Ekki einkamál endurskoðenda

Margrét Pétursdóttir, nýráðinn forstjóri endurskoðunarfyrirtækisins EY, segir að markmið nýrra Evrópureglna um endurskoðun, sem eiga að taka gildi hér á landi 1. janúar nk., sé að auka gæði endurskoðunar. Hún segir að það að auka gæðin, sé ekki einkamál endurskoðenda. „Það er alveg sama hversu fullkomnir við endurskoðendur reynum að vera, þá getum við aldrei gert neitt ein. Hagsmunasamfélagið þarf allt að styðja við þetta. Við þurfum að hafa námið í lagi og löggjafarvaldið. Stjórnir fyrirtækjanna þurfa að vera heiðarlegar og gera allt eftir kúnstarinnar reglum, og eftirlitsaðilarnir þurfa sömuleiðis að vera í lagi. Þá eru það endurskoðunarnefndirnar, en þeim er gert mjög hátt undir höfði í þessum breytingum,“ segir Margrét í ViðskiptaPúlsinum.

Margrét Pétursdóttir, forstjóri EY á Íslandi.
Margrét Pétursdóttir, forstjóri EY á Íslandi.

Spurð að því hvort endurskoðunarfagið sé íhaldssamt segir Margrét að það sé löngu úrelt að tala þannig um endurskoðun. Hún segir að fagið sé alls ekki þurrt og leiðinlegt eins og margir ímynda sér að það sé. „Ég veit aldrei hvað ég er að fara að takast á við á morgnana, það kemur alltaf eitthvað nýtt. Það eru stöðugt nýjar áskoranir, og mikil samskipti við fólk og teymisvinna. Þetta er svakalega skemmtilegt starf og krefjandi.“

Fyrst Íslendinga í stjórn IFAC

Margrét tók nýlega sæti í stjórn Alþjóðasambands endurskoðenda, IFAC, fyrst Íslendinga. „Það er það eina sem land eins og Ísland getur gert, að fylgjast með öllum ráðum með því sem er að gerast alþjóðlega. Við erum svo fá og þurfum svo mikið á heiminum að halda,“ segir Margrét og bætir við að það sé mikil upphefð fyrir Ísland að fá mann inn í stjórnina.

Hlusta má á 26. þátt Viðskipta­púls­ins hér að neðan. Þá má einnig nálg­ast þátt­inn í gegn­um helstu podcast-veit­ur hjá itu­nes, Spotify og Google Play.

mbl.is
Arionbanki
Arionbanki