c

Pistlar:

28. maí 2018 kl. 21:58

Viðar Garðarsson (vg.blog.is)

Það er þörf á að skipta upp Landsvirkjun!

Í aðsendri grein sem forstjóri Landvirkjunar ritar og birtist í Viðskiptablaðinu 25. maí síðastliðinn og nefnist „Um samkeppni á raforkumörkuðum“ reynir forstjórinn enn á ný að selja þjóðinni þá hugmynd að hlutverk Landsvirkjunar sé að safna peningum í nokkurskonar varasjóð ríkisins og fela alþingismönnum landsins að fara með það fé. Þjóðin hefur aldrei samþykkt þessa ráðstöfun og ekki Alþingi heldur.

Við almenningur í landinu teljum okkur hina réttu eigendur orkuauðlindanna sem hið opinbera gætir fyrir okkar hönd. Þeir stjórnmála menn sem stóðu saman að stofnun Landsvirkjunar á sínum tíma gengu svo frá málum að arður félagsins var notaður til þess að tryggja almenningi örugga orku á hagkvæmu verði. Þannig hefur verðmæti þessara auðlinda verið skilað til almennings í formi lágs orkuverðs. Á þessu urðu síðan umtalsverðar breytingar á síðari tímum. Fyrst með nýjum raforkulögum að Evrópskri fyrirmynd sem innleidd voru árið 2003 og síðan með stefnumörkun núverandi forstjóra sem í raun tók nokkuð skarpa beygju frá stefnumörkun þeirra sem gegndu starfinu á undan honum. Nú á Evrópskur markaður með eldsneyti að ráða för hér á landi en ekki skynsamleg nýting auðlindanna.

Í grein forstjórans sem nefnd er hér að ofan segir „Hlutverk fyrirtækisins er að hámarka afraksturinn af þeim orkulindum sem því er trúað fyrir með sjálfbæra nýtingu, verðmætasköpun og hagkvæmni að leiðarljósi. Þetta er ábyrgð sem við tökum alvarlega.“ Þetta er framsetning sem ég held að öll þjóðin (almenningur) geti verið sammála um í grundvallaratriðum. Spurningin er bara hvernig er þeim verðmætum sem auðlindin skilar ráðstafað. Á að greiða stórar summur af arði í ríkissjóð eða láta almenning njóta lægra orkuverðs? 

Það er gleðilegt að fyrirtækið er að komast á þann rekspöl að vera verulega arðbært. Það er einnig rétt að halda því til haga sem forstjórinn réttilega segir, að grundvöllurinn að arðgreiðslum framtíðarinnar hefur ekki verið lagður með verðhækkunum til heimila og smærri fyrirtækja. Á hinn bóginn er það staðreynd að stað þess að nota raforku til bræðslu sjávarfangs er í dag notuð svartolía að verulegu leiti vegna mikilla verðhækkana á raforkuverði til stærri notenda í iðnaði. Er eitthvað vit í því? 

Við verðum að horfast í augu við þá staðreynd að Landsvirkjun er ekki að starfa á samkeppnismarkaði heldur fákeppnismarkaði. Þrátt fyrir að verulegur hluti þeirrar raforku sem Landsvirkjun framleiðir sé seld alþjóðlegum fyrirtækjum og verðlagning orkunnar taki mið af alþjóðlegum markaðsaðstæðum að hluta. Þá er fyrirtækið eftir sem áður fyrirtæki með markaðsráðandi stöðu á fákeppnismarkaði hvort sem um er að ræða sölu til stórnotenda eða dreifingaraðila á heildsölu- og smásölumarkaði rafmagns innanlands.

Það er rétt í þessu samhengi að rifja hér upp að eðli þess að vera á samkeppnismarkaði er að þar fara fram kaup á sala með þeim hætti að hvorki seljandi eða kaupandi geta haft áhrif með einhliða ákvörðun á verðmyndun. Þessu er ekki til að dreifa á íslenskum raforkumarkaði. Seljandinn, Landsvirkjun hefur ítrekað einhliða hækkað verð og breytt skilmálum á ótryggðri orku. Innlendur iðnaður hefur fengið að kenna ítrekað á þessum fákeppnistilburðum fyrirtækisins sem segist vera í samkeppni.

Eina leiðin til þess að ná fram raunverulegum samkeppnisáhrifum á raforkumarkaði væri því að skipta Landsvirkjun upp. Alþingi hefur ekki enn markað þessu fyrirtæki þjóðarinnar stefnu en það hefur verið í umræðunni upp á síðkastið að hefja þá vinnu. Nýlega var skipaður þverpólitískur starfshópur um orkustefnu fyrir Ísland. Vonandi tekst í kjölfar þeirrar vinnu að setja fram eigendastefnu til lengri tíma.

Stóra pólitíska spurningin sem þarf því að byrja á því að svara er hvort vilja menn markaðsvæða Landsvirkjun að Evrópskri fyrirmynd þar sem eldsneytis verð í Evrópu mundi hafa veruleg áhrif á verð raforku hér. Það er það sem er í spilunum með þriðja orkupakka ESB, Sem jafnan gengur undir nafninu ACER (Agency for the Cooperation of the Energy Regulators) Slíkt mun þýða umtalsvert hærri orkureikninga fyrir alla landsmenn en mögulega hærri arðgreiðslur til ríkissjóðs. Eða vilja menn að fyrirtækið verði áfram nýtt í þágu þjóðarinnar og það nýti styrk sinn til þess að láta landsmenn alla njóta lágs orkuverðs. Slíkt mundi hafa gríðarlega jákvæð áhrif á samkeppnishæfni allra atvinnugreina. Þetta eru stóru valkostirnir tveir.

Ef áfram verður haldið á braut markaðsvæðingar á raforku í skjóli Evrópskra reglna, þá er óhjákvæmilegt annað en að skipta fyrirtækinu upp. Annars verður aldrei eðlilegur samkeppnismarkaður til staðar.

Viðar Garðarsson

Viðar Garðarsson

Höfundur er markaðsstjóri hjá TARAMAR ehf, markaðsráðgjafi hjá markadsmenn.is og stjórnendaþjálfari hjá Leadership Management International.

Meira

Myndasyrpur