c

Pistlar:

23. júní 2016 kl. 14:01

Þorsteinn Þorsteinsson (thorthor.blog.is)

Auðlindasjóður

Á aðalafundi Landsvirkjunar í vor sagði Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, að hann vildi setja á laggirnar sérstakan auðlindasjóð sem nýta ætti sem varasjóð. Ráðherrann hafði arðgreiðslur Landsvirkjunar af orkuauðlindinni í huga í þessu sambandi en gert er ráð fyrir að þær aukist verulega á komandi árum. Hugmyndin er að nýta sjóðinn til að jafna sveiflur í efnahagslífinu. Þannig yrði safnað í sjóðinn í uppsveiflum en veitt úr honum í niðursveiflum. Hugmynd Bjarna er af svipuðum meiði og hugmyndafræðin að baki olíusjóðnum norska.

Hugmynd þessi er ekki ný af nálinni þar sem þverpólitísk auðlindanefnd á vegum Alþingis lagði t.d. til árið 2000 að stofnaður yrði þjóðarsjóður þar sem tekjur af þjóðarauðlindum yrðu lagðar inn og þær notaðar til sparnaðar og uppbyggingar. Hugmyndin hefur síðan nokkrum sinnum skotið upp kollinum í mismunandi útfærslum. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, setti t.d. á fót svokallaða auðlindastefnunefnd, sem skilaði af sér tillögum haustið 2012. Nefndin lagði til að stofnaður yrði auðlindasjóður sem hefði m.a. það hlutverk „að tryggja að auðlindaarður og meðferð hans yrði sýnileg“.

Beingreiðslur til almennings
Í skýrslu hins þekkta hagfræðings Lars Christensens um íslenska orkumarkaðinn (Our Energy 2030), sem nýlega var unnin fyrir Samtök iðnaðarins, leggur Lars m.a. til að komið verði á laggirnar sérstökum auðlindasjóði. Sjóðurinn myndi svo greiða arð til hvers og eins Íslendings á hverju ári þegar svo bæri undir. Í þessu sambandi vísaði Lars til auðlindasjóðs Alaska (Permanent fund) sem greiðir íbúum ríkisins tiltekna fjárhæð árlega vegna tekna af auðlindum í eigu samfélagsins.

Lars fjallaði svo nánar um þessar hugmyndir sínar um auðlindasjóð í grein sinni, „Ísland þarf auðlindasjóð“, í viðskiptablaði Morgunblaðsins 8. júní sl. Þar sagði hann m.a.: ...„Þess í stað legg ég til að árlegur hagnaður auðlindasjóðsins verði greiddur til allra Íslendinga í formi þess sem ég kalla borgaraarð frekar en að láta peningana falla í þá stóru, djúpu holu sem kallast fjármál hins opinbera... Ef þið trúið þvi að náttúrauðlindir Íslands séu eign þjóðarinnar, þá ættuð þið að fá „leiguna“ af auðlindunum í stað þess að ríkið taki hana“. Það er því grundvallarmunur á hugmyndum Lars og fjármálaráðherra um auðlindasjóð og mikilvægt að almenningur segi sína skoðun á slíku hagsmunamáli.

Ef slíkum sjóði yrði komið á, þyrfti að tryggja að þau fyrirtæki sem fara með auðlindirnar skili ásættanlegum arði, bruðli ekki með almannafé og verðleggi ekki vörur sínar of hátt sem leiðir til velferðartaps. Hér má nefna fyrirtæki eins og Landsvirkjun sem skákar í skjóli fákeppni á raforkumarkaði. Slík fákeppni með sjálfdæmi um verðlagningu býður hættunni heim, að mati Lars. Velferð þjóðarinnar felst nefnilega ekki í því að hámarka hagnað Landsvirkjunar á kostnað heildarhagmuna þjóðarbúsins.

Auðlindarenta
Lengi hefur verið deilt um auðlindarentuna í sjávarútvegi, hvað hún eigi að vera há og hvernig skuli útfæra hana. Eins og með sjávarútveginn, hafa menn tekist hart á um stóriðjuna. Þær raddir hafa verið háværar að lítið af arðsemi álveranna sitji eftir í landinu og að það orkuverð sem álverin greiða sé of lágt. Á móti hefur því verið haldið fram að hið lága orkuverð sem heimilin í landinu greiða sé hluti af þeim arði sem álverin greiða til landsmanna. Ekki má heldur gleyma mjög góðri arðsemi Landsvirkjunar um langt árabil sem að langmestu leyti er til komin vegna stóriðjunnar.

Hvað með ferðaiðnaðinn?
Auðlindasjóður ætti að ná utan um nýtingu og arðsemi allra nátturauðlinda landsins. Stóriðjan og sjávarútvegurinn hafa hingað til verið i kastljósinu hvað það varðar. Eðlilegt er gera kröfu til þess að ferðaiðnaðurinn leggi einnig sitt af mörkun í slíkan sjóð. Alveg eins og sjávarútvegurinn og stóriðjan, nýtir ferðaþjónustan náttúruauðlindir landsins sér til tekna sem þýðir að eðlilegt er að gera tilkall til hennar í þessu samhengi.

Almenn sátt ríkir um auðlindasjóðinn í Alaska. Á sínum tíma, þegar stjórnmálamenn sóttust eftir að fá heimild til að eyða fjármunum úr sjóðnum, voru 84% kjósenda því mótfallin. Sjóðurinn er talinn hafa aukið jöfnuð og dregið úr fátækt í Alaska. Reynsla Íslendinga af opinberum sjóðum er hins vegar ekki góð. Hér má t.d. nefna Íbúðalánasjóð sem hefur tapað ógrynni fjár auk þess sem ekki hefur verið sátt um starfsemi hans á markaðnum.

Stofnun auðlindasjóðs hér á landi er leið sem full ástæða er til að skoða vel. Reynslan af auðlindasjóðnum í Alaska er mjög góð. Sama má reyndar segja um olíusjóð Norðmanna. Alaskaleiðin væri þó, að mati greinarhöfundar, betur til þess fallin að skapa sátt meðal þjóðarinnar um nýtingu náttúruauðlinda og skiptingu þess arðs sem af þeim hlýst. Engum vafa er undirorpið að á því er full þörf enda er varla til sá Íslendingur sem ekki hefur sterka skoðun á því máli.

Þorsteinn Þorsteinsson

Þorsteinn Þorsteinsson

Höfundur starfar sem markaðsráðgjafi og markaðsrýnir. Hann er rekstrarhagfræðingur (M.Sc.) frá Lund University, og er framkvæmdastjóri Markaðsrýni ehf.

Meira