Pistlar:

15. apríl 2016 kl. 9:40

Þorsteinn Þorsteinsson (thorthor.blog.is)

Hvað lærðum við af hruninu?

Íslenska bankahrunið er mörgum enn í fersku minni. Undanfari þess var ört vaxandi bankakerfi með mikilli skuldasöfnun. Eigendur og stjórnendur bankanna voru of áhættusæknir og segja má að fjármálaöflin hafi siglt þjóðarskútunni sofandi að feigðarósi. Icesave er kannski skýrasta dæmið um það. Háar bónusgreiðslur til stjórnenda og ofurlaun þeim til handa voru einnig einkennandi í aðdraganda hrunsins. 

Eftirlitsaðilar og stjórnvöld brugðust eftirlitshlutverki sínu og á endanum var íslenska bankakerfið orðið of stórt til að bjarga því. Niðurstaðan varð þriðja stærsta efnahagshrun heimssögunnar í dollurum talið í ekki stærra ríki en Ísland er. Þetta hafði svo skelfilegar afleiðingar fyrir íslenskan almenning sem ekki þarf að tíunda hér.

Í kjölfar hrunsins var rannsóknarskýrsla Alþingis fyrirferðarmikil í umræðunni en hún fjallaði um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna árið 2008. Nú skyldi maður ætla að menn hefðu dregið einhvern lærdóm af þeirri úttekt og hruninu almennt enda eru vítin til að varast þau. En er raunin sú?

Áhættusækni bankanna
Samkvæmt Seðlabanka Íslands eru íslensku bankarnir með mun hærra hlutfall áhættuveginna eigna en hinir norrænu bankarnir. Hlutfall íslensku bankanna er yfir 75% sem þýðir að einungis fjórðungur heildareigna ber litla eða enga áhættu, eins og t.d. handbært fé. Bónusgreiðslur bankamanna eru einnig farnar að vera meira áberandi og sitt sýnist hverjum í þeim efnum. Vissulega hræða sporin og spurningin er hvort samlíkingin við hegðunina fyrir hrun er réttmæt.

Áhættusækni tryggingarfélaganna
Árið 2008 átti Sjóvá við mikla rekstraörðugleika að etja og þá hljóp ríkið undir bagga og barg félaginu frá þroti. Ríkið lagði fyrirtækinu til eigið fé og tók í staðinn yfir hlut í félaginu. Þegar sá hlutur var síðan seldur myndaðist tap upp á 4,1 milljarð sem ríkið þurfti að bera. Nú er öldin önnur þar sem nýlega bárust fréttir af því að tryggingarfélögin ætluðu sér að greiða eigendum sínum háan arð. Um var að ræða Sjóvá, VÍS og TM sem lögðu til samtals 9,6 milljarða arðgreiðslu. Það sem var undarlegt við þetta er að þessi sömu félög högnuðust „aðeins“ um samtals um 5,6 milljarða króna á síðasta ári. Mismuninn átti að taka úr svokölluðum bótasjóðum.

Félag íslenskra bifreiðaeiganda brást hart við þessari ráðagerð og skoraði á fjármálaráðherra að grípa tafaralaust til aðgerða við að stöðva þessi áform m.a. með þeim rökum að bótasjóðum sé ætlað að mæta tjónagreiðslum en ekki arðgreiðslum. Niðurstaðan varð sú að tryggingarfélögin bökkuðu með þessar ráðagerðir en þessar hugmyndir sýna engu að síður að stjórnir þeirra eru áhættusæknar.

Áhættusækni Landsvirkjunar
Hugmyndir um lagningu sæstrengs frá Íslandi til Bretlands eru enn eitt dæmið um mikla áhættusækni. Í  þessu tilviki er það Landsvirkjun sem virðist róa að því öllum árum að sú framkvæmd verði að veruleika. Hér er um risaframkvæmd að ræða þar sem áhættan er mikil og af ýmsum toga. Alls óljóst er hverju hún myndi skila fyrir þjóðarbúið.

Miðað við fréttaskýringu The Telegraph frá 4. mars sl. virðist markmið Breta fyrst og fremt vera að komast yfir ódýra og græna íslenska orku. Þær upplýsingar eru á skjön við yfirlýsingar forsvarsmanna Landsvirkjunar sem hafa talað um hátt orkuverð og mikinn gróða. Þetta hafa þeir borið á borð án þess lögð hafi verið fram greining um arðsemi og áhættu. Efasemdir almennings um þessa risaframkvæmd komu enda skýrt í ljós í könnun sem Gallup framkvæmdi sl. vor en þar voru 67% landsmanna andvígir sæstrengnum ef hann kallaði á nýjar vikjanaframkvæmdir sem ljóst er að hann gerir.

Sæstrengshugmyndirnar minna óþægilega mikið á útrás bankanna fyrir hrun þar sem uppsprengdar yfirlýsingar um skjótfenginn gróða dundu reglulega á landsmönnum. Þar voru áhættusæknir og draumóradrifnir stjórnendur á ferðinni sem sáu gróðatækifærin í hverju horni, jafnframt sem þeir hæddust að þeim sem ekki tóku þátt í hrunadansinum. Spurningin er hvort slíkum stjórnendum fer aftur fjölgandi í íslensku viðskiptalífi.

Þorsteinn Þorsteinsson

Þorsteinn Þorsteinsson

Höfundur starfar sem markaðsráðgjafi og markaðsrýnir. Hann er rekstrarhagfræðingur (M.Sc.) frá Lund University, og er framkvæmdastjóri Markaðsrýni ehf.

Meira