Heimasíða

Leiðangursmenn

Dagbók

Greinar

Kort af leiðinni

Útbúnaður

Fjallið

Gestabók

Styrktaraðilar

 
Gyðjan ­móðir heimsins


Himalaya þak heimsins

Himalayafjöllin bera höfuð og herðar yfir aðra fjallgarða veraldarinnar og hafa því réttilega stundum verið nefnd þak heimsins. Á jörðinni eru 14 fjöll sem rjúfa 8.000 m múrinn og eru þau öll hluti Himalaya. En Himalayafjöllin eru ekki aðeins há heldur ná þau yfir gríðarlegt landsvæði, allt frá Burma í austri til Afganistan í vestri,þvert yfir norðanverðan Indlandsskagann.Til samanburðar má nefna að það jafngildir vegalengdinni frá Íslandi til Lúxemborgar.

 

Himalaya eru fellingafjöll sem myndast við það að jörðin krumpast upp á mótum tveggja jarðskorpufleka sem rekast saman. Á móti rembast roföflin, jöklar, vatn og vindur við að skrapa þau niður og bera mylsnuna til hafs, en hafa ekki undan og eru fjöllin því enn að hækka. Í Nepal, og aðliggjandi svæðum í suðaustur hluta Himalaya, einkennist landið af skógivöxnum dölum sem ganga upp frá frjósömum sléttum og undirlendi Bangladesh og skera sig upp á móti svæviþöktum risavöxnum fjöllum. Eftir því sem fjær dregur sjó til vesturs, í átt til Pakistan og Pamir-fjallanna, verða ógróið land og eyðimerkur Miðausturlanda meira áberandi, enda gætir áhrifa hinna árvissu monsúnrigninga sífellt minna. Að norðan er eyðileg háslétta Tíbet og Kína svo langt sem augað eygir, en að sunnan undirlendi Indlands.

Nepal
Everest, 8.848 m að hæð, er nyrst í Himalaya á landamærum Nepal og Tíbet, Everest er eitt af átta 8.000 m fjöllum sem eru innan landamæra Nepal, og er landið í þeim skilningi hálendasta ríki heims. Nepal er fátækt og lítið land, aðeins um 141.000 ferkílómetrar að stærð. Landið byggir glaðlynt fólk með fjölbreyttann uppruna. Alls byggja Nepal um 35 þjóðflokkar og eru gurkha og sherpar þar líklega þekktastir, þó fámennir séu. Af landsmönnum, sem eru um 20 milljónir, eru flestir Hindúatrúar eða tæp 90%, en um 6% flokkast sem Búddistar. Hvergi í heiminum má sjá eins gott samlyndi fólks með mismunandi trúarbrögð, sérstaklega með tilliti til þess að líklega eiga mörg stríðin einmitt rætur að rekja til trúarágreinings. Það þekkist jafnvel að Hindúar taki þátt í trúarathöfnum Búddista og öfugt og haldnar eru sameiginlegar hátíðir.
Á undanförnum áratugum hefur skógarhögg í hinum skógivöxnu fjöllum Nepal og víðar í austurhluta Himalaya valdið því að rætur trjánna binda ekki lengur jarðveginn og það vatn sem monsúnrigningarnar skila til jarðar er ekki lengur sogað upp af öflugu rótarkerfi trjánna, heldur safnast það saman í jarðveginum eða rennur beint í næstu á. Hefur þessi ásókn í timbur og eldivið þannig valdið því að tíðni skriðufalla hefur aukist mikið og mannskaðaflóð í Ganges-ánni og á strandsvæðum Bangladesh við Bengalflóa verða æ tíðari.

  Everest uppgötvað!
Það var ekki fyrr en langt var liðið á nítjandu öld að Everest varð fyrst þekkt í hinum vestræna heimi. Á þeim tíma hafði vart nokkrum manni hugkvæmst að klífa "risana" í Himalaya, enda voru Evrópumenn, með Breta í broddi fylkingar, að stíga sín fyrstu skref í fjallamennsku. Á 19. öld réð breska heimsveldið ríkjum á Indlandi og réðust Bretar þá í viðamiklar landmælingar á öllum Indlandsskaga.

Árið 1849 hófst þríhyrningamælingin mikla undir stjórn landfræðingsins Sir Georges Everest. Var Indlandsskaginn þá kortlagður á nokkrum árum og telst sú framkvæmd með mestu merkisviðburðum í sögu landmælinganna. Nepal var á þessum tíma lokað ríki og engum hleypt þar inn. Með gríðarlega öflugum hornamælum tókst landmælingamönnum Breta þó að mæla hæð allra hæstu fjalla Nepal, allt norður að landamærum Tíbet, úr mikilli fjarlægð frá nyrstu hæðum Indlands. Meðal þeirra fjalla var Everest sem þá var nefnt tindur XV. Sagan segir að einn góðan veðurdag árið 1852 hafi reiknimeistarinn Rathamata Shirdar, sem reiknaði út úr mælingunum, stokkið upp frá reiknistokki sínum og hrópað: "Ég hef fundið hæsta fjall heims." Hæðin var reiknuð 29.002 fet, eða 8.840 m. Allt fram á þennan dag hafa efasemdarmenn komið fram með fullyrðingar um annað, en gervihnattamælingar nútímans hafa fyrir löngu staðfest að Everest ber með réttu kórónuna í fjallaríki jarðarinnar. Mæling bresku landmælingamannanna hefur staðist tímans tönn ótrúlega vel og enn þann dag í dag taka menn ofan fyrir nákvæmni þeirra við erfiðar aðstæður, því viðurkennd hæð Everest í dag er aðeins 8 m hærri, eða 8.848 m.

Nafngiftin vekur deilur
Líkt og um svo mörg önnur fjöll voru ekki allir á eitt sáttir um hvaða nafn skyldi gefa hinu nýuppgötvaða hæsta fjalli heims. Það er regla hjá landmælingamönnum allra þjóða, ekki síst Breta, að örnefni frumbyggjanna skuli standa. Þar sem Nepal var alveg lokað land, var erfitt ef ekki ómögulegt að grafa upp rétta nafn tinds XV. Fljótt kom hins vegar fram sú tillaga að nefna fjallið Everest, til heiðurs Sir George Everest. Eftir mikið fjaðrafok og mótmæli samþykkti breska landfræðifélagið nafnið árið 1865. En deilurnar lægði ekki og héldu áfram í áratugi. Ýmsar kenningar voru settar fram um hið upprunalega nafn, en engin þeirra reyndist á rökum reist. Afleiðingin varð sú að Everest-nafnið festist í sessi. Löngu síðar fékkst staðfest að innfæddir, bæði norðan og sunnan fjallsins, notuðu hið hljómmikla nafn "Chomolungma", sem þýðir "Gyðjan ­ móðir heimsins" og er óneitanlega ekki síður viðeigandi nafn. Fyrir allnokkrum árum tók Nepalstjórn upp nafnið Sagarmatha, en engin söguleg rök eru fyrir því nafni. Hvort sem mönnum líkar betur eða verr er komin hefð fyrir nafninu Everest á hæsta fjalli jarðar, þrátt fyrir að sumir fjallamenn kjósi að nota Chomolungma í virðingarskyni fyrir fornum gildum.

Frumherjarnir
Ekki leið á löngu þar til fjallamenn fóru að velta fyrir sér þeirri spurningu hvort unnt væri að klífa hæsta fjall jarðar. En hægara var um að tala en í að komast. Bæði Nepal og Tíbet, löndin sem umlykja Everest, voru svo gott að kalla lokuð lönd. Einn og einn ferðalangur gat komist þar inn, en ómögulegt var að skipuleggja þangað stóran fjallgönguleiðangur. Árið 1903 komust foringjar í hersveit Breta, sem fór í herleiðangur inn í Tíbet, í 40-50 km fjarlægð frá norðurhlið fjallsins og mátu þeir fjallið kleift.
 

Yfirmaður hersveitarinnar, Sir Francis Younghusband og varakonungurinn á Indlandi, Lord Curzon, gerðu sitt ítrasta til þess að fá leyfi tíbeskra yfirvalda til að klífa fjallið, en án árangurs. Áhugi manna heima fyrir var nú vakinn og fóru næstu ár í að finna leiðir til þess að nálgast fjallið. Fyrri heimsstyrjöldin skall fljótlega á og tafði málið, en að henni lokinni var strax hafinn undirbúningur að leiðangri. Pólitískt andrúmsloft hafði breyst og Tíbetar voru nú fúsir til þess að gefa fulltrúum breska heimsveldisins tækifæri til þess að komast að fjallinu og freista þess að klífa það. Heima fyrir voru ekki allir sáttir við þessa fyrirætlan. Mörgum fannst að tign og virðuleiki Everest setti niður ef hann væri vanhelgaður með fótatraðki og broddskóm. En þjóðarmetnaður var nú kominn í spilið. Það var í stíl hins breska íþróttaanda að kljást við jafn erfitt verkefni og klifur á hæsta fjall heims, til að auka dýrð heimsveldisins og auka mannsandann. Breska dagblaðið The Times fann hvernig þjóðarhjartað sló og tryggði sér einkarétt á fréttum af leiðangrinum og styrkti hann myndarlega. Þar má segja að áhugi fjölmiðla hafi nú fyrst kviknað fyrir alvöru, áhugi sem ekki er minni í dag. Everest hefur líka skilað fjölmiðlunum framlögunum margfalt til baka með dramatískum sögum og fréttum af sigrum jafnt sem sorglegum viðburðum.

Mallory og fyrstu Everestleiðangrarnir
Það var svo loks árið 1921 að fyrsti leiðangurinn komst af stað. Hann var fyrst og fremst könnunarleiðangur og ætlað að finna færa leið að fjallsrótunum og meta möguleika til uppgöngu. Lykilmaður í þeim leiðangri var Leigh Mallory og tókst honum eftir mikla leit að finna leið að norðausturhlið fjallsins. Mátu leiðangursmenn fjallið kleift en helstu erfiðleikar voru súrefnisleysi, kuldi og fádæma hvass vindur og menn örmögnuðust því fljótt. Búnaður þessa tíma var frumstæður í meira lagi og í augum fjallamanna nútímans kann að virðast með ólíkindum hvað þessir frumkvöðlar komust þó langt. Reipi voru þung og óþjál, mannbroddar og annar klifurbúnaður óburðugur, fatnaður ófullkominn o.s.frv. En Mallory átti eftir að tengja nafn sitt sögu Everest og baráttu manna við það órjúfanlegum böndum. Mallory var frábær fjallgöngumaður og skólastjóri að atvinnu. Hann leit á það sem örlög sín að sigra Everest eða falla sjálfur í valinn. Oft eru fjallgöngumenn spurðir að því hvað það sé sem fær þá til þess að hætta lífi og limum á altari hæsta fjalls jarðar. Mallory á án efa fleygasta svarið: "Because it's tere!" Gott svar!, en þeir sem spurðu þá og spyrja enn, eru víst engu nær og verða líklega aldrei.

Voru Mallory og Irvine fyrstir á topp Everest?
Eftir annan leiðangur 1922 sem komst hæst í 8.320 m hæð, lögðu Bretar aftur til atlögu við fjallið með stórum leiðangri árið 1924. Nú skyldi fjallið klifið hvað sem það kostaði. Eftir margra vikna erfiði hafði leiðangursmönnum tekist að koma upp sex búðum á fjallinu. Einum leiðangursmanna, Edward Norton, tókst að komast í 8.520 m hæð og setja nýtt hæðarmet á fjallinu, áður en hann varð frá að hverfa. Þá var komið að Mallory að fá sitt tækifæri. Mikil spenna var meðal leiðangursmanna um hvern Mallory myndi velja með sér til fararinnar. Framyfir marga aðra reyndari leiðangursmenn valdi Mallory ungan vélvirkja, Andrew Irvine að nafni, sem aðeins var rétt liðlega tvítugur. Ekki er mönnum fulljóst hvers vegna Mallory mun hafa valið svo lítt reyndan mann með sér, en líklegt má telja að þar hafi ráðið sú staðreynd að enginn leiðangursmanna var liprari að eiga við súrefnisbúnaðinn, sem hafði verið bilanagjarn, auk þess sem Mallory vissi sem var, að Irvine myndi vart fara að draga hinar afdrifaríku ákvarðanir sínar í efa þegar á hólminn væri komið. Fjórir Sherpar báru birgðir með þeim Mallory og Irvine upp í V. og næstefstu búðir. Daginn eftir fikruðu þeir sig án aðstoðar sherpanna áfram upp í VI. búðir í 8.170 m hæð. Daginn sem þeir lögðu á tindinn, hinn 8. júní, sá Odell, einn leiðangursmannanna, til þeirra félaga með kíki rétt neðan við topp fjallsins í 8.400 m hæð, þar sem þeir voru enn á uppleið. Félaga þeirra og vini í neðar í fjallinu setti hljóða. Langt var liðið á dag og ljóst að þeim myndi aldrei takast að ná toppnum og aftur niður í efstu búðir fyrir myrkur. Greinilegt var að Mallory ætlaði sér á toppinn hvað sem það kostaði, því enginn vissi betur en hann að útilokað væri fyrir þá félaga að lifa nóttina af án skjóls af tjaldi og prímuss til að bræða vatn. Irvine, blindaður af aðdáun á hinum mikla fjallamanni, fylgdi foringja sínum eftir, enda eflaust illfær um að snúa við einn síns liðs, jafnvel þó hann vildi. Áfram mjökuðust þeir félagar og innan skamms hurfu þeir sjónum félaga sinna. Síðar um daginn skall á bylur... Í hugum hinna eftirlifandi mun alltaf lifa efinn um hvort Mallory og Irvine urðu fyrstir á Everest, eða hvort þeir létust áður en toppnum var náð. Svarið fæst aldrei, en aftur á móti má velta upp þeirri heimspekilegu spurningu hvort ekki verði að klifra bæði upp og niður til þess að fjall teljist sigrað að fullu. Hvað sem því líður lögðu Bretar ekki árar í bát, þrátt fyrir sorgleg endalok þeirra félaga, heldur tvíefldust. Þeir voru sannfærðir um að sigur myndi hafast að lokum, þrátt fyrir að ekki tækist að slá hæðarmet Nortons í leiðöngrum 1933, 1935, 1936 og 1938.

Kapphlaupið hefst
Fljótlega eftir lok seinni heimsstyrjaldarinnar lokaðist Tíbet að nýju vegna hernáms Kínverja og sjálfstæðisbarátta Indverja og borgarastríð urðu til að Bretar höfðu hægt um sig í nokkur ár. Um 1950 breyttist hins vegar afstaða Nepals til umheimsins. Þeir voru skyndilega sem milli steins og sleggju tveggja stórvelda, Kína og Indlands, og sáu þann kost vænstan að opna nánast óþekkt land sitt fyrir erlendum fjallgönguleiðöngrum. Opnaðist þá aðgangur að öllum hæstu fjöllum Himalaya og fór þá loks að draga til tíðinda í sögu háfjallamennskunnar. Frakkar, Bretar, Svisslendingar og Þjóðverjar kepptust hatrammlega um að stinga fánum sínum fyrst þjóða á topp hæstu fjalla heimsins. Kapphlaupið snerist um tvö aðalmarkmið. Annars vegar var um að ræða fyrsta 8.000 m fjallið og hins vegar Everest. Á þessum tíma voru flest þessara fjalla lítt þekkt og mörg talin ókleif, t.d. K2, Dhaulagiri o.fl. Leiðirnar að fjöllunum voru einnig langar og var í mörgum tilfellum 1-2 mánaða ferðalög og gangur að rótum fjallanna. Öllu var til kostað, fleiri hundruð manna leiðangrar örkuðu í austurveg með það eitt að markmiði að vera á undan hinum að komast á toppinn.

Fyrsta vígið fellur
Um vorið 1950 settu Frakkar nafn sitt á spjöld sögunnar þegar Maurice Herzog leiðangursstjóri og Louis Lachenal urðu fyrstir til að stíga fæti á 8.000 m hátt fjall, þegar þeim tókst að komast á topp Annapurna, 8.091 m að hæð. Það sem gerði afrek þeirra enn merkilegra var að upprunalega hafði ætlun þeirra verið að klífa Dhaulagiri, en þegar á hólminn var komið mátu þeir fjallið ókleift. Frekar en að gefast upp ákváð Herzog að klífa annað fjall sem hann vissi af í nágrenninu en enginn hafði komið áður að þeim megin sem þeir voru og var leiðin að fjallinu því óþekkt. Það eina sem Herzog hafði til viðmiðunar var afar ófullkominn uppdráttur og hófst nú mikil leit. Eftir tveggja vikna leit um dali og fjallaskörð fannst fjallið að lokum hulið sjónum bak við háa framverði sem byrgðu að því sýn. Í fyrstu virtist Herzog fjallið afar óárennilegt, en eftir nánari skoðun taldi hann sig sjá færa leið. Fór það svo að Herzog og Lachenal tókst að klífa fjallið, en hætt er við að mörgum þætti það dýru verði keypt. Mannraunirnar sem lagðar voru á þá félaga voru miklar og of langt mál yrði að rekja þær hér, enda nánast ólýsanlegar. Eftir að hafa lent í snjóflóðum, blindast af brennandi jöklasólinni, hrapað í jökulsprungur, sofið úti án tjalds eða svefnpoka og kalið illa, tókst félögum þeirra að komast upp til þeirra og bjarga þeim niður. Vel á annan mánuð tók að koma leiðangursmönnum alla leið til byggða í Indlandi og var Herzog borinn alla leiðina vegna þess að fætur hans og hendur voru illa kalin. Þó Maurice Herzog fórnaði ekki lífinu líkt og Mallory og Irvine höfðu gert á Everest tæpum 30 árum áður, fórnaði hann þó í bókstaflegri merkingu hluta af sjálfum sér. Engin deyfilyf voru með í för og með reglulegu millibili nístu sáraukavein fjallakyrrðina þegar leiðangurslæknirinn tók af fingur hans og tær eitt af öðru. Þegar Herzog loks komst heim til Frakklands hafði hann misst allar tær og fingur.

Enn sóttað Everest
En kapphlaupið hélt áfram. Könnunarleiðangur Breta undir stjórn hins kunna Shiptons árið 1951 komst alla leið að rótum Everest. Erfiðleikarnir reyndust byrja mun neðar í fjallinu en norðan megin, því upp mjög brattan Kumbu-skriðjökulinn var að fara áður en hægt var að leggja á sjálft fjallið.
 

Leiðangrinum tókst þó að brjótast upp jökulinn, opna þar með leiðina og sanna að fjallið væri kleift að sunnan. Með í þessum leiðangri var slánalegur Nýsjálendingur að nafni Edmund Hillary, sem síðar átti eftir að tengja nafn sitt Everest enn nánari böndum en Mallory. En nú vöknuðu breskir fjallamenn upp við vondan draum. Stórveldistíminn var á enda og þar með einokunin sem Bretar höfðu haft á Everest fram að þessu. Nepalstjórn veitti Svisslendingum leyfi til að reyna við fjallið árið 1952, Bretar fengu 1953, Frakkar máttu reyna 1954 og Svisslendingar aftur árið 1955. Svisslendingar gerðu tvær hetjulegar tilraunir árið 1952 til að sigrast á hæsta fjalli heims. Þeir leystu öll vandamál tengd klifri á fjallinu og komust hærra en nokkur hafði komist áður, það var bara gamla varnarlínan sem hélt, þunna loftið, kuldinn og vindurinn. Hæst komst Svisslendingurinn Lambert með margreyndum Sherpa, þeim fyrsta sem steig upp úr hlutverki aðstoðarmanns og tók þátt í klifrinu á jafnréttisgrundvelli, Tenzing Norgay. Sá átti eftir að skjóta öllum evrópskum fjallgöngumönnum ref fyrir rass á Everest.

Hillary og Tenzing ­ síðasta von Breta
Nú var síðasti möguleiki Breta til að sigra Everest, fjallið sem þeir höfðu barist svo hetjulega við og fórnað svo miklu á. Það var ólíklegt að þær þjóðir sem fengu möguleika á eftir þeim létu sér þetta tækifæri renna úr greipum. Sigurinn var innan seilingar. Varnirnar voru að bresta. Leiðangursstjóri var valinn reyndur fjallamaður og foringi í hernum, John Hunt. Allur búnaður og mannskapur var það besta sem breska heimsveldið gat boðið upp á. Einnig var úrval sherpa og fór þar fremstur í flokki Tenzing. Búðirnar voru byggðar upp og brotist upp fjallið með hernaðarlegri nákvæmni. Efstu búðir, eitt tjald á hallandi klettasyllu sem var minni en tjaldið, voru reistar 28. maí í um 8.500 m hæð. Aðstoðarmennirnir stauluðust niður í næstu búðir en tveir menn urðu eftir til að freista þess daginn eftir að ljúka verkefni sem tekið hafði nær 100 ár. Þeir voru bestu og sterkustu menn leiðangursins, Tenzing Norgay og Edmund Hillary. Það er kaldhæðni örlaganna að þeir voru sherpi og Nýsjálendingur, en ekki Bretar eftir allt saman.

Nokkur þreytuleg skref
Klifrið daginn eftir gekk að óskum. Hægt en örugglega mjökuðust þeir hærra. Aðeins á einum stað lentu þeir í verulegum erfiðleikum. Rétt undir tindinum var mjög erfiður kafli en Hillary tókst að sigrast á torfærunni, þeirri hæstu í heimi. Hún er síðan kölluð eftir honum, "Hillary step". Þeir félagar höfðu áhyggjur af því að efsti tindurinn væri ef til vill ókleif hengja, en ofan torfærunnar blasti aðeins við brattur snævi þakinn hryggurinn. "Nokkur þreytuleg högg með ísöxinni, nokkur þreytuleg skref" og kl 11.30 hinn 29. maí 1953 stigu þeir Hillary og Tenzing, fyrstir manna á hátind Everest. Það dró ekki úr sigurgleði Breta að fréttirnar bárust til Englands á krýningardegi Elísabetar II Englandsdrottningar. The Times fékk eitt af "skúbbum" aldarinnar, fréttirnar af sigri Breta á Everest þöktu forsíðuna, en krýning drottningar baksíðuna. Leiðangurstjórinn Hunt ritaði í dagbók sína daginn eftir uppgönguna: "Þannig endar sagan um Everest" Meiri öfugmæli hefur hann væntanlega aldrei látið frá sér fara. Fjallið hefur verið sigrað frá öllum hliðum og upp nær allar leiðir, en heldur engu að síður tign sinni og virðuleik. Áhuginn á Everest hefur ef eitthvað er farið vaxandi og það hefur verið metnaður bæði einstaklinga og þjóða að komast á tind tindanna. En það er ein þjóð norður við nyrsta haf sem hefur enn ekki átt mann á Everest, þaki heimsins, þjóð sem samt vill aldrei vera síðri en hinar. Í vor verður reynt að bæta úr því.

Efst

© 1997 Morgunblaðið
Allur réttur áskilinn