Höfum enga 90 daga

Birgir Jónsson er nýr forstjóri Íslandspósts.
Birgir Jónsson er nýr forstjóri Íslandspósts. mbl.is/Kristinn Magnússon

Birgir Jónsson, nýráðinn forstjóri Íslandspósts er gestur Viðskiptapúlsins, hlaðvarps ViðskiptaMoggans í dag. Viðtalið var tekið í kjölfar þess að langt og ítarlegt viðtal var birt við hann í blaðinu í morgun.

Í spjallinu fer Birgir yfir það hversu þröng staða fyrirtækisins er og hann segir stjórnendur þess engan tíma mega missa í þeirri viðleitni að draga úr rekstrarkostnaði og koma skikki á reksturinn.

„Ég var að senda út póst í morgun á starfsfólk þar sem ég var að tilkynna að við værum að fara í uppsagnafasa sem eru miklar fréttir fyrir Íslandspóst sem ekki hefur verið gert á þessum stað, við skulum segja í þessu stjórnunarlagi. Við erum að tilkynna líka að við erum að sameina og loka ýmsum dreifingarstöðvum sem við erum með úti um allan bæ sem fríar út þrjár, fjórar fasteignir úti um allan bæ og færum inn í póstmiðstöðina.“

Birgir segir að sér hafi komið mest á óvart þegar hann hóf störf hjá fyrirtækinu hversu marga öfluga starfsmenn þar var að finna. Fyrir fram hafði hann frekar talið að hann myndi mæta hópi sem ekki hefði tök á verkefnum sínum. Annað hafi komið á daginn og að almennt sé fólk tilbúið til að taka til hendinni.

„Þannig að við erum alveg á fullu að ganga í þau mál sem eru alveg augljós. Ég legg áherslu á að þetta eru allt verkefni sem hafa legið tilbúin innan fyrirtækisins.“

Hann segir að bregðast þurfi mun hraðar við en almennt sé viðtekið í breytingastjórnun. 

„Það er mikið af flottum stjórnendum innanhúss sem eru algjörlega með puttann á púlsinum hvað reksturinn varðar. Mitt hlutverk er miklu frekar að keyra í gegn breytingar og horfa til framtíðar og hvetja til góðra verka. Oft er sagt í stjórnunarfræðum að það séu fyrstu 90 dagarnir. Við höfum enga 90 daga. Það kemur líka skýrt fram í skýrslunni líka. Fyrirtækið er, maður þarf að passa sig á þessu hugtaki, en ég lít á það sem tæknilega gjaldþrota. Ef fyrirtækið þarf að leita til eiganda síns til að mæta skyldum sínum þá er enginn tími.“

Í Viðskiptapúlsinum er einnig rætt við Birgi um feril hans sem teygir sig víða um heim, allt frá London til Hong Kong. Þá er einnig skyggnst yfir tónlistarferilinn sem náði hápunkti með gríðarlegum vinsældum þungarokkshljómsveitarinnar Dimmu þar sem hann var trommuleikari um sjö ára skeið.

Hlusta má á tólfta þátt Viðskipta­púls­ins hér að neðan. Þá má einnig nálg­ast fría áskrift að þátt­un­um í gegn­um helstu podcast-veit­ur fyrir iOS-snjalltæki, á Spotify og Google Play.

mbl.is
Arionbanki
Arionbanki