c

Pistlar:

15. október 2025 kl. 16:57

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Nóbelinn til hagsögufræðings

Athygli flestra við Nóbelsverðlaunin þetta árið beindist á því hvort Donald Trump Bandaríkjaforseti fengi friðarverðlaunin. Svo fór ekki en hugsanlega var málamiðlun í því fólgin að láta stjórnarandstæðing í Venesúela fá þau sem þar að auki talaði vel um Trump sem hefði sjálfsagt þegið að fá hagfræðinóbelinn sem sárabót. Það gerðist ekki heldur en hann fór til þeirra Joel Mokyr frá Hollandi, Philippe Aghion frá Frakklandi og Peter Howitt frá Kanada. Þremenningarnir fengu Nóbelsverðlaunin í hagfræði fyrir rannsóknir sem hafa varpað ljósi á hvernig nýsköpun og tækniframfarir knýja áfram hagvöxt og hvernig nýjar hugmyndir og uppfinningar ryðja eldri aðferðum úr vegi, ferli sem kalla má „skapandi eyðileggingu“ (e. creative destruction).joel-mokyr-nobel-prize1940__FitMaxWzk3MCw2NTBd

Joel Mokyr, hagfræðingur og efnahagssagnfræðingur við Northwestern-háskóla í Bandaríkjunum, hlaut hálfan hluta af Nóbelsverðlaunum á móti hinum tveimur fyrir rannsóknir sínar á hvernig nýsköpun knýr sjálfbæran efnahagskostnað. Mokyr er sem sagt hagfræðingur og sagnfræðingur og er að sögn tímaritsins Economist klofinn þarna á milli og veit ekki hvorri fræðigreininni ber að sinna betur. Í grein í Economist er bent á að Mokyr skrifi betur en nánast allir jafningjar hans og skrifi bækur sem jafnvel leikmaður gæti freistast til að taka úr hillunni. En hann rökræðir eins og hagfræðingur og er ekki hræddur við tölur, sem setur hann utan meginstraums fræðasögunnar. Ef hann færi inn í akademíuna í dag gæti hann átt erfitt með að fá eftirsóttustu störfin segir Economist. Johan Norberg, sagnfræðingur og rithöfundur, þakkar Mokyr sérstaklega fyrir innblástur á heimasíðu sinni en um bók hans Framfarir var fjallað hér á sínum tíma.

Sigur fyrir hagsöguna

Hagsögutenging Joel Mokyr dregur fram að einu sinni var tregða við að verðlauna hagsöguna, hún var svolítið óhreina barn hagfræðinnar. En svo vill til að á síðasta ári vann Daron Acemoglu frá Massachusetts Institute of Technology verðlaunin en hann er einmitt hvað þekktastur fyrir verk sín um sögulega þróun. Árið áður vann Claudia Goldin, hagsögusagnfræðingur við Harvard-háskóla, verðlaunin ein. Og árið 2022 deildi Ben Bernanke, fyrrverandi seðlabankastjóri Bandaríkjanna, verðlaununum með tveimur öðrum fyrir hagsögurannsóknir sínar um kreppuna miklu.

En víkjum aftur að Joel Mokyr sem fær verðlaunin núna fyrir greiningar sínar á forsendum fyrir sjálfbærri efnahagsþróun eins og hún birtist í gegnum tækniframfarir. Í rannsóknum sínum leggur hann áherslu á það hvernig samfélagleg og menningarleg skilyrði séu forsendur vísindalegra uppgötvana og að hagnýtar nýjungar styðjist hver við aðra og skapi sjálfvirkt ferli sem leiði til stöðugs vaxtar. Hann hefur lagt áherslu á að samfélög þurfi ekki aðeins að vita að eitthvað virkar, heldur hvers vegna það virkar.

Það var áhugavert að hlusta á fyrirlestur sem hann hélt á athöfn sem haldin var við skóla hans í tilefni verðlaunanna. Spaugilegt var þegar hann sagðist vera talinn til vinstri hagfræðimegin en til hægri þegar hann væri meðal sagnfræðinga. Þetta er áhugaverð nálgun en um leið sagðist hann trúa á að tækniframfarir leysi flest vandamál mannkynsins. Hann nefnir sérstaklega breytingar vegna fólksflutninga og fjölgun mannkynsins og svo auðvitað loftslagsbreytingar. Mokyr segir að mikilvægt sé að verja fjármunum í að leysa þau mál.

Sögulegt samhengi efnahags og vísinda

Mokyr hefur löngum í sínu starfi einblínt á tengsl efnahags og vísinda, sérstaklega í sögulegu samhengi. Hann er þannig þekktur fyrir að sameina hagfræði, sögu og vísindasögu til að skýra hvernig efnahagur nútímans hefur þróast. Í lykilverki hans Kenning um menningu vaxtar (Culture of Growth: The Origins of the Modern Economy) frá 2016 útskýrir Mokyr hvernig upplýsingin á 18. öld í Evrópu skapaði „menningu vaxtar“ sem gerði iðnbyltinguna mögulega. Hann leggur til að opið samfélag, þar sem nýjar hugmyndir eru vel þegnar og vísindi eru aðskilin frá trúarbrögðum og stjórnvöldum, sé lykillinn að tækniframförum. Þetta er ekki aðeins söguleg greining heldur fellir hann þessa skoðun að hagfræðilegum ramma sem sýnir hvernig menningarlegir þættir (trúarbrögð, gildi og stofnanir) stuðla að efnahagslegum umbreytingum. Hann beinir sjónum sínum að stofnunum samfélagsins og telur að þær séu of veikburða í dag.joel

Ef við horfum til tengsla vísinda og hagnýtrar nýsköpunar þá sýnir Mokyr fram á að sjálfbær efnahagsvöxtur krefst þess að þekking sé ekki einungis „hagnýt“ (að vita að eitthvað virkar) heldur líka „propositionel“, að skilja hvers vegna það virkar. Þetta skapar sjálfvirkt ferli þar sem nýjungar byggja á fyrri uppgötvunum, eins og sést í dæmum úr sögunni um handarþvott Semmelweis og bakteríufræði. Þetta framlag er grundvallaratriði í skilningi á hvernig tækniþróun stuðlar að stöðugum vexti yfir aldirnar.

Af hverju varð iðnbyltingin í Englandi?

Í verkum sínum, eins og The Lever of Riches (1990), ræðst hann í sögulega greiningu iðnbyltingarinnar. Rannsóknir Mokyrs skýra hvers vegna iðnbyltingin braust fram í Englandi frekar en í öðrum löndum eins og fjallað hefur verið um hér í pistli. Stofnanir sem vernda einkaeignarréttindi, miðla þekkingu og hvetja til samkeppni voru lykillinn að mati Mokyr. Þetta hefur haft áhrif á nútímahagfræði, til dæmis í umræðum um hvernig stefna þegar kemur að innflytjendamálum og tollum geti hindrað nýsköpun.

Mokyr er auðvitað vel þekktur og hefur fengið aðrar viðurkenningar eins og Balzan-verðlaunin í efnahagssögu árið 2015. Þá hafa rannsóknir hans haft áhrif á umræður um gervigreind og framtíðarvöxt. Mokyr hefur varað við stefnum sem takmarka opnun samfélagsins, eins og verndarstefnu, sem gætu stöðvað nýsköpun. Þegar á allt er litið hafa rannsóknir hans ótvírætt hjálpað hagfræðingum að skilja betur hvernig samfélög geta haldið uppi vexti án þess að staðna.