Draumurinn er að Ísland verði í fararbroddi í fjártækni

Meniga.
Meniga. Ljósmynd/Aðsend

Fjártæknifyrirtækið Meniga opnaði í gær nýja og endurbætta vefsíðu á slóðinni Meniga.com þar sem einstaklingar, þjónustufyrirtæki og bankar geta sótt sér upplýsingar og þjónustu. Þetta kemur fram í samtali við Viggó Ásgeirsson, starfsmannastjóra og einn stofnenda fyrirtækisins, í ViðskiptaPúlsinum. Þá segir Viggó að draumur Meniga sé að Ísland verði í fararbroddi í fjártækni í heiminum.

Marina Bay Sands og vísindalistasafnið í Singapúr.
Marina Bay Sands og vísindalistasafnið í Singapúr. AFP

„Á nýja vefnum eru þrír útgangspunktar. Í fyrsta lagi einstaklingarnir, þá fyrirtæki eins og verslanir og þjónustuaðilar sem vilja taka þátt í tilboðskerfinu okkar og svo bankarnir, sem eru í dag grunnurinn að tekjum okkar og okkar verðmætustu viðskiptavinir,“ segir Viggó.

Meniga heldur í ár upp á tíu ára afmæli sitt, en félagið var stofnað árið 2009, stuttu eftir efnahagshrunið. „Þetta var ákveðin ævintýramennska. Ég og bróðir minn Ásgeir unnum í Landsbankanum á þessum tíma en Georg Lúðvíksson hafði nýlega lokið MBA-námi frá Harvard-háskóla í Bandaríkjunum. Við sáum gríðarleg tækifæri í að bæta bankaþjónustu á Íslandi og í heiminum öllum og töldum að nýjasta tækni myndi nýtast vel til þess. Við slógum til og lögðum inn uppsagnarbréf í vinnunni. Það gerast ekki stórir hlutir nema menn leggi allt undir,“ segir Viggó, og bætir við að stórir hlutir hafi einmitt gerst og sú metnaðarfulla viðskiptaáætlun sem þeir hafi búið til hafi gengið vel eftir.

Viggó Ásgeirsson starfsmannastjóri Meniga.
Viggó Ásgeirsson starfsmannastjóri Meniga.

„Við nutum góðs af því að bankarnir þurftu virkilega á nýrri þjónustu að halda, enda voru þeir ekki best þokkuðu fyrirtækin þarna strax eftir hrun. Þá var auðvelt að finna forritara með reynslu á þessum tíma, auk þess sem krónan hafði hrunið og því var ódýrt að framleiða hugbúnað á Íslandi.“

Í dag er Meniga með 160 starfsmenn í sjö löndum og er enn að vaxa. Viðskiptavinir eru í 30 löndum og varan nær að sögn Viggós til 70 milljóna notenda. Síðast opnaði fyrirtækið skrifstofu í Singapúr í júlí sl. „Við sjáum Suðaustur-Asíu sem mjög vaxandi markað fyrir okkar þjónustu. Þar eru þrír starfsmenn í augnablikinu en við sjáum fram á áframhaldandi vöxt þar sem og annars staðar.“

Hlustaðu á viðtalið í heild sinni hér fyrir neðan:

Hlusta má á 25. þátt Viðskipta­púls­ins hér að ofan. Þá má einnig nálg­ast þátt­inn í gegn­um helstu podcast-veit­ur hjá Itu­nes, Spotify og Google Play.

mbl.is
Arionbanki
Arionbanki