„Markaðurinn alls ekki í frosti“

Endurnýjun þarf að eiga sér stað að sögn Jóns Trausta.
Endurnýjun þarf að eiga sér stað að sögn Jóns Trausta. mbl.is/Golli

Sala bifreiða mun taka við sér á næsta ári sökum þess að endurnýjun fjölda bifreiða mun þurfa að eiga sér stað á næstu mánuðum. Þetta segir Jón Trausti Ólafsson, framkvæmdastjóri bílaumboðsins Öskju og formaður Bílgreinasambandsins, í samtali við Viðskiptapúlsinn, hlaðvarp ViðskiptaMoggans. Að hans sögn er samdráttarskeið í bílasölu síðustu mánaða að líða undir lok. 

„Við erum búin að selja um 9.000 bifreiðar sem er samanburðarhæft við árin 2014 og 2015. Nú erum við að sjá fram á minni samdrátt og hugsanlega aukningu á næstu mánuðum. Það hafa verið að seljast á bilinu sjö til níu hundruð bifreiðar á mánuði þannig að markaðurinn er alls ekki í frosti,“ segir Jón Trausti sem kveðst bjartsýnn á að markaðurinn muni taka við sér af talsverðum krafti á komandi mánuðum. 

Bílasala glæðist á næsta ári

Nú fyrir skömmu bárust fréttir af því að bílasala hefði dregist saman um 39,2% í júlímánuði samanborið við sama mánuð í fyrra. Þá hefur verið um 34% samdráttur í bílasölu fyrstu sjö mánuði ársins ef miðað er við árið í fyrra. Að sögn Jóns Trausta eru nú nýjar bifreiðar að koma inn á markað sem hann vonast til að muni glæða söluna. Þá styttist óðum í að bílaleigur þurfi að endurnýja flota sína. 

„Bílaleigurnar eru mjög sáttar við sumarið heyri ég og það er ljóst að þeirra markaður mun taka við sér á næsta ári. Bílarnir eru talsvert keyrðir og verða endurnýjaðir á komandi ári,“ segir Jón Trausti og bætir við að markaðurinn sé að ná jafnvægi. „Ég held að í lok árs verði bílaumboðin komin með heilbrigðan lager og búin að stilla sig af. Svo fer salan vonandi af stað á næsta ári þannig að stækka þurfi lagerinn að nýju,“ segir Jón Trausti. 

Hlusta má á 23. þátt Viðskipta­púls­ins hér að neðan. Þá má einnig nálg­ast þátt­inn í gegn­um helstu podcast-veit­ur hjá itu­nes, Spotify og Google Play.

mbl.is
Arionbanki