c

Pistlar:

8. febrúar 2017 kl. 17:54

Viðar Garðarsson (vg.blog.is)

Af karpi um sölu áfengis

Boðað áfengisfrumvarp á Alþingi hefur þegar valdi nokkrum óróa og tilfinningaríkum upphrópunum í samfélaginu okkar. Þeir sem setja sig á móti frumvarpinu bera fyrir sig lýðheilsusjónarmið og sameiginlega ábyrgð allra á áfengismenningu þjóðarinnar. Þeir sem mæla fyrir frumvarpinu benda á frelsi einstaklingsins og persónuábyrgð hvers og eins í umgengni við þennan vímugjafa. Einnig benda þeir á þá mýtu að það standist ekki skoðun að ríkið sé eini aðilinn sem treystandi sé til þess að afgreiða vöru sem skilgreindur hópur má ekki kaupa.

Ég hef furðað mig á ýmsum þeim fullyrðingum sem settar hafa verið fram í þessari umræðu. Rökfærsla þeirra sem setja sig á móti frumvarpinu er oftar en ekki byggð á „af því bara“ tilfinningalegum rökum eða upphrópunum þar sem reynt er að tengja almenn lýðheilsu sjónarmið við tegund verslunar. Mikið af þessum rökum get ég tekið heilshugar undir s.s. eins og að áfengi er óhollt og neysla þess getur valdið skorpulifur, heilarýrnun og svo er rétt að nefna hér fylgifiska eins og hættu á heimilisofbeldi, tilefnislausar árásir á vegfarendur og margt fleira má telja upp áfenginu til miska.

Öll þessi lýðheilsusjónarmið eru sannarlega fylgifiskar áfengisneyslu en hafa ekkert með það að gera hver það er sem selur áfengið. Áfengismarkaður er í markaðsfræðilegum skilningi svokallaður mettur markaður þ.e. að framboðið nær að uppfylla eftirspurnina. Það líður engin fyrir skort á þessari vöru. Á mettum markaði hefur breyting á framboði sára lítil áhrif á neyslumagn, eftir sem áður mun framboðið uppfylla eftirspurnina. Það sem mun gerast er að það verður tilfærsla á sölu á milli þjónustuaðila og neytendur munu færa innkaup sín þangað sem þeim hentar hverju sinni án þess að magn aukist.

Annað dæmi um mettan markað sem hefur veruleg áhrif á lýðheilsu okkar er bifreiðamarkaður. Bílar fella nokkur af okkur á hverju ári auk þess sem óhófleg notkun þeirra stuðlar að hreyfingarleysi og þyngdaraukningu, mengun frá þeim er okkur öllum skaðleg í miklum mæli. En öll gerum við okkur grein fyrir því að fjölgun útsölustaða á bifreiðum hefur ekki bein tengsl við þann fjölda bifreiða sem seldur er á hverju ári. Það er vegna þess að bifreiðar eru á mettum markaði líkt og áfengi.

Það að gera því starfsfólki sem mögulega verður treyst til þess að höndla með þessa vöru það upp fyrirfram að það sé ekki starfi sínu vaxið, eða það sé líklegra heldur en aðrir að brjóta þau lög sem því ber að fara eftir, stenst ekki neina rökræðu.

Það er rétt sem komið hefur fram að sá þáttur sem mest áhrif hefur á neyslumunstur er verðlagning. Þekkt er að ÁTVR vinnur á flatri álagningu sem er 12%. Í dagvöruverslun er meðaltalsálagning 25 til 26% samkvæmt úttekt Samkeppnisstofnunar um verðlagsþróun á matvörumarkaði hér á landi. Af þessu má ráða að ólíklegt er að verð áfengis lækki sem neinu nemur ef sala á vörunni verður flutt í hendur einkaaðila. Líklegra er að verðálagning smásalans muni yfir tíma frekar leiða til hækkunar á vöruverði. Hækkun mun hafa áhrif til almennt minnkaðra innkaupa á áfengi.

Á sama tíma er rétt að hugleiða að of hátt verð á áfengi hvetur til ólöglegrar starfsemi, glæpa, landabruggs og framboðs annarra ólöglegra vímuefna. Hér á landi er áfengi mjög dýrt, svo dýrt að unglingur sem ætlar sér að komast í vímu hefur kost á því að kaupa annarskonar vímugjafa mun lægra verði en áfengi. Á svörtum markaði hér á landi er bæði ódýrara og einfaldara að nálgast kannabis eða uppáskrifað læknadób á netinu. Margskonar böl getur því fylgt almennri haftastefnu og forræðishyggju.

Það vekur líka athygli undirritaðs að samkvæmt boðuðu áfengisfrumvarpi á að stórauka fjárframlög til forvarna. Við þekkjum jú á eigin skinni að forvarnir og fræðsla hafa umtalsverð áhrif á neyslu ungmenna. Árangur forvarnarstarfs í tóbaksnotkun er góður vitnisburður þess sem má áorka með fræðslu og forvörnum. Þessu ber að fagna.

Viðar Garðarsson

Viðar Garðarsson

Höfundur er markaðsstjóri hjá TARAMAR International, markaðsráðgjafi hjá markadsmenn.is og stjórnendaþjálfari hjá Leadership Management International.

Meira

Myndasyrpur