c

Pistlar:

30. mars 2020 kl. 14:38

Svanur Guðmundsson (svanur.blog.is)

Verjum Bláa hagkerfið

Alþjóðasamfélagið er í auknum mæli farið að beina sjónum að hafinu og vistkerfi þess og þar stöndum við öðrum þjóðum framar.

Það getur margt reynt á þolrif þeirra sem starfa í íslenskum sjávarútvegi í dag. Ekki einungis þurfa menn að fást við vandasaman rekstur, óblíð náttúruöfl og ótrygga markaði heldur ekki síður andsnúna og villandi umræðu hér heima við. Þannig virðast margir finna útgerðinni það helst til foráttu að hún er þrátt fyrir allt rekin með hagnaði. Eins ótrúlegt og það er, virðist það helsta vandamál sjávarútvegsins í hugum sumra. Umræðan virðist þannig lituð af fordómum og öfund og er það með ólíkindum þegar horft er til þess hve farsællega hefur gengið að breyta sjávarútveginum í vel rekin atvinnuveg sem beitir nýjustu tækni við að nýta viðkvæma náttúruauðlind án þess að ógna eða raska henni. Þannig höfum við reynst öðrum þjóðum góð fyrirmynd.

Auðlindastýring og endurgjald

Flestum má vera ljóst að samfélagsleg ábyrgð sjávarútvegsfyrirtækja er að mörgu leyti meiri en gengur og gerist í atvinnulífinu en margar byggðir reiða sig á veiðar og vinnslu. Þá er framleiðni vinnuafls og laun betri en víðast annars staðar. Þrátt fyrir það greiðir sjávarútvegurinn auðlindagjald, ein starfsgreina á Íslandi. Á meðan eru margar aðrar starfsgreinar að nýta sameiginlegar náttúruauðlindir án þess að greiða fyrir. Þar er forvitnilegt að horfa til ríkisfyrirtækja sem mörg hver virðast rekin án afskipta ríkisins og skammta sér og sínum laun. Um leið ráða þau sjálf verðlagningunni á þjónustunni og borga ekkert fyrir aðganginn. Er ég þar að tala um Landsvirkjun og Orkuveitu Reykjavíkur.

Það sem er sameiginlegt með sjávarútvegi og orkufyrirtækjum að þau nýta auðlindir landsins. Orkufyrirtækin nota vatnið sem fellur á landið en útgerðin það sem syndir í sjónum. Hvorutveggja er takmörkuð auðlind sem er nýtt með miklum og dýrum aflvélum á sjó eða grafin í fjöll. Nýtingin er hámörkuð á hverjum tíma með reiknilíkönum sem taka tillit til notkunar yfir árið og í samræmi við markaðsástand hverju sinni. Fjárfesting í búnaði er gríðarleg og afskrifast á löngum tíma og því þarf langtímaáætlannagerð og -nýtingu um þann búnað. Skyndilegar breytingar á rekstrarumhverfi eru hættulegar, bæði fyrirtækjum og samfélögum sem þau starfa í.

Ýmsir óábyrgir aðilar hafa bligðunarlaust kallað eftir breytingum á fiskveiðistjórnunarkerfinu og vilja umbylta því. Breytingar á umhverfi þessara fyrirtækja gerast á löngum tíma og snöggar breytingar á rekstrarumhverfi eru kostnaðarsamar og til tjóns fyrir atvinnugreinar, svo og fólkið sem þar vinnur.

Það væri óskandi að við Íslendingar gætum tekið höndum saman um að horfa á jákvæðu hliðar þess sem við höfum náð að gera í okkar gjöfula en erfiða landi og þá sérstaklega í orkuvinnslu og innan sjávarútvegs. Staðreyndin er sú að það eru fáar ef nokkrar þjóðir með eins þróaðan sjávarútveg og við hér á landi. Tæknifyrirtæki, sem selja búnað sem hannaður hefur verið fyrir íslenska fiskvinnslu, selja þennan búnað í matvælavinnslu út um allan heim. Íslenskir sjómenn eru eftirsóttir og veiðafæratækni okkar eru notuð meðal flestra þjóða sem stunda veiðar með afkastamiklum skipum.

Bláa hagkerfið

Staðreyndin er sú að tugir þjóða, sem hafa aðgang að fiskimiðum, eru ýmist ekki að nýta sínar auðlindir eða arðræna þær með ofnýtingu. Heildarveiði þjóða heims er um 80 milljónir tonna á ári og hefur svo verið síðastliðin 30 ár. 70% veiða eru stjórnlausar. Þróunarþjóðir veiða um 75% af heimsaflanum (2015). Við teljumst eðlilega vera þróuð þjóð og getum miðlað okkar þekkingu til þjóða sem skemmra eru á vegi staddar á sviði sjávarútvegs, svo og annar staðar þar sem við höfum náð góðum árangri, eins og í orkuvinnslu. Hér á landi höfum við búið til forskrift að kerfi sem ætti að geta nýst öðrum þjóðum. Alþjóðasamfélagið er í auknum mæli farið að beina sjónum að hafinu og vistkerfi þess og þar stöndum við öðrum þjóðum framar. Eigum við ekki að beina kröftum okkar að því að vekja upp áhuga alþjóðastofnana og annarra ríkja að því sem við höfum gert hér með fiskveiðistjórnunarkerfi okkar þar sem áhersla hefur aukist á Bláa hagkerfinu og heimsmarkmiði #14.

Í stað þess að reyna að breyta því sem ekki þarf að breyta gætum við einbeitt okkur að því að veita þjóðum aðstoð á þeim sviðum sem við höfum náð árangri en það er auðlindastýring. Þar er ég kominn að kjarna málsins. Í stað þessa að eyðileggja það sem í lagi hér á landi eigum við að hætta að hlusta úrtöluraddir þeirra sem þjást af hugsjónaörbyggð og þess í stað sækja á ný mið. Þannig getum við unnið að því að styðja við þau heimsmarkmiðum sem við höfum skrifað undir og eigum að efla.

Þannig byggjum við betri jörð.

Höfundur er sjávarútvegsfræðingur og framkvæmdastjóri Bláa Hagkerfissins.

Grein birt í Morgunblaðinu 25 mars 2020