Heimasíða

Leiðangursmenn

Dagbók

Greinar

Kort af leiðinni

Útbúnaður

Fjallið

Gestabók

Styrktaraðilar

 

Áhrif hæðar á mannslíkamann
Ef farið er of geyst í fjallaklifri, segir Gunnar Guðmundsson, er hætta á svokallaðri fjallaveiki.

MEÐ aukinni hæð yfir sjávarmáli lækkar súrefnisþrýstingur í andrúmsloftinu og þarmeð í blóði og vefjum líkamans. Á tindi Everest er þrýstingurinn aðeins þriðjungur af því sem hann er við sjávarmál. Við það að súrefnisþrýstingurinn lækkar verða margvíslegar breytingar á starfsemi líkamans. Hann getur aðlagað sig þessum lækkaða súrefnisþrýstingi með ýmsum aðferðum og er sérstaklega mikilvægt að hann fái nægan tíma til þessarar aðlögunar. Ef farið er of geyst í að bæta við sig hæð í fjallaklifri er hætta á að fá svokallaða fjallaveiki. Það er mjög einstaklingsbundið hvernig líkaminn bregst við hæð og fer ekki alltaf eftir hversu vel þjálfaðir menn eru, en góð þjálfun spillir aldrei fyrir.

Aðlögun
Af áhrifum hæðar á ýmis líffæri líkamans má nefna að öndun verður hraðari og dýpri. Við það verða breytingar á sýru/basajafnvægi líkamans sem nær nokkru jafnvægi aftur með tímanum. Talið er að flestir þeir sem eiga auðvelt með að ná mikilli hæð án þess að veikjast svari súrefnisskortinum með hærri öndunartíðni og dýpri öndun en þeir sem þola þunna loftið illa. Hjartsláttur verður hraðari, blóðþrýstingur hækkar og þvagútskilnaður getur aukist eða minnkað. Þeim, sem auka þvagútskilnað, er síður hætt við fjallaveiki. Ein af svörunum líkamans við súrefnisskortinum sem fylgir vaxandi hæð er að fjölga rauðum blóðkornum. Einnig minnkar rúmmál blóðsins og leiðir þetta hvorttveggja til þess að blóðið þykknar. Þessar breytingar verða á nokkrum vikum og undirstrikar enn þörfina fyrir aðlögun að hæð eins og íslenski Everest-leiðangurinn hyggst taka sér góðan tíma í. Þol minnkar um allt að 10% fyrir hverja 1.000 hæðarmetra eftir að komið er í 1.500 metra hæð yfir sjávarmáli. Þannig er þolið á tindi Everest aðeins þriðjungur af því sem það er við sjávarmál. Breytingar verða á svefni í mikilli hæð. Þannig verður meira af svefninum í grynnri stigum sem leiðir til þess að ekki fæst eins góð hvíld og ella gæti orðið. Mjög algengt er að vakna oft upp af svefni í mikilli hæð. Í svefni fellur súrefnisþrýstingur í líkamanum enn lægra en í vöku og öndun verður óregluleg, þannig að á skiptast tímabil þar sem öndun er kröftug og þarsem öndunin stöðvast í nokkrar sekúndur. Mikil hæð yfir sjávarmáli með tilheyrandi súrefnisskorti veldur margvíslegum breytingum á starfsemi taugakerfisins. Strax í 3.000 metra hæð yfir sjávarmáli er orðið erfitt að læra nýja hluti og eftir því sem hæðin eykst dregur úr hæfni líkamans til að framkvæma nákvæmar hreyfingar, það dregur úr starfsemi skynfæra og dómgreind hrakar. Þegar líkaminn nær ekki að aðlaga sig hæð, t.d. vegna þess að of hratt er farið upp eða af öðrum ástæðum, verður til ástand sem kallað er fjallaveiki. Orsakir fjallaveiki eru ekki að fullu þekktar og er talið að þær séu fjölþættari en súrefnisskorturinn einn. Almennt má segja að fólk finni ekki fyrir fjallaveiki fyrr en komið er í um 2.500 metra hæð yfir sjávarmáli. Rannsóknir frá Himalayafjallgarðinum á ferðalöngum sem höfðu viðdvöl í 4.243 metra hæð, leiddu í ljós að helmingur þeirra sem höfðu gengið þangað úr 2.800 metra hæð hafði einkenni hennar á ýmsum stigum. Sömu einkenna varð vart hjá þriðjungi þeirra sem höfðu hafið gönguna í 1.300 metra hæð og verið lengur á leiðinni. Þeim sem er hættast við að fá fjallaveiki eru einstaklingar undir 25 ára aldri eða eldri en 60 ára. Þá veikjast konur oftar en karlar. Þeim sem einu sinni hafa fengið fjallaveiki er hættara við að veikjast aftur.

Fjallaveiki
Fjallaveiki má skipta í fjögur mismunandi stig og eru mjög ógreinileg mörk á milli þeirra og er talið að þau séu mismunandi tjáning á sama sjúkdómsferli. Stigin eru: Fjallaveiki, háfjallasjónhimnublæðingar, háfjallalungnabjúgur og háfjallaheilabjúgur.
Einkenna fjallaveiki verður vart eftir eins til þriggja sólarhringa dvöl á fjöllum. Algengustu einkennin eru: höfuðverkur, lystarleysi, ógleði, uppköst, svimi, svefnleysi, almennur slappleiki, suð fyrir eyrum og bjúgur á útlimum. Einnig einbeitingarerfiðleikar og hæg hugsun. Oft á tíðum minnkar þvagútskilnaður. Háfjallasjónhimnublæðingar eru oftast einkennalausar og koma aðeins fram við læknisskoðun. Í einstaka tilfellum geta þær valdið tímabundnum sjóntruflunum sem ganga til baka að mestu leyti. Háfjallalungnabjúgur er mun hættulegra stig fjallaveiki og getur valdið dauða á stuttum tíma ef ekki er rétt brugðist við. Einkennin eru: mæði í hvíld, hósti, uppgangur, blóðhráki, blámi, surg í lungum og hröð öndun og hjartsláttur. Háfjallaheilabjúgur er alvarlegasta stig fjallaveiki og getur farið saman með lungnabjúg. Einkenni hans eru svæsinn höfuðverkur, uppköst, truflun á skynjun og hreyfingum og meðvitundartruflanir sem geta verið allt frá skertri dómgreind til meðvitundarleysis.
Aðrir kvillar sem upp koma í mikilli hæð eru barkabólga, þrálátur hósti sem leitt getur til rifbrota, snjóblinda, blóðrásartruflanir vegna þess hve blóðið þykknar og fleira.
Þegar komið er í meira en 6.500 metra hæð yfir sjávarmáli er komið í dauðabeltið svokallaða, þar sem enginn maður getur lifað til lengdar. Ítarlegar rannsóknir sem gerðar hafa verið á fjallgöngumönnum sem klifrað hafa svo hátt hafa sýnt að þeir geta fengið ýmar varanlegar vefjaskemmdir, til dæmis getur frammistaða þeirra á prófum sem mæla ýmiss konar heilastarfsemi versnað. Mikið þyngdartap verður, matarlyst verður lítil og svefn lélegur. Höfuðverkur, almennt máttleysi og síþreyta eru algengar kvartanir.

Hvað er til ráða til að verjast fjallaveiki?
Besta aðferðin til að fyrirbyggja fjallaveiki er skynsamlegur ferðamáti. Góðan tíma þarf til að aðlagast hæðinni. Mælt er með því að dvelja í tvo til fimm daga í um 2.000 metra hæð. Þegar komið er upp í 3.000 metra eða hærra er ráðlegt að hækka sig aðeins um 300 metra á dag, líkt og íslenski Everest-leiðangurinn stefnir að. Rannsóknir hafa sýnt að lyfið acetazolamide er virkt til að fyrirbyggja fjallaveiki. Einnig er súrefni úr tönkum sem bornir eru á baki hjálplegt. Mikilvægasta meðferðin við fjallaveiki er að lækka sig og hverfa við það flest einkenni hennar á stuttum tíma. Einnig eru notuð lyf og súrefni. Þá hafa komið til sögunnar á undanförnum árum færanlegir háþrýstiklefar sem hægt er að nota þegar ekki eru aðstæður til flutninga í minni hæð, t.d. vegna veðurs og munu leiðangursmenn hafa slíkan klefa tiltækan. Íslensku þremenningarnir sem hyggjast klífa Everest eru allir þrautþjálfaðir, á besta aldri til að verjast fjallaveiki og vanir að dveljast í mikilli hæð án þess að veikjast. Að auki munu þeir taka lyf sem flýta aðlögun að hæð. Þess utan hafa þeir með sér lyf og annan búnað til hjálpar, ef önnur óáran svo sem barkabólga, hósti, niðurgangur og aðrir kvillar herja á þá. Möguleikar þeirra til að ná takmarki sínu teljast því góðir þótt vert sé að minnast þess að aðeins lítill hluti þeirra sem leggja í háfjallaklifur nær að komast á tindinn.

© 1997 Morgunblaðið

Allur réttur áskilinn