Leitaði sannleikans í fjöldagröfum

Svend Richter er einn reyndasti tannlæknir Íslands. Hann nam réttartannlæknisfræði og sú menntun leiddi hann á framandi og hryllilegar slóðir. Í Kósovó rannsakaði hann við þriðja mann fjöldagrafir eftir stríðsátökin í landinu í lok síðustu aldar. Þær rannsóknir fóru fram í skjóli Bandaríkjahers en á vegum Alþjóða stríðsglæpadómstólsins í Haag. Svend sá þar mörg dæmi um stríðsglæpi og hörmulegar aftökur barna og kvenna. Í fjöldagröfunum var oft búið að koma fyrir jarðsprengjum til að valda sem mestum skaða og drepa þá sem mögulega leituðu sannleikans. Hann var kvaddur á vettvang á hamfarasvæðið eftir flóðbylgjuna miklu sem skall á Tælandi á jólunum 2004. Hann segir þá reynslu jafnvel hafa verið hræðilegri en rannsóknir á fórnarlömbum stríðsátakanna á Balkanskaga. Svend Richter er gestur Dagmála í dag og ræðir ofangreinda atburði. En hann hefur víðar komið við sögu og hefur nýverið lokið störfum fyrir Kennslanefnd eftir 35 ára starf. Hann hefur ásamt fleirum annast aldursgreiningar á einstaklingum sem segjast vera börn við komu til Íslands í leit að skjóli eða hæli. Börn eiga skýran rétt samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna þegar eru forsjárlaus á flótta. Barn er einstaklingur undir átján ára aldri. Við aldursgreiningar hefur komið í ljós að yfir áttatíu prósent þeirra sem segjast vera börn eru að segja ósatt. Það er sambærileg tala á við það sem þekkist í öðrum Evrópulöndum, í sambærilegum málum. Þá ræðir Svend hætturnar sem felast í tannlækningum í Austur-Evrópu og þær breytinar sem hafa orðið á faginu í hans tíð.

Mikið af nýrri óværu

Meindýraeyðirinn Steinar Smári Guðbergssson sér ýmislegt í sínum störfum sem flestir forðast eins og heitann eldinn. Viðar Guðjónsson ræðir við hann um starfið og þær óværur sem eru farnar að gera sig heimakomnar hér á landi.

Ríkisstjórnin, Seðlabanki og flóttamenn

Ragnar Gunnarsson, eða Raggi Sót er gestur Dagmála á fyrsta vinnudegi páskavikunnar. Hann ræðir öll stórmálin sem eru uppi í íslensku samfélagi þessa dagana. Forsetakosningar, framganga Seðlabankans í tengslum við kjarasamninga. Hælisleitendamálin og stöðu ríkisstjórnarinnar. Raggi verður seint sakaður um skoðanaleysi, en hann var flokksbundinn Miðflokknum þar til flokkurinn tók upp fléttulista í prófkjöri. Þá var honum nóg boðið og hann sagði sig úr flokknum. Það gekk vel fyrir sig, ólíkt því þegar hann í áratug reyndi að komast af félagatali Alþýðubandalagsins. Nú stefnir allt í að Akureyri, heimabær og æskuslóðir Ragga verði borg. Gamli popparinn ræðir þá stöðu og einnig sitt fyrra líf þegar hann gerði garðinn frægan með Skriðjöklum. Hann hefur staðið í stórræðum ásamt Guðbjörgu sambúðarkonu sinni undanfarin misseri. Tíðar ferðir til Póllands í tannviðgerðir þar sem kostnaður er einungis þriðjungur af því sem þau hefðu þurft að greiða hér heima. Raggi Sót startar þessari viku með hvelli.

Samherjamálið: Eftirlit eða eftirför?

Í nýútkominni bók sem ber heitið Seðlabankinn gegn Samherja er spurt á forsíðu. Eftirlit eða eftirför? Björn Jón Bragason, sagnfræðingur skrifar bókina og er hún að hluta til byggð á fyrri bók hans um gjaldeyriseftirlit Seðlabankans. Óhætt er að segja að stjórnsýsla Seðlabankans fái falleinkunn og litlu hærra skorar réttarkerfið. Vanþekking, vanhæfi og hvernig ríkið ver sig og sína þó að málstaðurinn sé slæmur er undirtónn bókarinnar. Málið gegn Samherja var fellt niður og úr varð sneypuför Seðlabanka Íslands. Rannsóknarblaðamennska hefur verið kennd við þetta mál. Það er þá helst að blaðamenn hafi óskað eftir rannsóknum frekar en að, vinna þær sjálfir. Nú þegar málið er að mestu gufað upp hefur enginn beðist afsökunar eða formlega axlað ábyrgð á þeim fjölmörgu vondu ákvörðunum sem teknar voru og haldið til streitu svo embættismenn héldu andlitinu og þyrftu ekki að játa mistök. Höfundur bókarinnar segist vona að þessi bók og efni hennar verði til þess að breyting verði á. Hann ber saman svipað mál sem kom upp í Noregi, þegar fyrirtæki var talið hafa svikið stórar fjárhæðir undan skatti. Það reyndist ekki fótur fyrir þeim staðhæfingum. Miklar bætur voru greiddar til fyrirtækisins og einstaklinga þegar niðurstaðan lá fyrir. Stjórnmálamenn og embættismenn báðust afsökunar og var markmiðið að rétta hlut fyrirtækisins. Slíkt var ekki uppi á teningnum hér gagnvart Samherja. Björn Jón Bragason telur að Íslendingar ættu að taka upp siði nágrannalanda okkar og hafa það í huga hversu stórfellt inngrip það er í líf hvers manns og fyrirtækis þegar gögn eru haldlögð og sett af stað lögreglurannsókn. Verður þú kannski næsta viðfangsefni vanhæfra embættis- og blaðamanna?