c

Pistlar:

28. desember 2017 kl. 16:28

Davíð Þorláksson

Farveitur eru framtíðin

Danir, Svíar og Finnar hafa fært leigubílalöggjöf sína til nútímans með því að afnema aðgangshindranir að greininni. Stærstu hindranirnar í íslenskri löggjöf eru takmarkanir á fjölda leigubílaleyfa og skylda fyrir bílstjóra til að tilheyra leigubílastöð. Fjöldatakmörkunin þjónar engum öðrum tilgangi en að standa vörð um þá sem fyrir eru í greininni. Stöðvaskyldan var kannski þægileg fyrir neytendur áður, en hún þjónar ekki tilgangi lengur með tilkomu snjallsíma og snjallforrita. 

Íslenskir og norskir stjórnmálmenn eiga ekki annarra kosta völ en að afnema þessar hindranir eftir að Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) komast að þeirri niðurstöðu að sambærilegar hindranir í Noregi stæðust ekki EES samninginn. ESA hefur þegar sent íslenskum stjórnvöldum bréf vegna þessa. Afnám aðgangshindrana auka samkeppni sem skilar sér í lægra verði, betri þjónustu og meiri nýsköpun, sveigjanleika og öryggi. Allt þetta skilar þjóðhagslegum ábata fyrir alla.

Mynd

Það eru ekki nema sex ár síðan farveitur eins og Uber og Lyft hófu starfsemi. Langtímaáhrif af starfsemi þeirra á umferð og borgarskipulag hafa því ekki komið að fullu fram. Farveiturnar segja að markmið þeirra sé að greiða fyrir umferð. Það er enda rökrétt þar sem þær bjóða, ólíkt leigubílum, upp á að ókunnugir geti deilt bílum. Þar að auki má gera ráð fyrir að lægra verði minnki þörf fyrir einkabíla og gæti fækkað bílum á götunum. Innkoma farveita á markaðinn eru einnig líkleg til að minnka þörf fyrir bílastæði og útrýma þörf fyrir leigubílastæði.

Jón Gunnarsson, þáverandi samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, skipaði starfshóp um heildaryfirferð regluverks um leigubifreiðaakstur sem á að ljúka störfum í mars næstkomandi. Hópurinn óskaði eftir sjónarmiðum ýmissa aðila, þar á meðal Samtaka atvinnulífsins sem hafa sent þeim ítarlega umsögn. Boltinn er nú hjá hópnum, en í ljósi ofangreinds er vandséð að hann geti komist að annarri niðurstöðu en að afnema framangreindar aðgangshindranir. Í kjölfarið þyrfti nýr ráðherra að leggja fyrir þingið að breyta lögunum og hann sjálfur að gera viðeigandi breytingar á reglugerð. 

Farveitur eru því framtíðin á Íslandi þótt nokkuð sé síðan þær urðu hluti af daglegum samgöngum fjölda fólks beggja megin Atlantshafsins.

Davíð Þorláksson

Davíð Þorláksson

Forstöðumaður samkeppnishæfnisviðs Samtaka atvinnulífsins. MBA frá London Business School og lögfræðingur frá Háskóla Íslands. Meira