fim. 21. nóv. 2019 10:27
Seðlabanki Íslands.
Töldu hættu á frekari samdrætti

Á meðal helstu raka fyrir því að lækka vexti Seðlabankans í byrjun mánaðarins var að draga úr hættu á frekari samdrætti í þjóðarbúskapnum í ljósi þeirrar óvissu sem væri fyrir hendi. Hagvaxtarhorfur hefðu heldur versnað og svartsýni aukist.

Enn lækka

Þetta kemur fram í fundargerð peningastefnunefndar sem hefur verið birt á vef Seðlabankans.

Þar segir einnig að horfur væru á að verðbólga hjaðnaði hraðar en spáð var í ágúst og að hún færi tímabundið niður fyrir markmið á spátímanum. Verðbólguvæntingar hefðu jafnframt haldið áfram að lækka og raunvextir bankans því hækkað lítillega frá síðasta fundi.

Á meðal helstu raka fyrir því að hafa óbreytta vexti voru þau að undirliggjandi verðbólga hefði hjaðnað hægar og væri nokkru yfir verðbólgumarkmiðinu. Í ljósi slökunar á aðhaldi ríkisfjármála þyrfti einnig minni slökun peningastefnunnar en ella, auk þess sem vextir væru töluvert undir mati á hlutlausum raunvöxtum.

Með hliðsjón af umræðunni lagði seðlabankastjóri til að vextir bankans yrðu lækkaðir um 0,25 prósentur og studdu allir nefndarmenn tillögu hans.

til baka