sun. 27. júlí 2014 21:59
Bjarni Guðjónsson
Bjarni Guðjóns: Fáum á okkur þrjú klaufaleg mörk

Bjarni Guðjónsson, þjálfari Fram, sagðist vera súr þegar hann var inntur eftir viðbrögðum eftir þriggja marka tap gegn Víkingi, 0:3, á Laugardalsvelli í kvöld. Hann sagði liðið ekki hafa nýtt færin sín, ekki komið í seinni hálfleikinn af krafti og fengið á sig þrjú klaufaleg mörk.

Fram náði að halda markalausu fram á 66. mínútu og fékk á þeim tíma góð færi til að komast yfir í leiknum. „Mér fannst fyrri hálfleikurinn okkar spilast nokkuð vel, við fáum þrjú fín færi en þeirra færi voru meira í skotum fyrir utan teig.“

Hann sagði það hins vegar hafa gerst að leikmenn sínir hafi ekki farið út í seinni hálfleikinn af krafti og fengið á sig þrjú klaufaleg mörk á síðasta kafla leiksins.  Það mætti jafnvel rekja til þess að sjálfstraust leikmanna sé ekki mikið, á meðan liðið er í botnsæti deildarinnar. „Sjálfstraustið í liðinu er ekki mikið. Við erum í neðsta sæti og það fylgir því að það er ekki mikið sjálfstraust.“

Bjarni sagði að unnið væri markvisst að því að telja mönnum trú um þeir gætu náð lengra og til að mynda mætti taka margt gott úr fyrri hálfleiknum gegn Víkingi í kvöld.

Sjá einnig:

Öruggur sigur Víkings á Fram

Óli Þórðar.: Kláruðum þetta vel

til baka