Atvinnustigið muni breytast

Erna Björg Sverrisdóttir, aðalhagfræðingur Arion banka.
Erna Björg Sverrisdóttir, aðalhagfræðingur Arion banka. Haraldur Jónasson/Hari

Talsverðar breytingar virðast nú í farvatninu á íslenskum vinnumarkaði þegar atvinnuleysi eykst tiltölulega hratt á meðan verðbólguhorfur haldast lágar og gengi krónunnar hefur ekki gefið mikið eftir, þrátt fyrir bakslag í hagkerfinu.

Á þetta bendir Erna Björg Sverrisdóttir, aðalhagfræðingur Arion banka, en hún er gestur í Viðskiptapúlsinum, hlaðvarpi ViðskiptaMoggans í dag. Í þættinum, sem nálgast má á helstu hlaðvarpsveitum, en einnig í spilaranum hér að neðan, ræðir hún stöðuna í íslensku hagkerfi og horfurnar á komandi ári.

„Við erum að færast í sambærilegra horf og önnur nágrannalönd okkar. við sjáum það til dæmis hvernig aðlögun hagkerfisins er að fara fram. við höfum alltaf verið mjög fókuseruð á að halda atvinnustigi háu og tekið þá frekar skellinn í gegnum gengið og gegnum verðstöðugleikann. Við höfum í raun fórnað honum fyrir atvinnustigið.“

Verðstöðugleikinn mun meiri en áður

Segir hún að þarna sé um talsvert breytta mynd frá því sem áður var.

„Við erum með litla verðbólgu, hún er að verða komin nálægt markmiði og krónan er stöðug á meðan atvinnuleysið er að hækka hraðar. við erum meira að taka aðlögun hagkerfisins í gegnum vinnumarkaðinn en áður.“

Þá bendir hún á að hingað til hafi að einhverju marki verið stólað á að sveigjanleiki vinnumarkaðarins væri mikill, einkum vegna þess að þegar vel gengi sækti hingað til lands fólk frá öðrum löndum í leit að störfum en þegar umsvifin minnkuðu hyrfi sama fólk gjarnan á braut. Nú hafi atvinnuleysi hins vegar aukist mikið meðal erlendra ríkisborgara á sama tíma og þeim fjölgaði talsvert í landinu.

Spurð hvort atvinnuleysi gæti farið í 7 til 8 prósent hér og haldist í slíku hlutfalli yfir lengra eða skemmra tímabil segir Erna að margt bendi til þess að íslenskt samfélag verði að horfast í augu við breyttan veruleika.

„Ég hugsa að það sé nýr veruleiki sem við verðum að horfast í augu við. hingað til hefur atvinnuleysi verið svona á bilinu 2-3% ef tekið er eitthvað meðaltal frá sirka 1990. ég hugsa að við verðum að horfast í augu við að þetta jafnvægisatvinnuleysi sem við erum að horfa á hafi hækkað, vegna breyttrar samsetningar í hagkerfinu og hvernig staðan er í heimshagkerfinu er.“

Framsýn leiðsögn kom fram í viðtalinu

Spurð út í ítarlegt viðtal við Ásgeir Jónsson seðlabankastjóra, sem birt var í ViðskiptaMogganum í morgun segir hún að í viðtalinu felist sú framsýna leiðsögn sem markaðurinn hafi að mörgu leyti talið vanta í yfirlýsingu peningastefnunefndar sem gerð var opinber á miðvikudag í síðustu viku. Þá hafi markaðurinn einnig tekið fálega í fund sem seðlabankastjóri og varaseðlabankastjóri stóðu fyrir til þess að kynna niðurstöðu nefndarinnar. 

Fagnar Erna Björg því að seðlabankastjóri skuli opna á frekari stýrivaxtalækkanir á nýju ári, enda segir hún margt benda til þess að meiri viðspyrnu þurfi til að koma hjólum atvinnulífsins af stað á ný.

mbl.is
Arionbanki
Arionbanki