c

Pistlar:

31. maí 2017 kl. 10:59

Viðar Garðarsson (vg.blog.is)

Mikilvægi eigendastefnu Landsvirkjunar

Ég hef nokkru sinnum áður sest við lyklaborðið og skrifað pistla þar sem ég hef reynt að sýna fram á mikilvægi þess að Alþingi marki fyrirtækinu Landsvirkjun eigendastefnu. En frá því að raforkulög hér á landi voru Evrópuvædd árið 2003 hefur í raun ekki verið mörkuð eigendastefna fyrir Landsvirkjun eða mörkuð heildstæð stefna um orkumál og orkunýtingu. Þetta er bagalegt því eigendastefna er þessum rekstri mjög mikilvæg. 

Raforkugeirinn á Íslandi þarf að þjóna íslensku þjóðfélagi á þann hátt, að hér byggist upp öflug atvinnustarfsemi og gott mannlíf þrátt fyrir óblíða náttúru og dreifða búsetu. Það að byggja upp nútíma þjóðfélag hér á norðurhjara krefst mikillar orku og lágs orkuverðs í samanburði við aðrar þjóðir, sem lifa þéttar á suðlægum slóðum. 

Við stofnun Landsvirkjunar var gengið þannig frá málum að samningar við stóriðjuna tryggðu orkuöryggi og fé til uppbyggingar orkukerfisins. Hinn almenni notandi naut þessa samstarfs með nægu framboði og með lægra orkuverði en þekktist í þeim löndum sem við gjarnan berum okkur saman við.

Hörður Arnarsson forstjóri Landsvirkjunar frá árinu 2010 hefur verið talsmaður þess að taka hér upp Stundamarkað þar sem verð á orku getur verið breytilegt eftir framboði og eftirspurn frá einum klukkutíma til annars. Slíkir markaðir eru megin undirstaða raforkumarkaða Evrópu. Raforkulögin frá 2003, sem eru að mestu lög Evrópusambandsins leggja ákveðin lagalegan grunn að uppbyggingu stundamarkaðar hér á landi. Ekkert bendir til þess að stundamarkaður geti virkað á sama hátt hér á landi og í Evrópu. M.a. vegna þess að raforkukerfið hér á landi er ein heild þar sem svo til engin samkeppni er um eitt eða neitt. Hvorki varðandi aðföng eða afurðir. Mun ég rökstyðja þessa skoðun síðar í annarri grein. 

En raforkulögin frá árinu 2003 leystu einnig Landsvirkjun undan þeirri skyldu sem var að finna í eldri lögum að vera svokallaður framleiðandi til þrautavara. Framleiðandinn sem tryggir að ávalt sé til næg orka í landinu. Þessi tvö atriði orkuöryggi og hagkvæmt verð hafa umfram önnur verið grundvöllur að almennri sátt í þjóðfélaginu um rekstur Landsvirkjunar. 

Nú bregður svo við að forstjóri Landsvirkjunar hefur ítrekað lofað miklum arðgreiðslum til ríkisins á komandi árum. Arðgreiðslum sem grundvallast meðal annars á hækkandi orkuverði til almennra nota hérlendis. Einnig er stutt síðan að Landsvirkjun kynnti nýlega skýrslu Copenhagen Economics þar sem fram kemur að hækkandi orkuverð á stóriðjumarkaði geti mögulega sett öryggi á almenna markaðnum í uppnám. Með öðrum orðum að meiri arður geti fengist með því að selja orku til stóriðju heldur en að selja hana til heimila og atvinnufyrirtækja hér á landi. Þetta eru óyggjandi merki um arðstefnu þar sem heildarhagsmunir þjóðarinnar eru ekki hafðir að leiðarljósi. Hvar er skilgreiningin á verðstefnu eða ábyrgð Landsvirkjunar varðandi orkuöryggi?

Á ársfundi Landsvirkjunar nú fyrir skemmstu kom fram kom fram í máli forstjórans að fyrirtækið stendur mjög vel. Fjármunamyndun í fyrirtækinu síðastliðin 7 ár hefur verið um 200 milljarðar króna. Eða að meðaltali 28,5 milljarður á ári síðustu 7 árin. Þetta er eftir að greiddur hefur verið allur rekstrakostnaður, allir vextir, öll gjöld sem félagið þarf að greiða.  Við skulum hér grípa niður í upptöku af fundinum sem finna má á vef Landsvirkjunar og heyra forstjórann fara yfir þessa ánægjulegu afkomu félagsins. 

100 milljarðar hafa verið notaðir til að greiða niður skuldir. 50 milljarðar hafa farið í fjárfestingar og 8 milljarðar í arðgreiðslur. 42 milljarðar eru því handbærir til frekari ráðstöfunar innan fyrirtækisins. Ekki þarf að efast um að fjárhagslegur styrkur Landsvirkjunar er mikill. 

Í spurningum utan úr sal sem opnað var fyrir eftir framsögur kom fram spurning frá Jens Garðari Helgasyni formanni Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi sem að mörgu leiti varpar ljósi á það sem ég er hér að tala um. Er ekki betra að heimilin og atvinnulífið njóti hagstæðs orkuverðs frekar en að stefna að auknum arðgreiðslum í ríkissjóð? Við skulum sjá spurninguna borna fram og svar forstjórans sem hefur vakið furðu mína.

Ég hef mikið velt fyrir mér af hverju forstjóri Landsvirkjunar telur þetta vera lögbrot. 

Ekkert mér að vitandi er í núverandi löggjöf hér á landi eða innan Evrópska efnahagssvæðisins kemur í veg fyrir að arður af þeim virkjunum sem hagkvæmastar eru á hverjum tíma sé notaður til þess að lækka verð til almennra notenda og fyrirtækja innanlands. 

Skýrsla Copenhagen Economics sem gerð er fyrir Landsvirkjun bendir m.a. á þann möguleika að greiða niður stofnkostnað virkjana í þessu ljósi.  Auðvelt er að benda á þá staðreynd að stjórnvöld í Bretlandi niðurgreiða græna orku í stórum stíl fyrir hinn almenna markað þar í landi. 

Bara þessi tvö atriði, verðstefna og orkuöryggi eru í uppnámi og engin virðist ætla að bera á því ábyrgð hvernig með þessi mál skal farið. Forstjórinn virðist komast upp með að gera og segja það sem honum dettur í hug á hverjum tíma og stefna sú sem fyrirtækið rekur virðist frá honum fengin en ekki kjörnum fulltrúum þjóðarinnar.

Því er hér enn á ný kallað eftir að Alþingi marki eigendastefnu Landsvirkjunar áður en í óefni er komið.

Viðar Garðarsson

Viðar Garðarsson

Höfundur er markaðsstjóri hjá TARAMAR ehf, markaðsráðgjafi hjá markadsmenn.is og stjórnendaþjálfari hjá Leadership Management International.

Meira

Myndasyrpur