c

Pistlar:

1. ágúst 2019 kl. 10:26

Viðar Garðarsson (vg.blog.is)

Sæstrengssviðmyndir

Ég verð að viðurkenna að ég óttast það tak sem Evrópusambandið nær á auðlindum okkar ef svokallaður Orkupakki 3 verður samþykktur á Alþingi á næstu vikum. Ef Alþingi samþykkir þriðja orkupakkann þá er þjóðin skuldbundin til að fylgja öllum reglum hans. Annað væri brot á EES samningnum. 

Í síðasta pistli mínum lofaði ég að draga upp sviðsmyndir sem sýna fram á undir hvernig aðstæðum þjóðin verður sannfærð um nauðsyn þess heimila lagningu raforkusæstrengs í kjölfar þess að Orkupakki 3 verður samþykktur. Hér koma þær:

Sviðmynd númer eitt. (fjárhagsleg þvingun)

Árið er 2020 og Alþingi hefur nýlega samþykkt Orkupakka 3. Erlendur lögaðili aðili óskar þess lögformlega við íslenska ríkið að fá að leggja hingað raforkusæstreng. Erindið er rætt á Alþingi og ákveðið er að leggja málið fyrir þjóðaratkvæði. Alþingi staðfestir vilja þjóðarinnar og tilkynnir þessum erlenda aðila að þjóðin hafi hafnað þessari lögmætu umsókn (í þjóðaratkvæði). Umsóknar aðilinn sættir sig ekki við tæknilegar viðskiptahindranir af hálfu ríkisstjórnarinnar þar sem samkvæmt lögum bæði í Evrópu og hér á Íslandi er rafmagn skilgreint sem vara, því er óheimilt samkvæmt ákvæðum EES samningsins um frjáls viðskipti að hindra frjálst flæði vöru og þjónustu. 

Umsóknar aðilinn kærir ákvörðun Alþingis og krefst skaðabóta auk þess að hindrunum þessum verði rutt úr vegi. Íslenska ríkið er dæmt til þess að heimila lagningu raforkusæstrengs að öðrum kosti greiða himinháar skaðabætur (70 til 100 milljarða eða 10% af fjárfestingunni) á hverju ári, þar til að heimild fyrir lagningu strengsins liggur fyrir, samþykkt af Alþingi. Þingmenn eiga engan annan kost en að samþykkja lagningu strengsins til þess að losa þjóðina undan þeim álögum sem á hana hafa verið lagðar. 

Sviðsmynd númer tvö (Þvingun vegna ytri áhrifa)

Þessa sviðsmynd setti ég fram fyrst í pistli sem ég skrifaði hér 16. maí 2019 síðastliðinn. Horfum nú fram til ársins 2040 eða fram um ríflega 20 ár, mikil tækniþróun hefur átt sér stað á öllum sviðum enda svokölluð fjórða iðnbylting verið á fullri ferð og ekki sér fyrir um allar þær breytingar sem eru að ganga yfir heiminn. Vegna breytinga á markaði m.a. vegna mikillar gjaldtöku á kolefnis útblæstri á flutningum bæði hrávara og tilbúinna afurða hefur stóriðjan að mestu farið úr landi þar sem orkuverð plús kolefnisgjald sem er óhagkvæmt hér vegna legu landsins, langt frá helstu uppsprettum hráefnis og mörkuðum. Kolefnisgjaldið hefur orsakað það að stóriðnaðarframleiðsla er mun hagkvæmari annaðhvort hjá hráefnisuppsprettum eða við helstu markaðssvæði. 

Þessi þróun hefur haft það í för með sér að 80% af allri þeirri orku sem framleidd er hér á landi er ekki að seljast. Fjöldagjaldþrot blasir við í orkugeiranum ef ekki verður lagður hingað raforkusæstrengur eins fljótt og mögulegt er. Raforkuverð til þjóðarinnar ríkur hér upp úr öllu valdi vegna rekstrarerfiðleika raforkuframleiðenda sem þrýsta nú sem aldrei fyrr á verðhækkanir og lagningu raforkusæstrengs. Þingmenn eiga ekki annan kost til þess að stemma stigum við þeim vandræðum sem sem orkufyrirtækin eru komin í heldur en að samþykkja lagningu sæstrengs til landsins. 

Sviðsmynd númer þrjú (Þvingun raforkuframleiðenda)

Árið er 2025, Landsvirkjun hefur þvingað stóran hluta af stóriðjunni til þess að leggja hér niður starfsemi, með því að hækka verð á orku til þeirra langt umfram það sem hefur gerst hefur á heimsmarkaði. Þetta gerist í áföngum þegar samningar við stóriðjuna losna hver af öðrum. Hækkanirnar verða slíkar að stóriðjufyrirtækin sjá hag sínum betur borgið með því að flytja starfsemina til landa þar sem hagkvæmara orkuverð fæst. Líkt og í sviðmynd tvö þá myndast mikið magn umframorku í kerfinu sem þarf að koma í verð til þess að raforkukerfið verði sjálfbært. 

Veruleg rekstrarvandræði blasa við Landsvirkjun ef ekki fæst heimild til þess að leggja hingað sæstreng og selja í gegnum hann þá orku sem stóriðjan notaði áður. Alþingi sér fram á verulega efnahagskreppu til lengri tíma ef Landsvirkjun verður ekki komið til hjálpar með að koma orkunni í verð með því að leggja hingað raforkusæstreng. 

Vera kann að fólki þyki þessi sviðmynd óraunhæf en hún er þrátt fyrir allt sú sviðsmynd af þessum þrem sem hér eru settar fram sem líklegust er til þess að rætast. Í raun má halda því fram að þetta ferli sé þegar hafið. Álver Ríó Tintó í Straumsvík hefur verið rekið með umtalsverðum halla frá árinu 2010 er Landsvirkjun gerði við félagið nýjan stórhækkaðan orkusamning sem kippti rekstrargrundvelli undan félaginu að verulegu leiti. Samningar við kísilmálmverksmiðju Elkem á Grundartanga eru í uppnámi og því ríkir fullkomin óvissa með framhald þar. Norðurál á Grundartanga gerði nýlega samning við Landsvirkjun til 5 ára (gildir til 2025) þar sem orkuverð hækkar verulega og áhugavert verður að skoða rekstrarniðurstöður þar þegar sá samningur hefur tekið gildi. 

Öllum má vera ljóst að Landsvirkjun hefur undirbúið komu raforkusæstrengs til landsins um langt skeið. Fyrirtækið hefur þegar eitt hundruðum milljóna í undirbúning á þessu verkefni og kynnt þá möguleika sem slíkur strengur getur haft á afkomu fyrirtækisins til lengri tíma, reglulega á ársfundum sínum. 

Peðin sem fórnað verður í þessari refskák gangi hún fram eins og flest bendir til,  eru almenn heimili á íslandi og íslensk atvinnufyrirtæki sem bæði munu þurfa að búa við ört hækkandi raforkuverð sem kemur til með að sveiflast eftir tíðarfari og markaðsaðstæðum í Evrópu en ekki aðstæðum hér á landi. 

Þetta er merkilegt í því ljósi að þeir sem telja að óhagkvæmt sé að taka hér upp gjaldmiðilinn Evru, helst vegna þess að sveiflur hans séu ekki í takti við íslenskt efnahagslíf. Virðast núna komast að þeirri niðurstöðu að það sé gott fyrir íslenskt efnahagslíf að raforkuverð hér sveiflist í takti við Evrópskt tíðarfar en ekki íslenskan raunveruleika.

Viðar Garðarsson

Viðar Garðarsson

Höfundur er markaðsstjóri hjá TARAMAR ehf, markaðsráðgjafi hjá markadsmenn.is og stjórnendaþjálfari hjá Leadership Management International.

Meira

Myndasyrpur