Margir hafa án efa áhuga á að lesa um fyrirtækjaævintýri Reynis Finndals Grétarssonar sem byggði upp fyrirtækið Lánstraust frá grunni og gerði það að stórveldi á sviði fjárhagsupplýsinga. Það þekkja ekki allir þá sögu en fyrirtækið var stofnað árið 1996 en á þeim árum voru miklar breytingar að eiga sér stað í íslensku viðskiptalífi. Á þeim tíma var netbólan að þenjast út en um leið áhugaverðir hlutir að gerast í tölvuheiminum sem knúðu áfram nýjar lausnir á mörgum sviðum.
Lánstraust varð þarna til og þó að Reynir kalli fyrirtækið „fjártæknifyrirtæki“ í dag var það ekki orðið sem notað var yfir fyrirtæki eins og Lánstraust á þeim tíma. Líklega var það fremur kallað net- eða upplýsingatæknifyrirtæki, segi það eitthvað í dag. Lánstraust (sem síðar fékk nafnið Creditinfo) þurfti að glíma við margvíslegar hindranir á fyrstu starfsárum sínum en er mikilvægur þáttur í hagkerfi landsins. Þá er útrás fyrirtækisins og starfsemi erlendis ekki síður athyglisverð og veitir áhugaverða innsýn í hvernig íslensk þekking getur þróast og vaxið.
En þessi bók er meira en saga af fyrirtækjarekstri Reynis því hann leggur hér fyrir lesendur persónulegt uppgjör á ævi sinni, hugsunum og tilfinningum sínum. Að sumu leyti verður maður undrandi, það er ekki algengt að menn í viðskiptalífinu séu svo opinskáir og hreinskilnir um slíka hluti því, rétt eins og Reynir sjálfur bendir á, þá vill fólk í viðskiptalífinu ekki gefa höggstað á sér með því að segja frá dýpstu og einlægustu hugsunum sínum, hvað þá því sem hefur bjátað á og angrað menn í gegnum tíðina. Það stöðvar ekki Reyni sem mætir hér með einhverja hreinskilnustu frásögn sem ég hef lengi lesið og afhjúpar lesandann stundum með lýsingum sínum.
Sjálfsskoðun höfundar
„Ég hef í gegnum árin forðast að tala um sjálfan mig og það er nýtt fyrir mér að opna mig á þennan hátt. En ef maður ákveður að gera svona bók þarf maður að koma henni á framfæri og hluti af því er að tala um sjálfan sig. Ég ákvað að vera persónulegur í þessari bók og tala bara um það sem var í gangi á hverju tímabili fyrir sig. Hvort sem það var þegar ég var þunglyndur, eða að opna mig um áfengisvandamál eða ástarsorg, þá lét ég það bara flakka. Það er erfitt að stíga þetta skref og setja þetta út en ég finn að ég er að fá mjög jákvæð viðbrögð eftir að bókin kom út. Það hefur mikið af fólki haft samband við mig og sagt að því finnist óþægilegt hvað það tengi mikið við söguna mína. Það að deila er heilandi fyrir bæði þann sem deilir og þann sem hlustar á söguna. Það að gefa út svona persónulega bók er heilandi fyrir mig,“ sagði Reynir í hlaðvarpi Sölva Tryggvasonar en óhætt er að segja að frásögn hans hafi vakið mikla athygli.
Auðvitað er slík opinberun ekki vandalaus, sumum gæti staðið stuggur af svo persónulegri frásögn og vissulega er vandasamt að draga samferðamenn, ástvini og ættingja inn í hana. En þessi þroskasaga Reynis gengur bara mjög vel upp og eftir stendur mynd af merkilegu lífshlaupi og magnaðri sjálfsskoðun höfundar. Á leið sinni brýtur Reynir ýmsar reglur formsins en kemst upp með það. Frásögnin flakkar á milli tíma sem birtist með þeim hætti að Reynir hefur og líkur hverjum kafla í nútímanum þar sem hann segir frá sjálfum sér á meðan hann dvelst í Wiesbaden í Þýskalandi en þar hefur hann komið sér fyrir á meðan hann skrifar sögu sína. Það brýtur upp frásögnina og tekst að flestu leyti vel og Wiesbaden-frásögnin dýpkar skilning á hinu persónulega ferðalagi Reynis.
Uppbygging Lánstrausts er athyglisverð
„Allar góðar viðskiptahugmyndir eru lausn á vandamáli, þekktu eða óþekktu.“ Þannig greinir Reynir frá upphafi Lánstrausts en viðskiptahugmyndin að baki félaginu var sú að allar fjárhagsupplýsingar væru geymdar í miðlægum gagnagrunni. Það þýðir að aðeins sé til eitt eintak af gögnum og auðvelt að leiðrétta þau, sem og rekja hvert upplýsingar fara. Til þess var Internetið notað en það var að byrja að móta samfélagið á þessum tíma. Hugsanlega rétt eins og gervigreindin er að móta fyrirtækjarekstur í dag. Sýn Reynis var að með áreiðanlegri skráningu upplýsinga mætti bæta aðgengi fólks og fyrirtækja að lánsfé.
Sem blaðamaður á Viðskiptablaðinu í eina tíð fylgdist ég vel með uppbyggingu Lánstrausts þó að augljóslega hafi margt farið framhjá manni. Reynir var þekktur í viðskiptalífinu fyrir einstakan dugnað og elju við að byggja fyrirtækið upp. Í bókinni lýsir hann því hvernig hann nálgaðist það verkefni að setja af stað félag eins og Lánstraust sem mætti tortryggni margra á sínum tíma þó að fáir efist um gagnsemi slíkrar starfsemi í dag.
Það er forvitnilegt að lesa um það hvernig fyrirtæki eins og Lánstraust verður til og lesandinn fær það á tilfinninguna að sagan sé sögð eins og hún gerðist. Reynir meðhöndlar samstarfsmenn sína af virðingu og skilningi, segir kosti og löst á mörgum en lesandinn fær það aldrei á tilfinninguna að neinn fái ósanngjarna meðferð. Það er auðvitað erfitt að dæma um það en í það minnsta hefur enginn gert athugasemd við frásögnina til þessa.
Gögnin eru lykilinn
En þetta var síður en svo einfalt ferðalag enda þurfti að sannfæra marga. Annars vegar um að standa ekki í vegi fyrir framgangi félagsins og láta því í té þær upplýsingar sem það þurfti á að halda. Þá þurfti félagið að standast lögmætisáskoranir í að mörgu leyti óljósu lagaumhverfi. Fjármögnunin virðist hafa verið minna mál enda Reynir sjálfur með eindæmum nægjusamur eins og hann rekur í bókinni. Það tók heldur ekki nema tvö ár að gera félagið arðbært. Afstaða hans til auðsældar er einn af áhugaverðari þáttum bókarinnar en í sögulok stendur hann uppi sem auðugur maður. Á þeim tíma eru það aðrir hlutir en það sem möl og ryð fá grandað sem leita á huga hans.
En þessi saga er í raun gömul og ný áskorun um hvernig beri að taka nýjum lausnum sem koma frá einkageiranum en hið opinbera skapar laga- og stofnanaumhverfið og telur sig eiga gögnin sem þarf að nota.
Í dag eru gögn gríðarlega mikilvæg vegna þeirra möguleika sem vélnám og gervigreind býður upp á. Þannig eru í fórum hins opinbera mjög verðmætar upplýsingar sem gætu stuðlað að framleiðniaukningu og aukinni skilvirkni en engar skýrar reglur eru um hvernig hið opinbera dreifir þessum upplýsingum eða veitir aðgang að þeim. Við þetta þurfti Reynir og Lánstraust að glíma og eru oft áhugaverðar frásagnir í bókinni um það hvernig menn brugðust við óskum hans. Það átti til dæmis við um Tölvunefnd, forvera Persónuverndar. Það getur verið þægilegast fyrir opinberar stofnanir að draga lappirnar þegar nýjar hugmyndir fæðast en ef marka má Reyni þá átti það ekki við um Tölvunefnd, kannski helst vegna málafylgju hans og raka. Það er auðvitað lofsvert ef menn hlusta á rök en í dag er það svo að Lánstraust greiðir hundruð milljóna árlega til opinberra stofnana hér á landi fyrir aðgang að gögnum. Vissulega selur Lánstraust þessar upplýsingar þannig að það er viðskiptavinurinn að lokum sem borgar.
Mannfræði og útrás
En hafi uppbygging fyrirtækisins hér á landi verið áhugaverð þá er lýsing á útrás fyrirtækisins hálfu áhugaverðari. Reynir leggur stund á mannfræði til að undirbúa sig og líklega hefur einlægur áhugi hans á hinum einstöku þjóðum og fólki hjálpað honum. Frásögn Reynis minnir okkur líka á að ekki mistókust allar tilraunir íslenskra fyrirtækja til að hasla sér völl erlendis og gaman að lesa hvaða augum Reynir sér þessar útrásartilraunir. Sumar lýsingarnar eru óborganlegar þegar hann er að glíma við mjög framandi aðstæður. Hann segir stundum örsögur af því og dregur ekki undan að ekki eru allar ferðir til fjár.
„Þegar ég fór í fyrstu könnunarferð til Afríku var ég enn að vinna hjá þýsku fyrirtæki, samstarfið við Schufa. Ég fór í þýska sendiráðið og hitti viðskiptafulltrúa. Hún sagðist hafa eitt ráð handa mér ef ég væri að hugsa um að fjárfesta í Afríku: Ekki gera það.“ (bls. 241) Skemmst er frá því að segja að Reynir fer ekki eftir þessu en hann segir að hver einasta ferð til Afríku hafi verið minnisstæð.
Persónulegur stjórnunarstíll
Reynir víkur sér ekki undan að ræða siðferði að baki starfsemi fyrirtækisins og eigin athafna. Honum virðist umhugað um velferð starfsmanna sinna og hann vefur stjórnunarstíl sinn inn í þau lífsgildi sem hann tekur með sér. Hann gengst þó við mistökum sínum þegar það við á.
„Við höfum alltaf lagt mikla áherslu á gott andrúmsloft á vinnustaðnum. Eitt sinn sagði samstarfsmaður mér að hann hefði unnið á nokkrum stöðum og Creditinfo væri sá eini þar sem ekkert baktal fyrirfyndist. Þannig á það að vera í fyrirtækjum og almennt tel ég reyndar best að maður segi ekki neitt um einhvern sem maður er ekki tilbúinn að segja við hann. Leynimakk er sjaldan til góðs: ef það er eitthvað sem enginn má vita er það líklega ekki góð hugmynd yfirhöfuð.“ (bls. 180) Á næstu síðu kemur hann með lýsingu á hve óvenjulegur stjórnandi hann var. „Í Creditinfo var aldrei lognmolla. Ekki á minni vakt allavega. Nýju hluthöfunum sem komu inn 2006 þótti nóg um. Sá sem fór fyrir þeim, Graham, sagði mér að ég byggi til óreiðu (Reynir, you make a mess). Ég tók það til mín og fór strax að reyna að koma á skýrara skipulagi og boðleiðum. Móta stefnu um hvað við vildum gera og enn frekar hvað við ætluðum ekki að elta. Jafnvel búa til skipurit í fyrsta skipti. Það leið samt ekki ár áður en hann tók þetta til baka. Sagði að orkan í fyrirtækinu kæmi að miklu leyti frá þessari óreiðu sem ég skapaði.“ (bls 181) Mörgum finnst sjálfsagt fengur í lýsingum Reynis þegar hann er að takast á við stjórnun á fyrirtæki sem vex hratt um allan heim.
Ekki verður séð annað en að þessi sjálfsskoðunarbók Reynis hafi fengið góðar viðtökur og hann hefur upplýst að hún marki upphaf að rithöfundaferli hans. Reynir er athyglisverður maður og eftir að hafa lesið bókina trúir maður því að hann geti gert allt sem hann tekur sér fyrir hendur. Því skyldi hann ekki geta orðið rithöfundur ef hugur hans stæði til þess? Ekkert í þessari bók mælir gegn því.
Fjórar árstíðir - sjálfsævisaga
Höfundur: Reynir Finndal Grétarsson
Útgefandi: Sögur útgáfa
Útáfuár: 2025
348 bls.