c

Pistlar:

14. nóvember 2015 kl. 23:08

Þorsteinn Þorsteinsson (thorthor.blog.is)

Spennandi starfsemi en ómæld mengun

Yfir 100 íslensk íslensk fyrirtæki hafa undirritað yfirlýsingu um að þau hyggist draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Yfirlýsingin verður afhent á loftslagsráðstefnunni í París í desember, en Ísland hefur ásamt ríkjum Evrópusambandsins lýst því yfir að dregið verði úr losun gróðurhúsalofttegunda um 40%.

Misjafnt aðhald
Eitt af því sem einkennir starfsskilyrði íslenskra stóriðjuvera er strangt eftirlit með losun efna út í andrúmsloftið ásamt upplýsingum um niðurstöður vísindalegra mælinga. Minna hefur farið fyrir umræðu um losun efna frá öðrum atvinnugreinum eins og t.d. ferðaiðnaðinum.

Í skýrslunni „Aðgerðir í loftlagsmálum“, sem unnin var af samstarfshópi fyrir umhverfis- og auðlindaráðherra 2013, sést að stóriðjan losaði samtals 1,8 milljónir tonna af koltvísýringi (CO2) út í andrúmsloftið árið 2010. Til samanburðar losaði sjávarútvegur 0,58 milljónir tonna af koltvísýringi og landbúnaður 0,65 milljónir tonna. Hér eru ótalin gríðarleg áhrif af framræslu mýrlendis sem er eitt stærsta vandamál Íslendinga á þessu sviði en koltvísýringur er að magni til veigamesta gróðurhúsalofttegundin.

Ný tegund stóriðju
Íslenskur ferðaiðnaður hefur vaxið með glæsibrag á undanförnum árum, jafnvel svo að undrum sætir. En er ferðaþjónustan jafn vistvæn og af er látið? Er kannski ástæða til að beina sjónum að umhverfisáhrifum þessarar atvinnugreinar og þá ekki síst hraðvaxandi umferð um flugvöllinn í Keflavík? Ferðaþjónustutengt flug til og frá Íslandi er nefnilega orðið að stóriðju sem losar mikið magn af gróðurhúsalofttegundum. Hver þota á flugi losar, að því er talið er, á bilinu 100 til 200 grömm af koltvísýringi að meðaltali á kílómetra og farþega. Sé miðgildið (150) heimfært á fjölda farþega, sem fóru um Leifsstöð árið 2014, er heildarmagn koltvísýrings sem flugið losar a.m.k. 8,5 milljónir tonna á ári. Við bætist að áhrif af mengun í háloftunum eru mun alvarlegri en af mengun á jörðu niðri, m.a. vegna þess að mengun flugvéla leiðir beint í ósonlagið.

Varnaðarorð
Í greininni „Flugslóðir valda hlýnun“ sem Haraldur Sigurðsson, eldfjallafræðingur, reit árið 2011 kemur eftirfarandi fram: „Nú kemur í ljós, samkvæmt rannsóknum Ulrike Burkhardt og Bernard Kärcher, að áhrifin á loftslag og hlýnun jarðar frá þessum flugslóðum og skyldum skýjum eru miklu meiri en frá því koltvíoxíði sem þoturnar dæla frá sér. Skýin draga í sig langbylgjugeislun, sem berst frá jörðinni, og orsaka með því óæskilega hlýnun.“

Í grein eftir Örnólf Thorlacius í Morgunblaðinu árið 2007, undir fyrirsögninni „Loftmengun í loftferðum“ kemur fram að mengun í háloftunum er allt að fjórum sinnum skaðlegri en af sömu efnum á jörðu niðri. Þetta þýðir að fjórfalda má þá koltvísýringsmengun sem þotuflug í tengslum við íslenskan ferðaiðnað veldur. Það er há tala.

Ferðaþjónustutengt flug til og frá Íslandi mengar margfalt meira en nokkur önnur starfsemi hérlendis. Vissulega er ljómi yfir þróun ferðaiðnaðarins en er ekki tími til kominn að fylgjast betur með umhverfisáhrifum þessarar ágætu atvinnugreinar?

Þorsteinn Þorsteinsson

Þorsteinn Þorsteinsson

Höfundur starfar sem markaðsráðgjafi og markaðsrýnir. Hann er rekstrarhagfræðingur (M.Sc.) frá Lund University, og er framkvæmdastjóri Markaðsrýni ehf.

Meira