Grænland er okkar næsti nágranni og hefur verið mikið í umræðunni undanfarið ár. Segja má að Donald Trump Bandaríkjaforseti hafi sett þessa stærstu eyju heims rækilega á kortið með ummælum sínum og lítt duldri ásælni. Orð Trumps komu róti á hina pólitísku umræðu í Grænlandi og Danmörku en undir niðri eru alvarleg efnahagsleg skilaboð sem draga fram mikilvægi Grænlands.
Fáir þekkja betur til á Grænlandi en Eldur Ólafsson, forstjóri og stofnandi námuvinnslufyrirtækisins Amaroq, sem hefur nú verið þrjú ár í íslensku kauphöllinni og er án efa eitt af mest spennandi og um leið óvenjulegustu félögum kauphallarinnar. Eldur mætti í hlaðvarpið Hluthafaspjallið fyrir stuttu og ræddi þar hin gríðarlegu tækifæri sem eru á Grænlandi. Eldur sagði að ef rétt sé haldið á spilum sé þar að finna eitt stærsta tækifæri íslensks viðskiptalífs. Orð sem ættu að vekja mikla athygli í ljósi stöðu Elds og þekkingar.
Augljós samstarfsaðili
Hér var í pistli fyrir 13 árum bent á að Ísland sé augljósi samstarfsaðili Grænlands. Á Íslandi hefur byggst upp mikil þekking á uppbyggingu innviða í harðbýlu landi. Íslensk verkfræðifyrirtæki og íslensk verktakafyrirtæki hafa haslað sér völl í Grænlandi og það með góðum árangri. Ef marka má umsagnir þeirra Íslendinga sem þar starfa þá njóta Íslendingar velvilja þar. Svo mjög umfram Dani að verktakafyrirtækið E. Phil & Sön í Danmörku lét á sínum tíma íslenskt dótturfélag, Ístak, um framkvæmdir á Grænlandi. Um leið hefur íslenska ferðaþjónustan verið að efla samstarf sitt við Grænlendinga. Margt af þessu hefur gengið vel en augljóslega má gera enn betur en þess má geta að Kristján Már Unnarsson, fréttamaður Stöðvar 2, hefur verið óþreytandi við að segja fréttir frá Grænlandi.
Eldur benti á að á Grænlandi séu að skapast mörg tækifæri til að taka þátt í þeirri miklu uppbyggingu sem er framundan þar. Eins og áður sagði er landið nú í hringiðu alþjóðlegrar athygli en náttúruauðlindir landsins eru miklar og að miklu leyti ónýttar. Í viðtalinu rakti Eldur rekstur og framtíðarsýn Amaroqs en hann segir félagið vel fjármagnað og með traustan hluthafahóp.
Amaroq í einstakri stöðu
Námugröftur á Grænlandi kallar á mikla innviðauppbyggingu þar í landi og Eldur segir Amaroq í einstakri stöðu til að stýra því og benti hann á að félagið stefndi að því að vera lykilaðili í þeirri uppbyggingu sem er framundan á Grænlandi.
Eldur benti á að heimskautasvæðin séu þau áhugaverðustu í heiminum þegar kemur að leit að fágætismálmum og námuvinnslu. Stórir námavinnsluaðilar eru því að ýta fjárfestingum sínum inn á þetta svæði þessi misserin eins og sést vel í áhuga Bandaríkjamanna og fleiri. Stærstu námuvinnslufélög heims horfi til Grænlands og Kanada og því geti staða Amaroq orðið einstök þegar félagið er búið að koma sér fyrir á Grænlandi. Ekki skipti síður máli hinn pólitíski stöðugleiki og trausta stjórnsýsla sem fylgir þessu svæði. Eldur bendir á nýleg áföll námuvinnslufyrirtækja sem vinna gull í Malí í Afríku. Þar hafi félögin verið tekin af eigendum sínum og starfsmenn fangelsaðir. Slíkt framferði eykur kostnað og dregur úr áhuga námufyrirtækja á að starfa þar. Þarna hefur Grænland mikið forskot.
Bandarískir sjóðir og bandaríska ríkið í viðræðum við Amaroq
Eldur segir að staða og reynsla félagsins hafi vakið athygli margra og nú sé félagið í viðræðum við bandaríska sjóði og bandaríska ríkið um frekara samstarf. Eldur segir að þetta séu eðlilegar viðræður í ljósi þróunar undanfarinna missera og þeirrar stöðu sem hefur verið að teiknast upp, en sérstaklega aukinnar eftirspurnar eftir fágætismálmum. Bandaríkin, Evrópusambandið og svo einstök lönd horfa mikið til Grænlands og Amaroq hefur að mörgu leyti einstaka stöðu, segir Eldur. Bæði vegna þeirrar aðstöðu sem félagið er búið að byggja upp en ekki síður vegna þeirrar reynslu og þekkingar sem félagið hefur aflað sér á Grænlandi sem er einstök. Það væri hraplegt ef íslensk stjórnvöld hlustuðu ekki á ábendingar Elds og efldu samskipti við Grænland enn frekar.