Enn lækka vextir Seðlabankans

Seðlabanki Íslands.
Seðlabanki Íslands. mbl.is/Kristinn Magnússon

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að lækka vexti bankans um 0,25 prósentur. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því 3%. Ef litið er á vaxtakúrfu meg­in­vaxta Seðlabank­ans sést að meginvextir (stýrivextir) hafa lægst farið í 3,625 pró­sent­ snemma árs 2011. Í árs­byrj­un 2009 voru þeir aft­ur á móti 18%. 

Þetta gengur þvert á spá hagdeildar Landsbankans sem hafði gert ráð fyrir óbreyttum vöxtum. Aftur á móti hafði greining Íslandsbanka spáð vaxtalækkuninni. 

Samkvæmt nýrri þjóðhagsspá Seðlabankans sem birt er í nóvemberhefti Peningamála hafa horfur um hagvöxt á seinni hluta ársins versnað frá því sem spáð var í ágúst. Hagvöxtur á fyrri hluta ársins var hins vegar meiri en spáð var og er því gert ráð fyrir 0,2% samdrætti á árinu öllu eins og í ágúst. Horfur fyrir næsta ár hafa einnig versnað og er nú spáð 1,6% hagvexti.

Verðbólga hefur verið um eða yfir 3% frá því í vor en í október mældist hún 2,8%. Undirliggjandi verðbólga hefur hins vegar verið þrálátari. Horfur eru á að verðbólga hjaðni hraðar en spáð var í ágúst og að hún verði komin í markmið undir lok þessa árs. Verðbólguvæntingar hafa haldið áfram að lækka og eru við markmið miðað við flesta mælikvarða. Taumhald peningastefnunnar hefur því aukist lítillega milli funda, að því er segir í yfirlýsingu peningastefnunefndar. 

„Vextir bankans hafa verið lækkaðir um 1,5 prósentur frá því í vor og eiga áhrif þess enn eftir að koma fram að fullu. Lækkun vaxta hefur stutt við eftirspurn og miðað við spá bankans ætti núverandi vaxtastig að duga til að tryggja verðstöðugleika til meðallangs tíma og fulla nýtingu framleiðsluþátta. Þá mun boðuð slökun í aðhaldi ríkisfjármála leggjast á sömu sveif. Efnahagshorfur gætu hins vegar verið of bjartsýnar, einkum vegna óvissu í alþjóðlegum efnahagsmálum.

Peningastefnan mun á næstunni ráðast af samspili þróunar efnahagsumsvifa annars vegar og verðbólgu og verðbólguvæntinga hins vegar,“ segir í yfirlýsingu peningastefnunefndar. 

Vextir verða því sem hér segir:

  1. Daglán 4,75%
  2. 2. Lán gegn veði til 7 daga 3,75%
  3. 3. Innlán bundin í 7 daga 3,00%
  4. 4. Viðskiptareikningar 2,75%
  5. 5. Bindiskyldar innstæður, meðaltalsuppfyllt 2,75%
  6. 6. Bindiskyldar innstæður, föst bindiskylda 0,00%

Í rammagrein sem birt er í Peningamálum sem komu út í dag kemur fram að langtímaraunvextir á Íslandi hafa lækkað um ríflega 4 prósentur undanfarinn aldarfjórðung og hafa líklega aldrei verið lægri. Áþekka lækkun má sjá alþjóðlega.

„Lýðfræðilegar breytingar og minnkandi framleiðnivöxtur hafa verið nefnd sem helstu ástæður þessarar þróunar. Saman hafa þessir þættir aukið sparnað í heiminum og dregið úr eftirspurn eftir fjármagni sem veldur því að langtímajafnvægisraunvextir hafa lækkað. Þessar breytingar hafa einnig leitt til lækkunar á þeim seðlabankavöxtum sem að öðru óbreyttu þarf til að halda verðbólgu í markmiði og tryggja fulla nýtingu framleiðsluþátta, eða það sem kallaðir eru „hlutlausir“ vextir.

Talið er að fyrir fjármálakreppuna hafi hlutlausir raunvextir verið 4,5% hér á landi en séu nú komnir niður í 2%. Vextir hafa lækkað um allan heim og eru í sögulegu lágmarki. Seðlabanki Íslands lækkaði meginvexti sína í 3,25% í október sl. og hefur þá lækkað þá um 1,25 prósentur á fimm mánuðum. Vextir bankans hafa ekki verið lægri frá því að peningastefna grundvölluð á verðbólgumarkmiði var tekin upp í mars 2001,“ segir í rammagreininni. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK