c

Pistlar:

22. apríl 2024 kl. 22:28

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Fólksfækkun, flokksræði og velferðakerfi Kína

Fólki fækkaði í Kína annað árið í röð í fyrra og um leið dróst landsframleiðsla saman. Kínversk stjórnvöld horfa nú fram á verulegar áskoranir í viðleitni sinni til að stýra nánast öllum breytingum í þessu fyrrum fjölmennasta ríki heims. Talið er að milli 1,5 til 2 milljónir manna hafi látist af áhrifum kóvid-faraldursins í landinu en það eru smámunir einir miðað þær miklu breytingar sem hafa orðið á fæðingartíðni í Kína. Þrátt fyrir að landið hafið fallið frá eins barns pólitík sinni og um leið svipt um 4 milljónir eftirlitsmanna atvinnu sinni þá tekst ekki að stöðva fólksfækkunina. Gjaldið fyrir að mennta konur og veita þeim meira sjálfstæði er að þær vilja ekki vera útungunarvélar ættarinnar og skaffa nýja meðlimi inn í framleiðsluvél kínverska kommúnistaflokksins. Eins barns pólitíkin var nefnilega afrakstur alræðis eins flokks kerfis kommúnista.kina

Aldraðir fjórða fjölmennasta land heims

Hugsanlega töldu Kínverjar sig ekki hafa marga valkosti þegar stefnan var sett á. Þá blasti við mikil fólksfjölgun og áhöld um að þjóðin gæti brauðfætt sig. Nú er ofþyngd að verða vandamál í Kína sem er auðvitað vitnisburður um hve þróað landið er! Kínverjum fækkaði um tvær milljónir í fyrra og stefnir í áframhald á því. Um leið fjölgar öldruðum en nú er talið að um 300 milljónir manna í Kína séu 60 ára og eldri. Til samanburðar má nefna, að einn og sér myndar þessi hópur fjórða fjölmennasta land heims! Hafa verður í huga að velferðarkerfi eins og við þekkjum það er ekki til staðar í þessu ríki sósíalismans. Því hvílir það á unga fólkinu að ala önn fyrir foreldrum sínum. Vissulega hafa síðustu kynslóðir Kínverja náð að safna nokkru sparifé en það dugar skammt.

En þrátt fyrir samdrátt í fæðingum gengur stjórnvöldum illa að útvega ungu fólki vinnu. Eftir að tölur birtust um það í júní á síðasta ári að atvinnuleysi meðal ungs fólks í borgum landsins væri komið upp í 21% hættu stjórnvöld einfaldlega að birta þessar tölur. Síðan var viðmiðum breytt og stúdentar í leit að vinnu teknir út og vitið menn, atvinnulausum meðal ungs fólks fækkaði niður í 14,9%! Hagtölurnar verða að henta málflutningi flokksvélar kínverska kommúnistaflokksins.

Arftakar Rauðu varðliðanna

Um 100 milljónir manna eru í Kínverska kommúnistaflokknum en leiðtogi landsins, Xi Jinping hefur lagt áherslu á að fjölga í flokknum og þá sérstaklega ná til ungs fólks. Nú er svo komið að ungliðsamtökin eins og sér innihalda 78 milljónir félagsmanna. Þar er ungt fólk á aldrinum 14 til 28 ára og fær það fræðslu og uppeldi sem ætlað er að þjóna flokknum í framtíðinni. Saga Kína er ekki alltaf ánægjuleg þegar kemur að ungu fólki og skemmst að minnast Rauðu varðliðanna sem voru heilaþvegnir til þess að vinna óhæfuverk Maó-stjórnarinnar. Áfram er treyst á ákveðin heilaþvott í flokksstarfinu en allt frá því að Xi Jinping tók við árið 2012 hefur hann lagt áherslu á að ná til unga fólksins.china housing

En eins og áður sagði er unga fólkið í ákveðinni tilvistarkreppu. Það er erfitt að framkvæma hlutina núna eins og á tímum Rauðu varðliðanna því að þrátt fyrir víðtæka ritskoðun er vonlaust að þurrka allt óæskilegt efni út úr samfélagsmiðlunum. Auk þess að glíma við atvinnuleysi þá er húsnæðiskostnaður komin upp úr öllu valdi og þó að kröfur séu oft ekki meiri en að fá sérherbergi er það erfitt fjárhag unga fólksins. Það hefur örlað á mótmælum sem eru eitur í beinum kommúnistaflokksins þar austur frá. Einhverjir mjög hugaðir mótmælendur í Sjanghaí fóru meira að segja fram á afsögn Xi Jinping. Hann er mjög meðvitaður um hvað fór úrskeiðis í mótmælunum 1989 sem í bókum kommúnistaflokksins er kallað uppreisn og því refsivert. Xi Jinping hefur einnig ákveðnar skoðanir á því hvað fór úrskeiðis í Sovétríkjunum þegar kommúnisminn hrundi þar. Hann kennir um skort á hugmyndafræðilegum aga og úrkynjun flokkshugsunarinnar. Hann telur að lykillinn að því að vernda hugmyndafræði og styrk kommúnistaflokksins sé í starfi meðal ungs fólks. Fyrir vikið hefur hann beint orku flokksins mjög að því og einhverskonar endurbótum sem eru þó fyrst og fremst ætlað að þjóna hagsmunum flokksins. cinakall

Hugmyndafræðilegur sigur á nýfrjálshyggjunni?

Þegar kemur að hugmyndafræði þá stendur Kínverski kommúnistaflokkurinn líklega næst íslenska sósíalistaflokknum. Gunnar Smári Egilsson, stofnandi flokksins og formaður framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokksins, var til dæmis fullur aðdáunar í garð kommúnistaflokksins í færslu á Facebook fyrir skömmu: „Eftir innleiðingu nýfrjálshyggjunnar, sem er líka stjórnarstefna íslenskra yfirvalda, hafa innviðir í Bandaríkjunum grotnað niður og engir nýir orðið til. Innviðauppbyggingin er hins vegar á fullri ferð í Kína undir stjórn kommúnistaflokksins,“ skrifar hann og bætir við: „Nú gæti einhver sagt mannréttindi séu minni í Kína, eins og mannréttindi og lestarsamgöngur geti ekki farið saman. Fyrst er að nefna að nægt og öruggt húsnæði, samgöngur og aðgengi að heilbrigðis- og menntakerfum eru mikilvæg lýðréttindi. Og þau eru í miklu betra standi í Kína en í Bandaríkjunum. Um fimmtungur íbúa Bandaríkjanna hafa lítið sem ekkert aðgengi að heilbrigðisþjónustu, milljón manns lifa þar á götunni og mun stærri hópur er heimilislaus, þ.e. hefur ekki aðstöðu til búa sér og sínum öruggt heimili, býr í hreysum, hrekst á milli íbúða eða býr við illar aðstæður.“ 

Samkvæmt nýjasta Lífsgæðalista Sameinuðu þjóðanna eru Bandaríkin í 20. sæti listans en Kína í 75 sæti, og langt á eftir nágranaþjóðum sínum á Taívan, Suður-Kóreu og Japan sem öll njóta mikils samstarfs við Bandaríkin. Þá hefur hefur heilbrigðiskerfið í Kína verið metið í 144. sæti í heiminum af Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni. Landið eyðir aðeins 5,5% af landsframleiðslu sinni í heilbrigðismál og hefur tiltölulega fáan fjölda lækna (1,6 á hverja 1.000 íbúa). Þess utan eru mannréttindi lítil í Kína, um það þarf ekki að deila. Svona tala því aðeins sannir sósíalistar! En því miður lifa blekkingar sem þessar góðu lífi á tímum falsfrétta og lokaorð formanns framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokksins segja sína sögu: „Kannski ættum við að horfa frekar til Kína að fyrirmyndum um innviðauppbyggingu en að apa allt upp eftir últra hægrinu í Bandaríkjunum.“ Getur það verið að íslenskir stjórnmálamenn geri engan mun á lýðræðisríki og einræðisríki?