c

Pistlar:

18. mars 2016 kl. 19:09

Þorsteinn Þorsteinsson (thorthor.blog.is)

Hagvöxtur landshluta 2009-2013

Í desember sl. gaf Hagfræðistofnun Háskóla Íslands út skýrslu um hagvöxt eftir landshlutum fyrir tímabilið 2009-2013. Margt athyglisvert kemur fram í skýrslunni. Hagvöxtur reyndist vera mjög misjafn á milli landshluta en hann var mestur á Vesturlandi, höfuðborgarsvæðinu og á Norðurlandi vestra. Mesti hagvöxturinn mældist á Vesturlandi, eða 13% á tímabilinu. Mest dróst framleiðslan hins vegar saman á Suðurnesjum og Vestfjörðum, eða um 11-12%.

Sé horft á þróun hagvaxtar frá aldmótum til 2013, standa þrjú svæði upp úr: Þau eru Vesturland, Austurland og höfuðborgarsvæðið. Lítum nánar á nokkur svæði:

Vesturland
Á tímabilinu mældist hagvöxtur langmestur á Vesturlandi. Skýringuna er fyrst og fremst að finna í uppbyggingu stóriðjunnar á Grundartanga en þriðjungur af framleiðslu svæðisins kemur frá stóriðju og veitum. Sérstaka athygli vekur að hlutdeild verslunar, hótela, veitingahúsa, samgangna og skyldra greina er aðeins um 10% og dregst saman frá árinu 2009. Þessi hlutdeild er hvergi minni en á Vesturlandi og Austurlandi. Þetta er athyglisvert í ljósi mikillar fjölgunar erlendra ferðamanna á tímabilinu. Allt bendir til þess að ferðamenn staldri stutt við á Vesturlandi og að þeir verji ekki miklum fjármunum á svæðinu. Reikna má með að hlutdeild iðnaðar á Vesturlandi fari vaxandi á komandi árum þar sem til stendur að byggja nýtt kísilver á Grundartanga.

Höfuðborgarsvæðið
Á höfuðborgarsvæðinu mældist hagvöxturinn 5% á tímabilinu. Verslun, hótel, veitingahús og samgöngur skýra rúmlega helming þessa vaxtar. Þjónustgreinar standa undir 80% af framleiðslu höfuðborgarsvæðisins en 55% á landsbyggðinni. Framleiðsla jókst meira á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni. Fjölgun íbúa á höfuðborgarsvæðinu var um 3% á sama tíma og 1% fækkun varð utan þess. Hlutur höfuðborgarsvæðisins í landsframleiðslu er rúmlega 70% og fer hann vaxandi.

Norðurland vestra
Á Norðurlandi vestra (NV) var hagvöxtur svipaður og á landinu öllu, eða um 4%. Vöxturinn dreifist á margar greinar, svo sem sjávarútveg, landbúnað, verslun, samgöngur og skylda starfsemi. Hlutur NV af landsframleiðslu var rúmlega 1,5% árið 2013. Byggð á NV er tiltölulega dreifð og jafnframt deilist vinnuafl jafnar á atvinnugreinar en annars staðar á landinu. Í Skagafirði eru 4.000 íbúar sem gerir svæðið að öflugu atvinnusvæði. Á NV er opinber þjónusta stærri hluti af framleiðslunni en annars staðar á landsbyggðinni.

Austurland
Á þessu svæði var hagvöxturinn 1% á tímabilinu 2009-2013. Hagvöxturinn á þessu svæði var hins vegar mestur á öllu landinu tímabilið 2009-2011 en dróst svo saman tvö síðustu árin. Mestur mældist vöxturinn í umsvifum stóriðju og í sjávarútvegi. Sjávarútvegurinn hefur lengi verið uppistaðan í atvinnulífi Austfirðinga en nú hefur álverið á Reyðarfirði bæst við og styrkt svæðið til muna. Greiðari samgöngur hafa einnig átt sinn þátt í að styrkja svæðið og hafa í auknum mæli gert fleira fólki kleift að starfa í álverinu. Á Egilsstöðum er að finna miðstöð verslunar, mennta og samgangna sem nýtist svo til öllum á svæðinu en rúmlega 9 þúsund manns geta nú ekið til þangað á innan við klukkustund.

Suðurnes
Hlutur Suðurnesja í landsframleiðslu var um 5% árið 2013. Fasteignaverð hefur lækkað 27% að raungildi frá árinu 2009 og var það mun meiri lækkun en í öðrum landshlutum. Skýringuna er líklega að finna í offramboði á húsnæði sem myndaðist þegar bandaríska herliðið fór frá Keflavíkurvelli. Hlutur verslunar, hótela, veitingastarfsemi og samgangna er fjórðungur af framleiðslu á Suðurnesjum. Nálægðin við Keflavíkurflugvöll og Bláa lónið skiptir þar mestu. Hlutur sjávarútvegs á svæðinu er minni en annars staðar utan höfuðborgarsvæðisins. Fiskvinnsla hefur hins vegar sótt í sig veðrið og skiptir nálægðin við Keflavíkurflugvöll eflaust þar mestu máli.

Vestfirðir
Sýnu verst virðist þróunin vera á Vestfjörðum. Hlutur Vestfjarða í landsframleiðslu er 1,5%. Sjávarútvegur er undirstaða byggðar í þessum landshluta en umsvif í þeim geira hafa dregist saman á tímabilinu. Afkoma greinarinnar virðist einnig vera lakari á svæðinu en í öðrum landshlutum.

Fólki á svæðinu fækkaði um 6% á tímabilinu. Það eru ótvíræðar vísbendingar um að sjávarútvegur eigi í vök að verjast á Vestfjörðum og það er vissulega áhyggjuefni. Þó má greina ýmis jákvæð teikn á lofti sem tengjast fiskeldi. Mikil uppbygging á þessu sviði hefur átt sér stað á Suðurfjörðunum og eru vonir bundnar við að hún hafi jákvæð áhrif á atvinnuuppbyggingu og byggðaþróun til framtíðar.

Þorsteinn Þorsteinsson

Þorsteinn Þorsteinsson

Höfundur starfar sem markaðsráðgjafi og markaðsrýnir. Hann er rekstrarhagfræðingur (M.Sc.) frá Lund University, og er framkvæmdastjóri Markaðsrýni ehf.

Meira