Þurfum að geta tryggt öryggi borgaranna

„Þetta er ansi varfærið frumvarp,“ segir Karl Steinar Valsson yfirlögregluþjónn um frumvarp dómsmálaráðherra sem kynnt var á þingi í síðustu viku um breytingar á lögreglulögum. Hann segist ekki skilja af hverju Alþingi vilji ekki veita lögreglunni sambærileg tæki á við það sem lögreglulið á Norðurlöndunum hafa, til að geta tryggt áframhaldandi öryggi borgara á Íslandi. Frumvarið sem hér um ræðir miðar að því að veita lögreglu auknar heimildir til að fylgjast með grunuðum afbrotamönnum þegar kemur að skipulagðri brotastarfsemi og hryðjuverkum. Á sama tíma kveður frumvarpið á um hert eftirlit með störfum lögreglu og fagnar Karl líka þeirri breytingu. Hann segir að þó svo að frumvarpið verði samþykkt núna, í annarri tilraun þá veiti það samt ekki íslenskri lögreglu sambærilegar heimildir við það sem þekkist í nágrannalöndum. Karl Steinar sem er sviðstjóri yfir öryggis- og greiningasviði ríkislögreglustjóra, ræðir hér þær breytingar sem íslensk löggæsla stendur frammi fyrir og bendir á að Ísland hafi ekki lengur einhverja sérstöðu þegar kemur að afbrotum. Hér á landi sé glímt við sömu aðferðir og glæpi og þekkist í öllum öðrum Evrópulöndum. Karl segir að um tuttugu skipulagðir glæpahópar starfi í dag á Íslandi og þeir séu alþjóðlegir. Þannig að Íslendingar vinni með erlendum glæpamönnum. Það er ljóst að hundruð einstaklinga tengjast þessum hópum með beinum eða óbeinum hætti. Fólksflutningar er ein iðja sem glæpamenn hafa tekið upp og setja þeir fólk oftar en ekki í skuldafjötra. Hann segir að í mörgum málum á Íslandi séu skrítnar tengingar við fólk sem hafi fengið hér vernd og skjól. Viðbrögð lögreglu við mótmælum ber á góma og hann er spurður um afstöðu til tjaldbúða á Austurvelli. Sumir glæpahópar beita þeirri tækni að hóta lögreglumönnum og hafa skemmdir á eignum lögreglumanna ratað í fréttir.

Hælisleitendur og lögreglan

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra stendur í ströngu þessa dagana með frumvörp um bæði hælisleitendamál og lögreglumál inni í þinginu. Hún svarar spurningum um breytt viðbrögð stjórnvalda í gerbreyttu umhverfi.

Hælisleitendamál í brennidepli

Umræða um hælisleitendamál hefur sprottið fram að undanförnu, skoðanakannanir benda til þess að þjóðin sé óþolinmóð um þau og stjórnmálin að taka við sér. Gísli Freyr Valdórsson fer yfir þá stöðu með Andrési Magnússyni.

Bókaútgáfa frá ýmsum hliðum

Jakob F. Ásgeirsson bókaútgefandi hefur í tvo áratugi gefið út bækur undir nafni Uglu útgáfu. Þrátt fyrir að afkoma bókaútgáfunnar geti verið ansi sveiflukennd segir Jakob margt gefa útgáfu bóka gildi. Helst byggist afkoman á jólabókaflóðinu hverju sinni en jólabókaflóðið segir hann einmitt vera það fyrirbæri sem helst geri Ísland að bókaþjóð. Hlutfallslega lesi íslenska þjóðin þó ekki mikið samanborið við aðrar þjóðir.