Tákn vefjar

Sagan
Aðdragandinn
Merkið frá Reykjavík
Farsæl saga
Hið nýja NATO
Dean Acheson
Bjarni Benediktsson
Stiklað á stóru

Ísland
Aðildin og varnarsáttmálinn
Hlutleysið kvatt
Árásin á Alþingi
Átök á Austurvelli
Varið land
Starf NATO hér

Viðtöl
Davíð Oddsson
Guðmundur H. Garðarsson
Halldór Ásgrímsson
Jón Hákon Magnússon
Ragnar Arnalds
Vladislav Zubok
Vojtech Mastny

Með eigin orðum
Bjarni Benediktsson 1949
Ólafur Thors 1949
Bjarni Benediktsson 1968
Emil Jónsson 1968

Samstarfið
Vísindasamstarf
Umhverfismál
Jarðvísindi
Tölvutækni
Styrkþegar NATO

 

„Varið land“. Forvígismenn undirskriftarinnar „Varið land“ gengu á fund forsætisráðherra, Ólafs Jóhannessonar, og Eysteins Jónssonar, forseta Sameinaðs Alþingis, 21. mars 1974 og afhentu þeim undirskriftir 55.522 Íslendinga. Skoruðu þeir á ríkisstjórn og Alþingi að úleggja á hilluna ótímabær áform um uppsögn varnarsamningsins við Bandaríkin og brottvísun varnarliðsins.“ Hér var um að ræða rúmlega helming atkvæðisbærra Íslendinga miðað við kosningarnar 1971. Myndin er frá afhendingu listanna. Dr. Þorsteinn Sæmundsson flytur ávarp fyrir hönd forvígismanna „Varins lands“.

„Varið land“ og viðhorfin til veru varnarliðsins

Á ÞEIM rúmlega fimmtíu árum sem varnarlið bandaríska hersins hefur haft aðstöðu á Keflavíkurvelli hafa pólitískar væringar á vettvangi íslenskra stjórnmála oftsinnis tekið mið af þeim viðteknu viðhorfum sem ríkt hafa hverju sinni. Stjórnmálaleiðtogar á báðum vængjum íslenskra stjórnmála hafa talið sig breyta í nafni kjósenda og víst er að smæð þjóðarinnar hefur haft sitt að segja um innsýn stjórnmálamanna í almenningsálit hvers tíma. Fyrstu merki þess að áhuga gætti á að rannsaka opinberlega pólitískan hug íslenskra kjósenda með skipulögðum hætti var í könnunum þeim sem Dagblaðið og Vísir stóðu fyrir á árunum 1968 til 1983. Síðan árið 1983 hefur hins vegar verið staðið að umfangsmiklum kosningarannsóknum hvert kosningaár, undir umsjón Ólafs Þ. Harðarsonar, dósents í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands.

Þótt almennar viðhorfakannanir á Íslandi hafi ekki komið til sögunnar fyrr en í lok sjöunda áratugarins er þar ein undantekning þó á. Árið 1955 fóru bandarísk stjórnvöld þess á leit við norsku Gallup-stofnunina að hún framkvæmdi viðamikla rannsókn hér á landi um viðhorf Íslendinga til herstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli og aðildar Íslands að Atlantshafsbandalaginu. Ástæðan er talin vera sú að Bandaríkjamenn hafi verið áhyggjufullir um neikvæð viðhorf til veru þeirra á Miðnesheiði. Ennfremur er það talið hafa skapraunað Bandaríkjamönnum hversu tregir sumir íslensku stjórnmálaleiðtoganna voru til að leyfa frekari umsvif hersins hér á landi. Var tilurð og framkæmd könnunarinnar haldið leyndri fyrir íslenskum stjórnvöldum - utan Bjarna Benediktssonar dómsmálaráðherra - og niðurstöður hennar aldrei birtar opinberlega. Kemur þetta fram í nýlegri bók Vals Ingimundarsonar um samskipti Íslands og Bandaríkjanna á árunum 1945-1960 sem að hluta til byggist á áður óbirtum leyniskjölum bandarískra stjórnvalda.

Í skjölunum kemur fram ákveðin gremja í garð þeirra íslensku stjórnmálaleiðtoga sem almennt studdu veru varnarliðsins. Telja Bandaríkjamenn að þessir leiðtogar hafi ekki stutt málstað sinn með nægilega afgerandi hætti og láta Bandaríkjamenn í það skína að meira hafi verið gert úr neikvæðum viðhorfum til veru varnarliðsins en grundvöllur hafi verið fyrir. Má ætla að von íslenskra stjórnmálaleiðtoga um hagstæða samninga og frekari fyrirgreiðslu frá bandarískum stjórnvöldum hafi ráðið nokkru um þessi viðhorf.

Ekki var talið fýsilegt að framkvæma könnunina án nokkurs undirbúnings. Væri ástæðan sú að Íslendingar væru „ákaflega varir um sig vegna nýfengins sjálfstæðis“. Talið var því ráðlegt að framkvæma nokkurs konar undirbúningskönnun þar sem spurt var um almenn viðhorf Íslendinga til vestræns samstarfs o.þ.h., áður en hægt væri að kanna í raun viðhorfin til sértækari þátta eins og veru varnarliðsins og aðildarinnar að NATO. Í hinni raunverulegu könnun var það jafnvel talið of hættusamt að spyrja beinna spurninga. Var því ákveðið að eyða talsverðum tíma í að spyrja svarendur um pólitísk viðhorf þeirra til hlutleysisstefnu og vestrænnar samvinnu áður en beinar spurningar um Keflavíkurstöðina yrðu bornar upp.

Niðurstöður valda Bandaríkjamönnum áhyggjum
Niðurstöðurnar voru nokkuð sláandi fyrir Bandaríkjamenn, sérstaklega hvað Keflavíkurstöðina varðaði en einnig í sambandi við aðildina að NATO, í ljósi þess að Íslendingar voru almennt taldir einna best upplýstir um bandalagið af öllum þeim evrópskum þjóðum sem rannsakaðar höfðu verið.

Af þeim 1.465 manns sem svöruðu voru 44% fylgjandi aðild að NATO. 22% voru á móti aðild og fjórðungur hafði ekki skoðun á málinu. Ef miðað er við kosningaárin 1983-1995 hafa jákvæð viðhorf til aðildar að NATO aldrei verið svo lítil, og að sama skapi neikvæð viðhorf aldrei verið svo mikil. Hins vegar voru það viðhorf íslenskra kjósenda til Keflavíkurstöðvarinnar sumarið 1955, sem ollu bandarískum stjórnvöldum hvað mestum áhyggjum. Af þeim sem svöruðu voru einungis 37% fylgjandi veru varnarliðsins en tæpir tveir þriðju hlutar mótfallnir. Í könnunum áranna 1968-1995 fóru þeir sem voru fylgjandi veru varnarliðsins aldrei undir 52% og andstæðingar aldrei yfir 48%, en það var árið 1976 þegar þorskastríð okkar við Breta stóð sem hæst. Það sem er ennfremur athyglisvert í könnuninni 1955 er að einungis helmingur kjósenda Sjálfstæðisflokksins var fylgjandi Keflavíkurstöðinni og þriðjungur á móti, sem er í miklu ósamræmi við seinni tíma tölur.

Greinilegt var að herstöðin á Keflavíkurflugvelli mætti mun meiri andstöðu en aðildin að NATO árið 1955. Erfitt er þó að gera sér grein fyrir hvort viðhorf þessi séu einkennandi fyrir sjötta áratuginn þar sem engar aðrar kannanir eru til samanburðar. Í næstu dagblaðskönnun sem framkvæmd var árið 1968 hafði dæmið hins vegar snúist við og fylgjendur veru varnarliðsins voru u.þ.b. tvisvar sinnum fleiri en andstæðingar. Könnunin frá 1955 segir þó mikið um hve mikla innsýn íslenskir stjórnmálaleiðtogar höfðu í íslenska þjóðarsál. Áhyggjur Bandaríkjamanna um að vissir ráðherrar í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks væru að ýkja andstöðuna við veru bandaríska hersins á Suðurnesjum, virtust því ekki vera á rökum reistar.

Menningarbundnir þættir réðu miklu um afstöðu almennings
Erfitt er að fullyrða um hvað hafi ráðið því að tveir þriðju hlutar svarenda í Gallup-könnuninni árið 1955 hafi verið andvígir veru varnarliðsins. Á alþjóðavettvangi var kalda stríðið í algleymingi; Khrústsjov jók völd sín í Sovétríkjunum, samningur um stofnun Varsjárbandalags var undirritaður og sovéskur her yfirgaf Finnland. Afstaða Íslendinga til varnarliðsins ræðst heldur af því sem stendur þjóðinni nær en átök stórveldanna. Aðalkostir herstöðvarinnar voru taldir vera aukin atvinna og betri lífsskilyrði. Því næst svaraði tæpur fjórðungur því til að varnir gegn aðsteðjandi ógn væru meginkosturinn. Helstu ókostir Keflavíkurstöðvarinnar voru almennt taldir vera menningarbundnir. Fjórðungur svarenda taldi að herstöðin tefldi þjóðerni Íslendinga, menningu og tungu í hættu. 14% taldi að vera varnarliðsins hefði slæm áhrif á íslenskar stúlkur og siðferðisvitund í landinu. En aðeins 4% töldu að Keflavíkurstöðin myndi auka hættuna á árás á landið.

Íslensk þjóðernishyggja, krafan um efnahagslegt sjálfstæði og almennur ótti við áhrif útlendinga, fremur en Bandaríkjamanna sérstaklega, eru helstu þættirnir sem greina má úr Gallup-könnuninni frá 1955.

Seinni tíma kannanir draga upp mjög heilsteypta mynd af afstöðu Íslendinga til veru varnarliðsins. Í dagblaðskönnunum áranna 1968 til 1983 studdi 60% svarenda að jafnaði veru varnarliðsins og andvígir voru á bilinu 33-48%. Í kosningarannsóknum áranna 1983-1995 helst hlutfallið svipað framan af, en með þíðu í samskiptum stórveldanna fer að draga úr mikilvægi málefna herstöðvarinnar. Hafði málið þá lengi ekki verið á dagskrá þingflokkanna.

Undirskriftum safnað til að aftra ótímabærum áformum
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Ólafs Jóhannessonar (1971-1974) var ákvæði, að kröfu þingmanna Alþýðubandalagsins, sem kvað á um endurskoðun varnarsamningsins við Bandaríkin og brottför hersins í áföngum og mun landhelgisdeilan við Breta hafa ýtt undir kröfur þessar. Í kjölfar áskorunnar sextíu einstaklinga á fullveldisdaginn, 1.desember 1973, um að fylgja bæri eftir ákvæði stjórnarsáttmálans, skipulögðu þeir Þorsteinn Sæmundsson, stjarnfræðingur, Þorvaldur Búason, eðlisfræðingur og Ragnar Ingimarsson, prófessor undirskriftarsöfnun þar sem skorað var á stjórnvöld að leggja á hilluna ótímabær áform um uppsögn varnarsamningsins. Settu þeir sem að undirskriftinni stóðu sér það markmið að safna fimm þúsund undirskriftum til stuðnings yfirlýsingunni.

Á endanum skrifuðu 55.522 einstaklingar á kosningaaldri undir áskorunina árið 1974 og voru undirskriftirnar afhentar Ólafi Jóhannessyni forsætisráðherra. Yfir helmingur kosningabærra Íslendinga rituðu því nöfn sín á áskorunina sem þýddi í raun að helmingur Íslendinga voru fylgjandi áframhaldandi veru bandaríska hersins á Keflavíkurflugvelli og aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu.


Morgunblaðið

                                                                                                  NATO