Allt hnígur í átt að rafbílum

Rafbílafloti landsmanna mun fara í hundrað þúsund eintök á næsta áratug. Um þetta eru forstjóri Toyota og framkvæmdastjóri Öskju sammála. Jón Trausti Ólafsson hjá Öskju telur að flotinn verði kominn yfir hundrað þúsund bíla árið 2030. Úlfar Steindórsson hjá Toyota er aðeins varkárari og segir það muni gerast en horfir aðeins lengra fram í tímann. Rafbílar og allt þeim viðkomandi er viðfangsefni Dagmála í dag.

Hækkandi bótagreiðslur - aukið ofbeldi

Bótagreiðslur til þolenda ofbeldis hafa aukist verulega síðari ár. Halldór Þormar Halldórsson, starfsmaður Bótanefndar segir að síðustu tvö ár hafi mál á vegum nefndarinnar farið yfir fimm hundruð, hvort ár. Það er mikil aukning frá fyrri árum. Halldór Þormar er gestur Dagmála í dag og ræðir þar fyrirkomulagið á bótagreiðslum og þessa birtingarmynd aukins ofbeldis í samfélaginu. Íslenska ríkið greiðir út miska- og skaðabætur vegna ofbeldismála eftir að dómstólar hafa afgreitt mál. Hann telur tímabært að gera breytingar á þeim lögum sem nefndin vinnur eftir og er með ákveðnar tillögur í þeim efnum sem hann telur fela í sér réttarbætur. Að sama skapi telur hann rétt að huga að breytingum á hámarks- og lágmarks fjárhæðum sem nefndin er bundin af.

Þarf mannsaldra svo sárin grói

Karl Garðarsson fyrrverandi alþingismaður dvaldi í Úkraínu yfir hátíðirnar með fjölskyldu sinni. Hann segir ástandið í landinu skelfilegt og sér ekki fyrir sér hvernig þessum stríðsátökum á að ljúka. Hann segir frá upplifun sinni í stríðshrjáðu landi í Dagmálaþætti dagsins. Hann ræðir einnig voðaverkin, framtíð Úkraínu og áróðurinn sem báðir aðilar beita. Karl óttast að kjarnorkusprengjur verði notaðar ef Rússar fara halloka. Það mun þurfa mannsaldra til svo þessar fyrrum bræðraþjóðir geti átt eðlileg samskipti eftir að stríðinu lýkur.

Mörg gullkorn voru smíðuð upp í mig

Sagnameistarinn og ræðukóngurinn, Guðni Ágústsson er gestur Dagmála á Þorláksmessu. Nýja bókin hans, Flói bernsku minnar er kveikjan að samtalinu en Guðni fer um víðan völl. Hann rifjar upp gullkornin sem honum hafa verið eignuð. Hann segir flest þeirra smíðuð upp í sig en er löngu hættur að þræta fyrir þau. Veik staða þingsins, hópfífl, hefnd Bandaríkjamanna vegna Fischers og jólaandinn koma við sögu í fjörlegu spjalli við héraðshöfðingja þeirra sunnlendinga.