c

Pistlar:

28. maí 2015 kl. 13:10

Svanur Guðmundsson (svanur.blog.is)

Íslenskur sjávarútvegur

Í dag heyrast kröfur frá háværum hópi sem vill stærri hluta af afkomu sjávarútvegsins í sameiginlega sjóði. Þessi hópur vill hærri auðlindagjöld, hærri skatta og uppboð á veiðiheimildum. Að öðrum kosti verði ekki sátt um sjávarútveginn. 

Þetta eru ósköp eðlileg sjónarmið en það gleymist gjarnan í þessari umræðu að þegar kvótakerfinu var komið á, vildu fáir  sem þar störfuðu kvóta á veiðarnar. Enn færri höfðu  lausn á þeim vanda sem sjávarútvegurinn stóð frammi fyrir á þeim tíma.  Útgerðarfélögum var skammtað hvað mikið mátti veiða af hverri tegund og fengu á sig sektir ef farið var framúr í veiðum. Aflinn, sem var til skiptanna, var mun minna en afkastageta flotans sagði til um.

Á þessum tíma blasti ekkert annað við en mikil fækkun skipa og sjómanna. Vinnsla í landi dróst  saman með fækkun fiskvinnslufólks.  Margar sársaukafullar ákvarðanir voru teknar um sölu skipa og lokun vinnslustöðva. Fyrirtæki sameinuðust og reyndu  að leita leiða til að lifa af niðurskurðinn.

Afkoma og öryggisjóslys

Eftir nokkurra ára hagræðingaferil fór að rofa til í rekstri. Kvóti og bátar hækkuðu í verði og urðu söluverðmæti. Smám saman fór útgerð hér við land að skila arði og eigendur gátu notið afrakstursins  eða  fjárfest í rekstrinum til að bæta hann. Nokkuð  sem menn vissu varla hvað var á árunum áður. Fjárfest var í betri skipum og tækni sem leiddi til enn betri afkomu. Þetta hafði margvíslegar jákvæðar afleiðingar. Ein stærsta breytingin er að við höfum nú fengið þrjú ár þar sem enginn íslenskur sjómaður hefur farist á sjó. Á árunum 1971 til 1980 fórust 203 sjómenn við veiðar.

Norskir sjómenn hálfdrættingar á við íslenska

Nú greiða sjávarútvegsfyrirtæki háa skatta til samfélagsins og að auki auðlindaskatta sem aðrar greinar bera ekki. Aðrar þjóðir eru farnar að horfa til þess hvernig íslenskur sjávarútvegur er rekinn og hvernig við höfum náð að nýta auðlindir okkar á sjálfbæran hátt. Árið 2012 var Ísland í 18. sæti á listanum yfir stærstu fisksveiðiþjóðir heims. Á Eurostat, upplýsingasíðu Evrópusambandsins, sést að það eru aðeins Norðmenn sem veiða meira en við í magni. Samtals veiða Íslendingar ásamt Norðmönnum sem svarar 70% af öllum afla Evrópusambandsins. Ekki er auðvelt að finna hve margir vinna við sjómennsku í þessum löndum en í Noregi starfa 11.577 sjómenn og hver sjómaður dregur 167 tonn að landi á ári. Íslenskur sjómaður kemur með 364 tonn á landi á ári eða rúmlega tvöfalt meira en norski sjómaðurinn. Það er von að mörgum í útgerðinni finnist þeir vera í sporum litlu gulu hænunnar sem sáði korni og gat bakað úr því brauð. Enginn vildi hjálpa til en þegar brauðið var tilbúið þá vildu allir borða brauðið. Þá sagði litla gula hænan. Nei, nú get ég.