Pistlar:

13. desember 2016 kl. 18:53

Þorsteinn Þorsteinsson (thorthor.blog.is)

Ný sýn á orkumál

Konur í orkumálum (KÍO) stóðu nýlega fyrir opnum fundi hjá Arion banka. Yfirskrift fundarins var: „Oft veltir lítil þúfa þungu hlassi: Eru smávirkjanir framtíðin?“ Hrósa ber KÍÓ fyrir þetta framtak. Hugmyndin um aukna nýtingu smærri virkjanakosta hérlendis er í takti við þróunina erlendis og þá hugsun að margt smátt geri eitt stórt. Umræðan kallast að sama skapi á við þau hagfræðilegu vatnaskil sem felast í innreið deilihagkerfis víða um heim. Viðskiptaeiningar á borð við Über, Lyft, og Airbnb hafa skapað nýja tegund markaðstorgs þar sem hver reiðir sig á framtak og fjárfestingar annarra.

Áhugaverður samanburður
Margt fróðlegt kom fram á fundinum. Smærri virkjanir í héraði, bæði rennslisvirkjanir, vindrafstöðvar og aðrir orkuöflunarmöguleikar, hafa sína kosti. Hér má nefna aukið afhendingaröryggi og minni flutningskostnað vegna nálægðar við notendur. Staðsetning slíkra smávirkjana víðs vegar um land getur reynst hagkvæm í bland við stærri orku- og flutningsmannvirki. Því fleiri sem smáu orkueiningarnar eru, þeim mun betri grundvöllur skapast fyrir staðbundið deili- og samstarfsnet. Og þeim mun meiri getur ávinningurinn jafnframt orðið, bæði fyrir viðkomandi framleiðslueiningar og samfélagið í heild.

Ef lítil rennslisvirkjun eða vindmylla framleiðir mun meiri orku en eigandinn hefur þörf fyrir, getur verið hagkvæmt að senda afgangsorkuna í gegnum tenginet þangað sem hennar er þörf. Þar með léttir líka á orkuþörf í gegnum stóru flutningskerfin og sveigjanleiki eykst í raforkukerfinu í heild.

Áhugavert er að skoða þessar staðreyndir í samhengi við áherslur Landsnets í flutningsmálum en fyrirtækið kynnti nýlega kerfisáætlun fyrir tímabilið 2016 til 2025. Aðallega er þar til skoðunar að leggja nýja byggðalínu umhverfis landið eða leggja línu yfir hálendið. Hvort tveggja kallar á dýrar framkvæmdir með tilheyrandi umhverfisraski. Slíkar framkvæmdir eru vafa undirorpnar, ekki bara vegna þess að forðast verði þenslu í ríkisfjármálum, heldur vegna þess að ekki eru dæmi um neitt slíkt hámarksálag að ræða á byggðalínuna að það kalli á stækkun hennar. Einu tilvikin þar sem þörf er fyrir meiri flutningsgetu er staðbundin þörf frá virkjun yfir í stóriðjuver. Slíkan vanda er best að leysa staðbundið.

Áhugaverður möguleiki væri að ríkið/Landsnet veiti jafnvel styrki til uppbyggingar á röð smávirkjana þar sem þörf væri á til að þurfa ekki að ráðast í miklu dýrari uppbyggingu á stóra flutningakerfinu. Ef miðað er við framleiðslu á 100 MW samanlagt gæti slíkur styrkur t.d. numið 5-10 milljörðum ef miðað er við 10-20% af kostnaði. Á móti má hugsa sér sparnað í kringum 100 milljarða við byggingu nýrrar byggðalínu.

Ný hugsun að taka við?
Sjálfbærar leiðir til öflunar raforku eiga upp á pallborðið hjá neytendum og hneigð í þá veru er greinileg á heimsvísu, eins og fram kom á fundi Kvenna í orkumálum. Áherslan er á dreifðari raforkuvinnslu og að hún sé nær notandanum. Sólarsellur á húsþökum eru dæmi um eigin heimilisrafstöðvar. Einnig er verið að þróa vinnslu orku úr jarðhita fyrir heimilisafnot.

Óumdeilt er að Ísland er vel til þess fallið að beisla vindorku. Íslenskt fyrirtæki, sem hefur verið að þróa leiðir á þessu sviði, er Icewind, sem hefur þróað litlar vindrafstöðvar til heimilisnota. Einnig má nefna XRG Power sem hefur þróað einkarafstöðvar þar sem rafmagn er unnið úr jarðhita.

Athyglisverðast er þó kannski að smærri virkjanir hér á landi, sem eru nær notandanum, virðast vera samkeppnishæfar við stærri virkjanir ef rétt er á spöðunum haldið. Hér er fyrst og fremst um að ræða smærri vatnaflsvirkjanir en aðrir kostir virðast einnig vera að ryðja sér til rúms. Búnaður í smærri vatnsaflsvirkjanir er orðinn mjög tæknilega þróaður og eftir því sem meira er keypt af honum, þeim mun lægra verður verðið eins og raunin hefur orðið með sólarsellur undanfarin ár.

Ýmislegt bendir því til nýs blómaskeiðs „smávirkjana“ eins og forðum daga í sveitum landsins þegar bændur virkjuðu bæjarlækinn. Smávirkjanir og litlar rafstöðvar til heimilisnota eru a.m.k. kostir sem vert að skoða nánar. Óhætt er að fullyrða að það séu virkilega spennandi tímar framundan en eigi verulegur árangur að nást, er nauðsynlegt að innviðir og kerfi lagi sig að breytingunum, þ.e. mörgum litlum orkuuppsprettum.

15. september 2016

Góður árangur í umhverfismálum

Samkvæmt nýrri umhverfisvísitölu Yale háskóla - Yales´s Environmental Performance Index (EPI), er Ísland önnur umhverfisvænasta þjóð heimsins á eftir Finnlandi, en EPI vísitalan metur stöðu þjóða gagnvart náttúrunni. Norðurlandaþjóðirnar koma vel út úr þessari mælingu. Næst á eftir Finnum og okkur koma Svíar og Danir en Norðmenn reka lestina í 17. sæti. Þau lönd sem efst eru á þessum lista meira
29. ágúst 2016

Atvinnuvegirnir og pólitíkin - 3. hluti

Hér kemur 3. og síðasti hluti greinar þar sem farið verður yfir pólitískar áherslur og átakalínur í málefnum helstu atvinnuvega landsins. Hér verður fjallað um landbúnaðinn og ferðaiðnaðinn. LandbúnaðurEins og alls staðar í heiminum er íslenskur landbúnaður niðurgreiddur af ríkinu. Um þetta hefur verið harkalega deilt og nýi búvörusamningurinn er kannski skýrasta dæmið um það. Markmiðið með meira
27. ágúst 2016

Atvinnuvegirnir og pólitíkin - 2. hluti

Hér kemur 2. hluti greinar þar sem rennt er yfir pólitískar áherslur og átakalínur í málefnum helstu atvinnuvega landsins. Að þessu sinni er fjallað um sjávarútveginn og orkuiðnaðinn. SjávarútvegurLíklegt verður að teljast að veiðigjaldið og kvótakerfið verði eitt helsta kosningamálið í komandi kosningum enda hefur lengi verið deilt um þessi mál. Hér má segja að víglínan sé nokkuð skýr á milli meira
25. ágúst 2016

Atvinnuvegirnir og pólitíkin - 1. hluti

Atvinnuvegirnir eru undirstaða velferðar í landinu. Nú styttist í kosningar og verður hér í þremur greinum fjallað um stefnu stjórnmálaflokkanna í efnahagsmálum og gagnvart atvinnuvegunum. Einungis verður fjallað um þá flokka sem gera má ráð fyrir að komist á þing skv. skoðanakönunum Gallup og MMR en stjórnmálahreyfing þarf minnst 5% fylgi til að koma manni á þing. VG er sá flokkur sem er lengst meira
25. júlí 2016

Framtíðarsýn á dreifingu raforku

Öll nútímasamfélög ganga fyrir orku og sífellt er leitað leiða til að leysa betur úr vaxandi orkuþörf í heiminum. Virkjaðar orkulindir hafa skilað íslenskum almenningi lágu raforkuverði og orkusækinni starfsemi er skapar þjóðarbúinu tugi milljarða í tekjur á ári. En hver er þróunin í orkudreifingu? Almennt má segja að flutnings- og dreifikerfi raforku hafi verið hönnuð á 19. öldinni til þess að meira
23. júní 2016

Auðlindasjóður

Á aðalafundi Landsvirkjunar í vor sagði Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, að hann vildi setja á laggirnar sérstakan auðlindasjóð sem nýta ætti sem varasjóð. Ráðherrann hafði arðgreiðslur Landsvirkjunar af orkuauðlindinni í huga í þessu sambandi en gert er ráð fyrir að þær aukist verulega á komandi árum. Hugmyndin er að nýta sjóðinn til að jafna sveiflur í efnahagslífinu. Þannig yrði safnað í meira
14. maí 2016

Rafbílavæðing Íslands

Á stefnuskrá ríkisstjórnarinnnar er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, m.a. með því að efla vistvænar samgöngur. Ein áhrifamesta aðgerðin á því sviði væri að rafbílavæða Ísland. Endurnýjanlegar og vistvænar auðlindir gera þjóðinni kleift að vera í fararbroddi á þessu sviði. Orkuskipti í samgöngum kalla á markvissar aðgerðir stjórnvalda og orkufyrirtækjanna. Rafbílar eru að verða raunhæfur meira
18. mars 2016

Hagvöxtur landshluta 2009-2013

Í desember sl. gaf Hagfræðistofnun Háskóla Íslands út skýrslu um hagvöxt eftir landshlutum fyrir tímabilið 2009-2013. Margt athyglisvert kemur fram í skýrslunni. Hagvöxtur reyndist vera mjög misjafn á milli landshluta en hann var mestur á Vesturlandi, höfuðborgarsvæðinu og á Norðurlandi vestra. Mesti hagvöxturinn mældist á Vesturlandi, eða 13% á tímabilinu. Mest dróst meira
2. mars 2016

Margföld áhrif ferðamennsku

Ferðaiðnaðurinn hér á landi vex með undraverðum hraða. Samkvæmt nýrri spá Samtaka ferðaþjónustunnar má reikna með að heildargjaldeyristekjur í ferðaþjónustunni á þessu ári muni nema tæplega 370 milljörðum króna. Sá galli er hins vegar á gjöf Njarðar að uppbygging innviða hefur ekki fylgt eftir þessari hröðu þróun og vandamálin blasa því víða við. Mikið er rætt um vaxtarverki ferðageirans en minna meira
16. febrúar 2016

Tekur sjórinn lengur við?

Upp úr 1980 voru hinir sovésku Lada bílar mjög vinsælir hér á landi. Á sama tíma urðu landanir rússneskra verksmiðjutogara algengari hérlendis. Áhafnir þeirra höfðu það gjarnan sem aukaiðju að kaupa gamlar Lödur af Íslendingum. Bílarnir voru í kjölfarið fluttir yfir hafið til heimalandsins þar sem skortur var á varahlutum. Lödurnar voru svo rifnar niður í hafi, hirt það sem nýtilegt var og meira
mynd
2. febrúar 2016

Seðlar og svindl

Það vakti athygli á síðasta ári þegar Morgunblaðið greindi frá því að konu nokkurri hefði verið meinuð afgreiðsla í Hagkaupum í Garðabæ. Þar ætlaði hún í sakleysi sínu að greiða fyrir vörur með tíu þúsund króna seðli en afgreiðslumaðurinn á kassa var nú ekki aldeilis á því. Hann spurði: „Er þetta eitthvert djók“ og þverneitaði að taka við seðlinum sem hann sagði að væri ekki íslenskur meira
19. nóvember 2015

Megn óánægja íbúa með kísilverin í Helguvík

Vaxandi óánægju gætir meðal íbúa Reykjanesbæjar vegna umhverfisáhrifa fyrirhugaðra kísilmálmvera United Silicon og Thorsil í Helguvík. Neikvætt viðhorf íbúanna byggist á ótta við samanlögð mengandi áhrif frá verksmiðjum fyrirtækjanna tveggja mjög nærri íbúabyggð. Fyrir liggur að verði bæði kísilmálmverin byggð í samræmi við fyrirliggjandi áfangaáætlanir, muni loftgæði í nágrenninu rýrna meira
14. nóvember 2015

Spennandi starfsemi en ómæld mengun

Yfir 100 íslensk íslensk fyrirtæki hafa undirritað yfirlýsingu um að þau hyggist draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Yfirlýsingin verður afhent á loftslagsráðstefnunni í París í desember, en Ísland hefur ásamt ríkjum Evrópusambandsins lýst því yfir að dregið verði úr losun gróðurhúsalofttegunda um 40%. Misjafnt aðhaldEitt af því sem einkennir starfsskilyrði íslenskra stóriðjuvera er strangt meira
Þorsteinn Þorsteinsson

Þorsteinn Þorsteinsson

Höfundur starfar sem markaðsráðgjafi og markaðsrýnir. Hann er rekstrarhagfræðingur (M.Sc.) frá Lund University, og er framkvæmdastjóri Markaðsrýni ehf.

Meira