Pistlar:

25. apríl 2019 kl. 12:36

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Opinber eða óopinber framtíðarsýn

Á jörðinni búa í dag um 7,7 milljarðar manna og fjölgar um milljarð á hverjum áratug eða þar um bil. Sumar spár segja að mannfjöldi jarðarinnar muni ná hámarki í 11 til 12 milljörðum manna á seinni hluta 21. aldarinnar. Til eru spár sem telja þetta vanmetið og aðrar sem segja þetta ofmetið. Innan ekki svo langs tíma er talið að Indland fari fram úr Kína sem fjölmennasta ríki jarðar og mannfjöldi nái þar hámarki í 1,7 milljarði manna eftir tvo áratugi eða svo. Á sama tíma eru þessi tvö fjölmennustu ríki heims að ná fram umtalsverðum hagvexti í ríkjum sínum og ljóst að áhrif þeirra á aðra jarðarbúa aukast dag frá degi á flestum sviðum. Það er reyndar svo að Kínverjar sjá nú þegar fram á fólksfækkun og það á við um mörg vestræn ríki. Japönum fækkar um sem svarar fjölda Íslendinga á hverju ári og sjá það ráð helst að búa til vélmenni til að hugsa um sig í framtíðinni, nema þeir neyðist til að slaka á harðri innflytjendastefnu sinni. Rússum og Ítölum fækkar og mörg önnur ríki eru að fást við fólksfækkun, meira að segja við Íslendingar sjáum hratt lækkandi fæðingatíðni.

Í hvaða samhengi er þetta sagt? Jú, þegar verið er að velta fyrir sér framtíðinni - hvort sem það er hér á landi eða annars staðar - þá er spurning hvort hægt er að gera það án þess að nefna mannfjöldaþróun í heild sinni og sérstaklega þessi tvö fjölmennustu ríki heims? Nýlega skilaði nefnd á vegum forsætisráðherra frá sér skýrslu sem felur í sér ákveðna sýn á framtíðina hér á landi. Hægt er að senda inn umsagnir um skýrsluna þessa dagana en ekki verður farið djúpt í efni hennar í þessum pistli. Hugsanlega er hún kannski bara vitnisburður um að menn séu góðir að skrifa skýrslur, óháð því hvað framtíðin ber í skauti sér. Hér er því fremur ætlunin að velta fyrir sér spáfræði nútímans en menn hafa frá örófi alda reynt ýmsar aðferðir til að öðlast vitneskju um og hafa áhrif á framtíðina og heiminn, á árum áður oft með hreinum og klárum göldrum!

Homo sapiens á útleið?

Það er hins vegar forvitnilegt að velta fyrir sér framtíðinni, einfaldlega af því að við vitum svo lítið um hana, augljóslega! Hér í pistlum hefur í gegnum tíðina mátt lesa ýmsar slíkar vangaveltur og hefur þeim er þetta ritar verið tíðrætt um gervigreind og satt best að segja staðið nokkur stuggur af henni. Má vera að það sé ein af stærstu áskorunum framtíðarinnar að skilgreina og meta þá þörf sem við höfum fyrir gervigreind. Sama má segja um líftækni hverskonar en líklegt er að innan ekki langs tíma getum við bæði raðað saman erfðamengi mannsins eftir því sem henta þykir og búið til líffæri eftir þörfum. Um leið er ljóst að íhlutir hverskonar verða samtengdir mannslíkamanum á margvíslegan hátt þannig að mörkin á milli manna og véla verða óskýrari. Má vera að þetta séu breytingar eða þróun sem ekki þurfi að hafa áhyggjur af en augljóslega munu þeir geta haft áhrif á sjálfsvitund fólks. Hugsanlega eru þarna komin stórkostlegt atvinnutækifæri fyrir siðfræðinga framtíðarinnar! En án gríns. Fræðimenn eins og sagnfræðingurinn Yuval Noah Harari hafa lagt sig eftir að rýna í mögulega þróun um leið og hann hefur reynt að rekja sögu hugsana mannsins og hvernig hinum viti borna manni hefur aukist skilningur og þekking í gegnum tíðina. Sem ein og sér kann að vera umdeild fullyrðing að sumra mati en þó leyfi ég mér að setja hér mynd af styttu Arkimedesar sem stendur í sikileysku borginni Sýrakusu. Hann einn og sér efldi þekkingu mannsins svo að undrun sætir.arkimedes

En víkjum aftur að Harari en hann er höfundur bókanna: Sapiens: A Brief History of Humankind (2014), Homo Deus: A Brief History of Tomorrow (2016), and 21 Lessons for the 21st Century (2018). Í tveimur síðasttöldu bókunum rýnir hann fram á veginn og varpar upp margvíslegum möguleikum. Forvitnilegt er að sjá að hann hefur efasemdir um að hinn viti borni maður (homo sapiens) sé eins eilífur og margir virðast telja. Eins og áður sagði þá er mögulegt að maðurinn þróist fyrir tilverknað erfðatækni og véltækni og jafnvel nanótækni þannig að skilin milli manns og vélar hverfi. Hvað verður þá er vitaskuld erfitt að segja og sem stendur eru mörkin milli slíkra vangaveltna og hreins og klárs vísindaskáldskapar óljós.

Þarf að stýra þróuninni?

Stærstu framtíðarverkefnin lúta væntanlega að því að skilgreina hvað langt við viljum ganga í að hafa áhrif og stýra þróuninni. Verða þetta gósentímar fyrir stjórnmálamenn eða aðra þjóðfélagsskipulagsfræðinga eða verður yfir höfuð hægt að stýra þróuninni? (Og verður rétt að tala um þróun?) Þó að skýrslur framtíðanefnda geti vissulega gefið einhverja sýn á framtíðina þá er ómögulegt að segja hvernig hlutirnir breytast, fái þróunin að ganga fram óáreitt og án þess að reynt sé að stýra henni.

En staðreyndin er sú að framtíðardraumur eins getur verið framtíðarhryllingur annars. Verður hlutverk hins opinbera stærra og stærra og hið alsjáandi auga kerfisins stöðugt að fylgjast með hverjum og einum einstaklingi eins og við sjáum möguleika á í gagnasöfnun nútímans? Ótalmargar dystópíur skáldskaparins fjalla um slíka hluti og augljóst að fólki hefur staðið stuggur af slíku allt síðan George Orwell skrifaði bók sína 1984. Ártalið reyndist kannski ekki vel heppnað en hugsanlega rætist spásögn Orwells við annað tækifæri. Eins og áður sagði þá má alltaf velta fyrir sér hve langt skal ganga í að stýra þróuninni. Ef hið opinbera hefur ekki hönd í bagga mun þá allt fara til fjandans? Er það önnur útgáfa af framtíðinni? Og mun sú framtíð fela í sér að villimennskan ráði ríkjum og aðeins sá sterki eigi möguleika?

Fyrir stuttu mátti lesa frétt frá Alþjóðlegu efnahagsstofnuninni (World Economic Forum) um að gervigreind muni breyta blaðamennsku og það hratt. Jafnvel svo að 90% frétta verði skrifaðar af gervigreindarforritum strax árið 2025. Þetta kann mörgum að þykja heldur ósennilegt en blaðamennskustarfið á sannarlega undir högg að sækja nú um stundir. Um leið og samskipti aukast og upplýsingar verða aðgengilegri verður eðlilega aukin hætta á því að reynt sé að bregða upp falskri mynd af veruleikanum. Það er svo sem ekkert nýtt að það sé reynt en það er núna gert á nýjum forsendum. Og það eru ekki blaðamenn einir sem þurfa að hafa áhyggjur af störfum sínum þó án efa sé sjálfvirknivæðing að einhverju leyti ofmetin og þá sérstaklega tímaþátturinn. Það má til dæmis efast um að sjálfkeyrandi bílar verði tiltækir innan næstu 5 til 10 ára en eftir það er ómögulegt að spá hvað verður á því sviði. Má vera að það sé vandinn við spáfræði nútímans, hún er kannski ekkert betri en þegar menn rýndu í innyfli fugla eða galdrarúnir.

Ég óska lesendum gleðilegs sumars!

mynd
22. apríl 2019

Viðskiptablað í 25 ár

Innan bókmenntafræðinnar má finna þá skoðun að þriðji áratugur síðustu aldar hafi haft í för með sér gagngera breytingu í menningarlífi Íslendinga. Þannig hafi Reykjavík þróast smásaman í áttina til borgaralegs þjóðfélags og höfuðborgin orðið að þeirri menningarlegu miðju sem síðar skapaði forsendu fyrir sístækkandi millistétt sem leysti af hólmi þá fámennu borgara- og embættismannastétt sem hafði meira
mynd
18. apríl 2019

Vagga Vefarans á Ítalíu

Meira að segja á ítalskan mælikvarða er bæjarstæði Taormina einstakt. Bærinn teygir sig um hlíðar fjalllendis sem rís upp af ströndinni rétt norðaustan við eldfjallið Etnu. Taormina er miðja vegu á milli Catania og Messína og í eins og hálfs tíma akstursfjarlægð frá Sýrakusu. Daginn sem við kíktum við þá huldi skýjahula Etnu sem rís eins og tvöföld Hekla upp úr landslaginu á Sikiley. Í meira
mynd
16. apríl 2019

Fjallaborgir Sikileyjar heimsóttar

Gærdagurinn var tekinn í að skoða bæina Ragusa og Modica sem eru í um eins og hálftíma akstursfjarlægð norðvestur frá Sýrakusu. Ekið var meðfram ströndinni og reyndist hér miklu gróðursælla en séð var fyrir. Mikil garðyrkja, sítrónutré áberandi og gróðurhúsaþyrpingar stórar. Þegar leið á aksturinn varð umhverfið fjalllendara og stór gil og skorningar tóku við. Þannig háttar einmitt til með meira
mynd
14. apríl 2019

Hvað þarf margar kirkjur á Ítalíu?

Hér hinum megin við götuna í Sýrakusu er kirkja. Hún er svo nálægt að mér finnst ég næstum því geta snert hana með höndunum ef ég bara halla mér yfir handriðið. Það er þó ekki ráðlegt. Ef ég geng út Via Roma, svona á að giska 40 metra og sný til hægri sé ég dómkirkju þeirra Sýrakusumanna sem snýr framhliðinni að aðaltorginu, sjálfu dómkirkjutorginu, Piazza Duomo, miðju Ortigu sem ég get ekki enn meira
mynd
13. apríl 2019

Ómetanleg mynd Caravaggio í Sýrakusu

Það er hægt að deila út af ýmsu og ómetanlegt verk eftir Caravaggio er ekki verra tilefni en annað. Hér í Sýrakusu, nánar tiltekið í kirkju heilagrar Lúsíu, má finna eitt af meistaraverkum þessa óstýrláta málara sem oftar en ekki þurfti að flýja frá einni borg til annarrar eftir að hafa lent í slagsmálum eða jafnvel enn verri uppákomum. En hér við enda höfuðtorgs þeirra Sýrakusu-manna má finna meira
mynd
10. apríl 2019

Sólbakaður efnahagur Ítalíu

Þegar horft er í kringum sig hér í Sýrakusu á Sikiley beinast hugsanir ekki endilega að efnahagslegum vandamál. Stundum er eins og lífið í sólríkari löndum geti gengið nokkurn veginn óháð efnahagslegum lögmálum nútímans. En svo er ekki og hér í þriðja stærsta hagkerfi Evrópusambandsins hefur verið viðvarandi uppdráttarsýki í langan tíma. Svo mjög að hagur almennings á Ítalíu hefur lítið sem ekkert meira
mynd
8. apríl 2019

Ítalía enn á ný

Mér reiknast til að ég sé nú í þrettánda sinn staddur á Ítalíu sem væri dágott ef kona mín væri ekki að slá mér við með sinni átjándu ferð! Af þessu má sjá að við erum nokkuð elsk að þessu fallega landi. Hvað veldur er ekki erfitt að útskýra; náttúran, maturinn, vínið, menningin, sagan og fólkið. Og svo hugsanlega pínulítið öll vandræðin sem fylgja Ítalíu, bæði í nútíð og fortíð. Glæsileg þjóð sem meira
mynd
5. apríl 2019

Rafmagnsbílarnir að taka yfir

Orkuveita Reykjavíkur hefur spáð því að rafmagnsbílar verði um 100.000 talsins árið 2030 eða um um 40% af bílaflotanum. Þetta er athyglisverð spá og sýnir kannski betur en annað þá miklu breytingu sem er að verða í bílgreininni. Auðvitað eru Íslendingar sér á báti þegar kemur að rafmagnsbílum og eru ásamt Norðmönnum í einstakri aðstöðu til að innleiða þá eins og hefur verið bent á hér áður. meira
mynd
3. apríl 2019

Störf sem eru algjört bull og rugl!

Undanfarin misseri höfum við orðið vör við síaukna umræðu um að störf kynnu að hverfa í vaxandi mæli í framtíðinni og þá helst kennt um einhverskonar sjálfvirknivæðingu eða jafnvel framþróun gervigreindar. Þannig má segja að daglega rigni yfir okkur upplýsingum eða jafnvel kenningum um að þessi eða hin störfin verði óþörf eða hverfi jafnvel með öllu. Þannig sé framtíðin kannski heldur óviss fyrir meira
mynd
31. mars 2019

101 hagfræði og marxismi

Það var vel til fundið hjá þáttastjórnanda Silfursins í dag að kalla til Gylfa Zöega, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands. Gylfi situr einnig í peningastefnunefnd Seðlabankans og hefur eðli málsins samkvæmt mikinn og djúpan skilning á hagfræði og þeim öflum sem umlykja hagkerfi okkar Íslendinga um þessar mundir. Ummæli hans voru því athyglisverð fyrir margra hluta sakir. Þó að íslenska meira
mynd
29. mars 2019

Þúsundir starfa tapast á nokkrum dögum

Líklegt er að á þriðja þúsund störf tapist nú síðustu tvo til þrjá sólarhringanna fram að mánaðamótum. Við Íslendingar erum að sjá mjög óvenjulegt ástand á vinnumarkaði en nánast á hverjum klukkutíma rignir inn tilkynningum um uppsagnir. Um leið fréttist af félögum sem eru að segja upp fólki án þess að þurfa að tilkynna fjöldauppsögn. Sumir líkja þessu við blóðbað á vinnumarkaði en ljóst er að meira
mynd
27. mars 2019

Kína heimsækir Evrópusambandið

Xi Jinping, forseti Kína, hefur haldið heim á leið eftir stutta en áhrifamikla ferð til Evrópu. Að þessu sinni einbeitti hann sér að miðju Evrópusambandsins en í síðustu heimsókn hans til Evrópu tóku Bretar á móti honum í heldur umdeildri heimsókn þar sem mörgum fannst að heimsveldið hefði lagst flatt fyrir kínversku fjárfestunum sem ferðuðust með Xi Jinping. Að þessu sinni heimsótti hann Ítalíu meira
mynd
23. mars 2019

Farandverkamannalandið Ísland

Í nýrri skýrslu Viðskiptaráðs er vakin athygli á því að 16.000 ný störf í hafa orðið til í ferðaþjónustu síðustu 10 ár. Um leið hefur ferðaþjónustan verið stærsti drifkraftur fordæmalausrar fjölgunar erlendra ríkisborgara. Frá 2010 hefur launþegum af erlendum uppruna fjölgað um 14.000 segir í skýrslunni. Af þessu má sjá að uppgangurinn í ferðaþjónustunni hefur að stórum hluta orðið til vegna meira
mynd
19. mars 2019

Venesúela: Sósíalistar á heimavelli

Þrátt fyrir að margir sósíalistar á Íslandi hefi reynst ófærir um að sýna nokkra samúð með alþýðu manna í Venesúela þá versnar ástandið í landinu stöðugt og við erum daglega minnt á það. Ekki bætir úr skák að Maduro-stjórnin virðist ætla að standa gegn öllum tilraunum til að lina þjáningar fólks og hefur hafnað erlendri aðstoð. Andstaðan við aðstoð gengur svo langt að kveikt hefur verið í meira
mynd
17. mars 2019

Voru Kínverjar sigurvegarar Kalda stríðsins?

Nýlega velti sagnfræðinginn Odd Arne Westad því fyrir sér í fyrirlestri við LSE háskólann hvort Kínverjar hefðu verið hinir raunverulegu sigurvegarar Kalda stríðsins? Westad er prófessor við Harvard og sérhæfir sig í samskiptum Bandaríkjanna og Asíu en hann hefur nýlega gefið út bókina The Cold War: A World History. Westad hefur komið með nýja sýn á Kalda stríðið sem felur í sér að í stað þess að meira
mynd
15. mars 2019

Kína: Þar sem allt miðast við þarfir fjöldans

Það er stundum erfitt að skilja þann uppgang sem hefur átt sér stað í Kína undanfarna áratugi. Á síðasta ári munu 40 milljónir Kínverja hafa færst úr fátækt til bjargálna. Þetta er búið að gerast ár eftir ár enda hefur efnahagir Kína vaxið svo undrum sætir og talið er að 800 milljónir manna hafi hafist upp úr fátækt þar síðan uppgangurinn hófst upp úr 1980. Helsta auðlegð landsins er vinnuaflið og meira
mynd
12. mars 2019

Efnahagslegar undirstöður heimilanna áfram traustar

Sá sem skuldar er ekki frjáls og þess ánægjulegra er að sjá að í Þjóðhagsspá Hagstofunnar er talið að efnahagslegar undirstöður heimilanna verði áfram traustar. Staðreyndin er sú að skuldastaða íslenskra heimila er traust og hefur ekki verið betri í áraraðir. Ljóst er að íslenska millistéttin heldur áfram að greiða niður skuldir fremur en að taka áhættu í fjárfestingum. Um leið virðist fólk meira
mynd
10. mars 2019

Þjóðhagsspá: Bætt skuldastaða og lægri vextir

Heildarskuldastaða atvinnufyrirtækja hefur haldist í um 84% af vergri landsframleiðslu síðustu þrjú ár, en svo lágt hefur hlutfallið ekki verið frá árinu 1999. Ísland er í svipaðri stöðu og önnur Norðurlönd en þar var hlutfallið fyrir atvinnufyrirtæki að jafnaði um 90% í lok árs 2017 samkvæmt Hagstofu Evrópusambandsins. Þetta kemur fram í nýrri Þjóðhagsspá Hagstofunnar sem heldur lítil umræða meira
mynd
7. mars 2019

Jóhönnustjórnin framlengdi kreppuna

Í bók sinni Lífið í lit - sem kom út fyrir stuttu - lítur Helgi Magnússon, iðnrekandi og fjárfestir, um öxl og fer yfir margt forvitnilegt í íslensku samfélagi. Hér er ætlunin að skoða það sem hann segir um vinstri stjórnina sem hér sat 2009 til 2013, Jóhönnustjórnina. Augljóslega er Helgi mjög gagnrýnin á það sem hann kallar glæfralegar yfirlýsingar um háskalega stöðu þjóðarbúsins sem hann segir meira