Fjölga eigi fríverslunarsamningum

Friðjón vill fjölga fríverslunarsamningum.
Friðjón vill fjölga fríverslunarsamningum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Friðjón R. Friðjónsson, almannatengill, segir í samtali við Viðskiptapúlsinn, hlaðvarp ViðskiptaMoggans, að Bretland og Bandaríkin séu Íslendum umtalsvert mikilvægari en Evrópusambandið (ESB). Þá telur hann að leggja eigi áherslu á að fjölga fríverslunarsamningum milli Íslands og annarra ríkja.

Spurður hvort ráðgera megi að Ísland nái samkomulagi við Breta um aukin viðskipti milli ríkjanna þegar útgöngu síðarnefndu þjóðarinnar úr ESB er lokið kveður Friðjón já við. „Ég vona það. Mér finnst við ekkert erindi eiga í ESB, en við eigum að gera fríverslunarsamninga við sem flesta, eins og við höfum gert. Við eigum síðan að nýta þá samninga sem við erum með við ESB, sem eru okkur gríðarlega mikilvægir í efnahagslegu og pólitísku tilliti,“ segir Friðjón og bætir við að Bretland sé Íslendingum afar mikilvægt. „Þeir eru ein okkar stærsta viðskiptaþjóð ef ekki sú stærsta. Það er enginn vafi að Bandríkin og Bretar eru mikilvægari en ESB sjálft,“ segir Friðjón. 

Friðjón R. Friðjónsson, almannatengill.
Friðjón R. Friðjónsson, almannatengill. mbl.is

Bandaríkin okkar bestu bandamenn

Eins og greint var frá á dögunum verður Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, fjarverandi þegar Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, kemur í heimsókn hingað til lands í upphafi næsta mánaðar. Þess í stað hefur hún tekið ákvörðun um að sækja þing Nor­rænu verka­lýðssam­tak­anna heim, en hún hefur áður sagt að hún telji ekki ástæðu til að breyta því. Aðspurður segist Friðjón fagna því að aukið samtal eigi sér nú stað milli ríkjanna, en koma Pence sýni að Bandaríkin horfi í auknum mæli hingað til lands. 

Ljóst er að mikilvægi Bandaríkjanna er gífurlegt í viðskiptalegu samhengi, en að sögn Friðjóns eru Bandaríkin sú þjóð sem sögulega hefur sannað sig sem okkar bestu bandamenn. Spurður hvort ekki sé undarlegt að forsætisráðherra þjóðarinnar sé fjarverandi við komu stjórnmálamanns á borð við Pence kveður Friðjón nei við. „Ekki ef það er ákvörðun frá hennar sannfæringu að hún hafi engan áhuga á að hitta þennan mann,“ segir Friðjón sem kveðst þó sjálfur þeirrar skoðunar að Katrín hefði átt að taka á móti Pence og kynna fyrir honum fyrir hvað Íslendingar standa. 

Hlusta má á 22. þátt Viðskipta­púls­ins hér að neðan. Þá má einnig nálg­ast þátt­inn í gegn­um helstu podcast-veit­ur hjá itu­nes, Spotify og Google Play.

mbl.is
Arionbanki
Arionbanki