Heimasķša

Leišangursmenn

Dagbók

Greinar

Kort af leišinni

Śtbśnašur

Fjalliš

Gestabók

Styrktarašilar

 
Dagbók leišangursmanna

Grunnbúðum, 12. maí
Yfir enn einum morgunverðinum, þar sem á boðstólum voru egg, enn einu sinni, var enn einu sinni rætt hvenær skyldi enn einu sinni lagt á fjallið. Eins og fyrri daginn voru ekki allir sammála um það, en niðurstaða fékkst þó. Okkar menn leggja af stað á þriðjudagsmorgun upp í búðir þrjú. Þar er ætlunin að bíða veðurs, nokkrum skref nær tindinum. Fyrir vikið er léttara yfir mannskapnum í dag. Biðin virðist loks vera á enda og menn geta hafist handa við verkefnið sem liggur fyrir, að klífa þetta fjall.
Annars hefur veðrið leikið við leiðangursmenn hér í grunnbúðum undanfarna daga, suma kannski meira en aðra. Þeir hinir sömu hafa uppgötvað að óvarinn líkami í sól sólbrennur. Þetta sama bíðviðri veldur því að nú standa flest tjöld á annarri hæð, sem upphaflega var tjaldað á þeirri fyrstu.

Efst

Grunnbúðum, 11. maí
Ekki virðast þær sterku NV áttir sem geisað hafa á fjallinu ætla að láta undan síga í bráð. Ný veðurspá barst í morgun og er ekki að sjá neinar breytingar á veðri fram til 16. þessa mánaðar. Það fer hinsvegar að styttast sá tími sem við höfum til ráðstöfunar og það er ljóst að í þessari viku verðum við að fara upp og láta reyna á hvort veður skáni. Þrátt fyrir að við höfum setið á okkur vegna veðurs er ekki hægt að segja það sama um alla. Norðan megin í fjallinu eru einnig leiðangrar og fyrir nokkrum dögum náði rúmur tugur manna toppnum. Ekki gekk samt þrautalaust að komast niður aftur og um helmingur týndi lífi á niðurleiðinni. Þessar fréttir bárust okkur í gærkvöldi og enn eru þær mjög óljósar, en það lítur út fyrir að fjórir hafi farist og eins er enn saknað. Þetta sýnir okkur glöggt að Everest er sýnd veiði en ekki gefin og aldrei of varlega farið.
F.h. biðdeildar hins Íslenska Everestleiðangurs.
Björn biðlundi.

Efst

Grunnbúðum, 8. maí
Enn situm við í grunnbúðum og bíðum veðurs. Við fengum nýja fimm daga veðurspá í morgun og það er búist við svipuðu veðri áfram, þ.e. 70-90 hnúta vindi á toppnum og er hætt við að þar þurfi að halda fast í húfuna. Þessu veldur lægð yfir Indlandi sem beinir þessum sterku NW vindum til okkar. Jon Tinker og Hugo komu niður í dag enda ekki eftir neinu að bíða uppi í þriðju búðum.
Við bíðum nú veðurspár eftir tvo daga og vonum að lægðin yfir Indlandi fari að gefa sig. Mórallinn er góður hjá okkur, við erum bjartsýnir og heilsuhraustir og sannfærðir um að „okkar tími muni koma".

Efst

Grunnbúðum, 7. maí
Everest hefur sýnt okkur í gær og í dag að best er að taka allar áætlanir með fyrirvara. Það hörmulega slys varð í gær að sherpi úr leiðangri Malaysíumanna féll í Lhotsehlíðum, nærri fjórðu búðum. Hann rann niður alla hlíðina og lét lífið. Þetta er því miður sá veruleiki sem búið er við hér, andartaks óaðgæsla getur verið dýrkeypt. Hér eru menn slegnir af þessum atburði, við vorum að vona að þetta vor yrði slysalaust.
Þetta slys setur ekkert strik í okkar áætlanir. Okkar aðstæður hafa breyst í dag. Fyrsti hópurinn úr okkar leiðangri lagði ekki of snemma af stað í gær og lenti í miklum hita og var rúmlega 10 tíma upp í búðir 3. Þeir voru svo uppgefnir eftir daginn að þeir ætla taka sér hvíldardag í dag. Af þeim orsökum frestast okkar uppferð um einn dag. Í morgun kom síðan ný veðurspá og hún var með þeim hætti að þrír leiðangrar sem voru í búðum 3 komu niður. Veðrið í dag og morgun á að vera viðunandi en 9.-12. maí er gert ráð fyrir norðlægum áttum, 70-90 hnútum í 9.000 m hæð. Þess má geta að 65 hnútar eru 12 vindstig. Þessi spá gerði það að verkum að fyrsti hópur stoppar í búðum 3 í 1-2 daga að auki til að sjá hvort veður skánar. Okkar hópur fer þá aldrei fyrr en á laugardag. Það er því enginn leiðangur nærri því að reyna við toppinn og staðan aftur orðin mjög óljós.
Ástæðan fyrir því að við skiptum leiðangrinum í þrennt er einföld: Það kostar mikla vinnu og erfiði að koma tjöldum og búnaði upp í fimmtu og efstu búðir. Til að spara þá vinnu er komið nægum búnaði upp til að 6-7 menn geti dvalist þar í einu. Það þýðir 3-4 leiðangursmenn auk sherpa í hvert sinn. Áætlun okkar er svo á þá leið að fyrsti hópur kemur upp í Suðurskarð úr fjórðu búðum snemma dags og hvílist þar í fimmtu búðum. Sá hópur leggur svo af stað undir miðnætti og er gert ráð fyrir að ganga alla nóttina og ná tindi ef veður og geta leyfa, í síðasta lagi um hádegi daginn eftir. Súrefni er notað alla leið frá Suðurskarði. Það er ekki oft sem unnt er að komast neðar en í Suðurskarð aftur og þarf hópurinn því að öllum líkindum að dveljast þar um nóttina. Næsti hópur getur því ekki komið sér fyrir í Suðurskarði fyrr en daginn eftir. Þetta gerir því að verkum að amk tveir dagar verða að vera á milli hópa.
Það er ákaflega erfitt að ákveða hvenær skuli lagt í hann og hvar beðið skuli veðurs, ef það er ekki gott. Það má gera ráð fyrir að ef of löngum tíma er eytt ofarlega í fjallinu séu menn orðnir það þreyttir að þeir þurfi að fara niður aftur og hafi jafnvel ekki tíma til að hvílast og reyna aftur. Þarna spilar reynsla og góðar upplýsingar um veður máli en kannski ekki síst sjötta skilningarvitið, hugrekki og heppni. Það er hins vegar ljóst að ekki er hægt að bíða veðurs hér í grunnbúðum, það tekur amk þrjá daga að komast í Suðurskarð og veður getur breyst mikið á þeim tíma og allir vita að ekki er hægt að treysta á veðurspár í blindni. Því verður að bíta á jaxlinn og hrökkva eða stökkva og taka afleiðingunum. Sem dæmi má nefna að ef fyrsti hópurinn okkar þarf að koma niður aftur eftir nokkra daga lendir hann aftast í röðinni, okkar hópur er þá fyrstur og þá blasir við okkur að taka ákvarðanir um næstu skref.

Efst

Grunnbúðum, 6. maí
Fyrsti hópurinn lagði af stað í dag og var stefnunni sett á búðir 3. Í hópnum eru þeir Tinker, Mark, Hugo og Cris J. Á morgun fara síðan sherparnir upp undir forustu Babu en þeir eru heldur fljótari í förum en við vestrænu klifrararnir. Veður er með ágætum og þrátt fyrir að gert sé ráð fyrr allt að 50 hnúta vindi þá er það ekki saman að jafna við sjávarmál þar sem loft hér er mun þynnra og kraftur vindsins því ekki sá sami. Restinn af leiðangursmönnunum kom upp í dag frá Dingboche og eru þá allir leiðangursmenn tilbúnir að leggja á fjallið. Það kemur síðan í ljós á morgun hvort veður hamlar för fyrsta hóps og hvort Íslendingarnir munu halda upp á uppstigningardag.

Efst

Grunnbúðum, 5. maí
Hallgrímur kom uppeftir frá Dingboche í gær. Þeir Björn, Einar og Hallgrímur hittust þá í fyrsta skipti síðan 17. apríl eða í 16 daga! Þessi tími er búinn að vera sérkennilegur og óþægilegur en mestu máli skiptir að allir náðu þeir að ljúka aðlöguninni og eru nú sameinaðir á ný og allir tilbúnir í slaginn. Við fengum veðurspá í dag, hún er ekki góð en samt var ákveðið að hefjast handa enda erfitt að spá með öryggi um veðurfar á þessum slóðum. Það líða amk 4 dagar frá ákvörðun um uppgöngu og þar til hægt er að ná tindinum og það getur ýmislegt gerst í veðurfari á þeim tíma eins og Íslendingar þekkja. Fyrsti hópurinn okkar, Jon Tinker leiðangursstjóri, Hugo, Chris Jones og Mark leggja í hann á morgun og halda þá í þriðju búðir. Babu, Shirdarinn okkar og reynslumesti sherpinn verður í för með þeim ásamt tveimur öðrum sherpum.
Eins og staðan er í dag halda okkar menn af stað á fimmtudag með það fyrir augum að komast á toppinn á sunnudag. Lakpageilo sherpa sem hefur farið tvisvar á tindinn verður væntanlega í för ásamt tveimur sherpum öðrum en að öðru leyti verður þetta alíslenskur hópur.

Efst

 

© 1997 Morgunblašiš
Allur réttur įskilinn