c

Pistlar:

28. janúar 2017 kl. 15:59

Viðar Garðarsson (vg.blog.is)

Karp um ríkis- eða einkarekstur

Þær fréttir bárust í vikunni að Klíníkin í Ármúla hefði fengið leyfi embættis landlæknis til þess að reka sérhæfða sjúkrahúsþjónustu með fimm daga legudeild. Nokkur órói hefur myndast eftir þessa frétt þar sem átakalínurnar virðast vera ríkisrekstur eða einkarekstur.

Stéttarfélagið BSRB blandar sér meðal annarra í þessa umræðu. BSRB varar stjórnvöld við því að láta undan þrýstingi þeirra sem vildu einkavæða frekar í heilbrigðiskerfinu. Telja samtökin slíka einkavæðingu vera í andstöðu við vilja meirihluta þjóðarinnar. Ég veit ekki til þess að þjóðin hafi verið spurð. 

Í mínum huga er þetta algerlega röng átakalína. Hvort um ríkisrekstur eða einkarekstur er að ræða er ekki það sem máli skiptir fyrir megin þorra landsmanna. Það sem skiptir máli eru frekar atriði eins og, þjónusta sé eins góð og mögulegt er. Að þeir efnameiri geti ekki í krafti auðs greitt til að komast framar á biðlistum. Að sama eða lægra verð sé greitt fyrir þjónustuna úr hinum sameiginlegu sjóðum okkar. Að öllum ráðum sé beitt til þess að biðlistar séu eins stuttir og frekast er unnt. Að læknar og starfsfólk hafi nýjustu og bestu tæki til að leysa úr þeim verkefnum sem þeirra bíða. 

Mér finnst þetta skipta meira máli en hvort að ég fæ þjónustu úr einka- eða ríkisrekstri. Það felst ótrúlega mikil sóun í því að fólk, oft á besta aldri, skuli vera óvinnufært langtímum saman að bíða eftir því að komast í aðgerð. Úr því þarf að bæta. 

Læknar þeir sem starfa á Klíníkinni Ármúla eru með samning við Sjúkratryggingar Íslands sem sjálfstætt starfandi læknar. Sá samningur innifelur ekki þær aðgerðir sem kalla á innlögn sjúklinga í allt að fimm daga. Segir Steingrímur Ari Arason, forstjóri Sjúkratrygginga Íslands í samtali við Morgunblaðið. Áður en hægt er að gera slíkan samning þarf ráðherra og ráðuneytið að gefa út sína afstöðu sem stefnumótandi aðili. 

Þá vöktu athygli mína viðbrögð Páls Matthíassonar, forstjóra Landspítalans. Honum láðist alveg að geta þess að ef hægt er að fá sömu þjónustu á fleiri en einum stað þá eiga neytendur (sjúklingar) valkost Þeir geta þá leitað staðfestingar á sjúkdómsgreiningum og fengið nýja valkosti sem styðja erfiðar ákvarðanir. Jafnvel ákveðið hverjum þeir treysta best til þess að framkvæma á þeim aðgerð.

Páll telur að bæklunarsérgreinin verði veikari á Landspítalanum. Hann virðist þá vera að gefa sér að sérhæft starfsfólk hans vilji flytja sig frá Landspítala. Í augnablikinu finnst mér þessi rök halda illa en ég viðurkenni að mögulega vantar mig heildar yfirsýn í málaflokknum til þess að sjá þetta sömu augum og forstjórinn. 

Ég hefði þó talið að ef Klíníkin í Ármúla gæti bæði faglega og efnahagslega létt af Landspítala ákveðnum þrýstingi þá bæri að fagna því. Við sem þjóð getum ekki leyft okkur eða sætt okkur við það ástand að átök um rekstrarform (ríkis- eða einkarekstur) verði að millustein um háls okkar í stað þess að tryggja með stefnumótandi löggjöf jafnræði og aðgengi án tillits til efnahags. því það er líkast til vilji þjóðarinnar. 

Ríkisrekstur tryggir ekki frekar jafnræði í aðgengi án tillits til efnahags frekar en annað rekstrarform. Að halda því fram er blekking. Þjónustan við borgarana og jafnt aðgengi er það sem við eigum að horfa til og svo eigum við að fagna einkaframtaki í heilbrigðiskerfinu sem eykur möguleika og þjónustu við borgaranna.

Viðar Garðarsson

Viðar Garðarsson

Höfundur er markaðsstjóri hjá TARAMAR ehf, markaðsráðgjafi hjá markadsmenn.is og stjórnendaþjálfari hjá Leadership Management International.

Meira

Myndasyrpur