pistlum. Lausnin var ódýr fyrir meirihlutann. Vegagerðin átti að greiða fyrir umferðarmannvirkin og svo ætlaði meirihlutinn að hagnast á öllu með því að búa til nýtt byggingaland með því að færa umferðina niður í stokkana. Dagur B. Eggertsson, fyrrverandi borgarstjóri, gekk meira að segja svo langt að láta verkfræði- og hönnunarstofur búa til mikilfengleg myndbönd sem var svo dreift rækilega fyrir kosningar. Skattgreiðendur greiddu þannig sjálfir fyrir blekkinguna.Sæbrautarstokkur 05

En þegar reyndi á þá eru stokkar erfiðir þar sem vandasamt er að búa til hjáleiðir á meðan þeir eru í smíðum en gríðarlegt rask ofan jarðar fylgir gerð stokka. Þess vegna hefur hinn margboðaði stokkur á Miklubraut verið sleginn af og enginn veit í raun hvernig umferðin á að flæða þarna á milli þegar nýtt sjúkrahús verður komið í fulla starfsemi og þétting heldur áfram í gömlum bæjarhlutum austan lækjar. Það er eins og enginn hafi hugsað það til enda.

Eru jarðgöng á höfuðborgarsvæðinu endanleg lausn?

Jarðgöng gætu orðið lokahaldreipi þegar allt annað um þrýtur í höfuðborginni eins og bent hefur verið á áður hér í pistli. Þegar er rætt um að í stað Miklubrautarstokks komi jarðgöng, meðal annars vegna þess að þau hafi minna rask í för með sér ofan jarðar. En jarðlög á Íslandi eru ekkert sérlega hagfelld fyrir jarðgöng og miklar rannsóknir þarf að framkvæma áður en hægt er að ráðast í þau. En hugsanlega verða jarðgöng notuð víðar til að leiðrétta fyrirhyggjuleysi við hönnun borgarskipulags þar sem allt of mikið hefur verið þrengt að stofnbrautum.