Hafi einhver haft vonir um að það sé hægt að starfa með hryðjuverkasamtökum Hamas að því að byggja upp þjóðfélag á Gaza þá hljóta þær vonir að hafa brugðist. Framferði Hamas-samtakanna í kjölfar þess að ísraelski herinn hörfaði frá hluta Gaza afhjúpar þeirra rétta eðli. Uppgjör og aftökur birtast nú daglega þegar Hamasliðar skríða út úr neðanjarðarbyrgjum sínum þar sem þeir hafa haldið sig á meðan barið var á þjóð þeirra. Það fyrsta sem Hamasliðar gera er að hefja aftökur á meintum samstarfsmönnum Ísraelsmanna og nú fær heimurinn að horfa upp á myndbönd og myndir sem sýna aftökur með hnakkaskotum á torgum Gaza, auðvitað án dóms og laga. Vígasveitir Hamas fara um í vopnuðum hópum á Gaza með hulin andlit og grípa alla þá sem þær telja ógnun við sig og segja þá samverkamenn Ísraelsmanna. Skáldið Kristján frá Djúpalæk orti minnistætt kvæði, Slysaskot í Palestínu, en Hamas hefur breytt því í hnakkaskot í Palestínu.
Síðustu daga hafa ofbeldisfull átök brotist út milli Hamas og andstæðinga þeirra á nokkrum svæðum víðsvegar um Gaza og því hafa birst atvik af opinberum aftökum Hamas. Fyrir vikið hafa margir áhyggjur af öryggisástandinu eftir að Ísrael dró sig til baka frá hlutum svæðisins en vopnahléssamkomulagið byggði meðal annars á því. Og að Hamas afvopnaðist.
Aftökusveit Hamas
Fréttir af ofbeldinu hafa birst víða á samfélagsmiðlum, þar á meðal eitt einstaklega hryllilegt myndband sem Hamas-tengdar rásir tóku upp en það sýnir hóp grímuklæddra bardagamanna, sumir hverjir með græn Hamas-höfuðbönd, drepa átta einstaklinga sem krjúpa á jörðinni með bundið fyrir augun. Þeir eru síðan skotnir í hnakkann af aftökusveit undir herópum. Þetta gerðist á torgi í Gaza-borg á meðan mikill mannfjöldi horfði á, hugsanlegt merki um þá grimmd sem Hamas hyggst styðjast við til að endurvekja stöðu sína sem ráðandi afl á Gaza.
Í frétt CNN segir að öryggissveitin Radaa, sem tengist Hamas, hafi gefið út yfirlýsingu um að hún hefði „framkvæmt nákvæma aðgerð í miðborg Gaza-borgar sem leiddi til þess að nokkrir eftirlýstir einstaklingar og útlægir voru gerðir óvirkir (neutralization).“
CNN og fleiri fjölmiðlar hafa staðfest hvar myndbandið var tekið upp eða í al Sabra hverfinu í vesturhluta Gaza-borgar. Nákvæm tímasetning hefur ekki fengist. Viðbrögð hafa flest verið á eina lund, þau lýsa hryllingi yfir framferði Hamas. Því skera ummæli Hjálmtýs Heiðdals, formanns samtakanna Ísland Palestína, sig úr en klippa af þeim fylgir hér með. Ekki verður séð annað en að Hjálmtýr sé að reyna að réttlæta atvikið. Það þarf ekki að taka fram að þetta er aftaka án dóms og laga, ekkert lögmæti er fyrir hendi sem réttlætir verknaðinn. Hann er hrein og klár hefnd og sýnir hvernig Hamas vinnur.
Rannsókn CNN bendir til þess að atvikið hafi átt sér stað eftir að vopnahlé milli Ísraels og Hamas tók gildi, þar sem ísraelskir hermenn voru að störfum á svæðinu áður. Skemmdir á byggingunum sem sjást í myndbandinu frá stríðsátökunum benda til þess að það hafi verið tekið upp nýlega. Fangarnir, sem allir virðast vera fullorðnir karlmenn, sjást vera dregnir inn á torgið, með hendur bundnar fyrir aftan bak. Sumir bardagamennirnir sjást berja nokkra fanga af hörku þegar þeir eru raðaðir upp til aftöku. Sumir hafa verið að hluta til afklæddir og eru berfættir. Þeim er stillt upp og þeir skotnir. Bardagamennirnir fagna eftir að hafa skotið fangana.
Palestínskar fylkingar og mannréttindasamtök fordæmdu aftökurnar. Skrifstofa Mahmoud Abbas, forseta Palestínu, sendi frá sér yfirlýsingu þar sem morðin voru fordæmd og kölluð „hrottaleg glæpi“ og „gróft brot á mannréttindum“. New York Times hefur eftir sérfræðingum að Hamas virðist vera að reyna að sýna fram á að samtökin séu enn ráðandi afl á svæðinu, sama hversu veikluð þau eru eftir tveggja ára stríð við Ísrael.
Dauðadýrkun Hamas
Í bók sinni Um lýðræði og dauðadýrkun: Ísrael og framtíð siðmenningar (On Democracies and Death Cults: Israel and the Future of Civilization) ræðir sagnfræðingurinn og rithöfundurinn Douglas Murray um það sem hann kallar dauðadýrkun (death cult) sem hann telur að fylgi samtökum eins og Hamas. Murrey hefur gagnrýnt þá nálgun margra vestrænna leiðtoga að ramma inn átökin á Gaza sem átök kúgara gegn kúguðum. Í raun snúist þau um baráttuna á milli fjölþjóðlegs lýðræðis og dauðadýrkunar sem stefnir að því að tortíma Ísraelsríki með öllum ráðum. Murrey er aðstoðarritstjóri breska ritsins The Spectator og skrifar reglulega í The Times og The Daily Telegraph.
Murrey hefur sagt að það sé vonlaust að nálgast lausn með Hamas við völd. Í hlaðvarpsþætti Joe Rogan í maí síðastliðnum sagði Murrey að kostnaðurinn við að leysa ekki upp Hamas gæti orðið meiri en að ganga alla leið og binda enda á valdatíð samtakanna. „Að halda Hamas áfram starfandi þýðir annað stríð einhvern tímann. Þannig að allt annað en sigur er ósigur og við höfum ekki efni á ósigri. Það skapar óviðráðanlegt ástand,“ sagði Murray.