Pistlar:

29. ágúst 2016 kl. 8:41

Þorsteinn Þorsteinsson (thorthor.blog.is)

Atvinnuvegirnir og pólitíkin - 3. hluti

Hér kemur 3. og síðasti hluti greinar þar sem farið verður yfir pólitískar áherslur og átakalínur í málefnum helstu atvinnuvega landsins. Hér verður fjallað um landbúnaðinn og ferðaiðnaðinn.

Landbúnaður
Eins og alls staðar í heiminum er íslenskur landbúnaður niðurgreiddur af ríkinu. Um þetta hefur verið harkalega deilt og nýi búvörusamningurinn er kannski skýrasta dæmið um það. Markmiðið með samningnum er að efla landbúnað en í honum segir að meginmarkmið hans sé að efla íslenskan landbúnað og skapa greininni sóknarfæri. Honum sé ætlað að auka verðmætasköpun og nýta þau tækifæri sem felist í sveitum landsins í þágu bænda, neytenda og samfélagsins alls.

Andstæðingar búvörusamningsins vilja hins vegar að frítt flæði sé inn í landið með landbúnaðarvörur frá Evrópuríkjunum. Þeir hinir sömu halda því fram að búvörusamningurinn komi niður á neytendum Hér vegast á sjónarmið hins frjálsa markaðar og þess ríkisrekna. Hér er því um hápólitískt mál að ræða þar sem fylkingarnar eru klofnar.

Framsókn er gamall bændaflokkur og verður sem slíkur að teljast sá flokkur sem helst styður samningana. Fyrirfram skyldi maður ætla að Sjálfstæðisflokkurinn væri andvígur slíkum samningum en líklegast hefur flokkurinn þurft að beygja sig fyrir Framsókn í þessu máli. Viðreisn er samningunum andvíg og svo á reyndar á við um fleiri flokka.

Ýmis rök má færa fyrir því að frjálst flæði landbúnaðarafurða til og frá landinu myndi lækka verð til neytenda. Þar með er ekki öll sagan sögð þar sem ýmis samfélagsleg áhrif þarf að taka með í reikninginn sem erfitt getur verið að festa tölur á. Einnig hefur verið bent á gæði afurðanna og að þar standi íslenskar afurðir framar þeim erlendu. Hér má t.d. nefna notkun sýklalyfja. Ný skýrsla frá Lyfjastofnun Evrópu (EMA) sýnir að sýklalyfjanotkun í evrópskum landbúnaði sé komin fram úr öllu hófi. Sýklalyfjaónæmi hjá mönnum og dýrum er vaxandi vandamál á heimsvísu þar sem sýklalyf bíta ekki lengur á ónæmar bakteríur. Noregur og Ísland eru þær þjóðir sem koma best út úr öllum samanburði í þessum efnum með sáralitla notkun sýklalyfja í landbúnaði.

Ferðaiðnaður
Ferðaiðnaðurinn hér á landi hefur vaxið með undraverðum hraða og er nú orðinn stærsti atvinnuvegurinn, ef horft er til gjaldeyristekna. Sá galli er hins vegar á gjöf Njarðar að uppbygging innviða hefur ekki fylgt eftir þessari hröðu þróun og vandamálin blasa því víða við. Það verður því að teljast mikilvægt að þessi málaflokkur verði tekinn fastari tökum en hingað til hefur verið gert.

Erfitt er að átta sig að stefnu stjórnmálaflokkanna í þessum málaflokki en umræðan hefur að mestu snúist um gjaldtöku ferðamanna og/eða hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu. Núverandi ríkisstjórnarflokkum hefur ekki borið gæfa til þess að lenda því máli. Hið pólitíska viðfangsefni snýst því aðallega um það hvernig eigi að fjármagna uppbyggingu innviða í kringum ferðamennskuna. Þar eru tveir leiðir; að láta ferðamenn standa undir henni með gjaldtöku eða fjármögnun með skattfé. Það verður spennandi að sjá hvaða lausnir flokkarnir bjóða upp á í þessum málaflokki í komandi kosningum.

Þorsteinn Þorsteinsson

Þorsteinn Þorsteinsson

Höfundur starfar sem markaðsráðgjafi og markaðsrýnir. Hann er rekstrarhagfræðingur (M.Sc.) frá Lund University, og er framkvæmdastjóri Markaðsrýni ehf.

Meira