Leitum að hindrunum

Börn í leik- og grunnskólum á suðvesturhorni landsins geta fengið …
Börn í leik- og grunnskólum á suðvesturhorni landsins geta fengið mat í áskrift frá Skólamat.

Jón Axelsson framkvæmdastjóri Skólamatar, veitingafyrirtækis sem þjónustar nemendur og starfsfólk leik – og grunnskóla með veitingar inni í skólunum, segir í samtali við ViðskiptaPúlsinn, hlaðvarp ViðskiptaMoggans, að það sé innbyggt í kjarna fyrirtækisins að leita að hindrunum.

Jón Axelsson framkvæmdastjóri Skólamatar.
Jón Axelsson framkvæmdastjóri Skólamatar.

„Ég myndi segja að það væri innbyggt í kjarna þessa fyrirtækis að leita að hindrunum og ná að finna leiðir framhjá þeim," segir Jón spurður um hvort að margar hindranir hafi orðið á vegi félagsins á þeim tuttugu árum sem það hefur verið starfrækt.

„Við köllum mikið og skipulega eftir ábendingum frá nemendum, foreldrum, sveitarfélögum og stjórnendum skólanna, og það hefur verið innbyggt í það sem við gerum. Það er lykillinn í því að við höfum verið að þróast og ná árangri á þessari leið, að eiga í mjög djúpu samstarfi við þessa aðila sem við vinnum með, og við lítum á okkar viðskiptavini sem okkar samstarfsaðila,“ segir Jón.

Skólamatur er fjölskyldufyrirtæki. Jón Axelsson ásamt systur sinni Fanný, og …
Skólamatur er fjölskyldufyrirtæki. Jón Axelsson ásamt systur sinni Fanný, og föður þeirra Axel Jónssyni, sem stofnaði fyrirtækið.

Spurður um ábendingar sem komið hafa frá nemendum hvað varði einstaka rétti á matseðlinum, segir Jón að borist hafi óskir um Sushi. „Við erum ennþá að leysa það. En svo kom annar nemandi með ábendingu um núðlur. Nú erum við búin að þróa flotta núðlurétti sem passa inn í þá skilgreiningu að vera hollur matur sem hægt er að bjóða fyrir marga, en til þess að geta boðið upp á núðlurnar þurftum við að fjárfesta í sérstökum búnaði.“

Í samtalinu er farið yfir ýmsa aðra þætti í starfsemi Skólamatar, meðal  annars hugmyndir um útrás fyrirtækisins, og notkun tölvugagna til að ákveða hvað er í matinn á hverjum degi,  sem Jón segir að sé engin tilviljun.

Hlusta má á 27. þátt Viðskipta­púls­ins hér að ofan. Þá má einnig nálg­ast þátt­inn í gegn­um helstu podcast-veit­ur hjá Itu­nes, Spotify og Google Play.

mbl.is
Arionbanki