Efnahagslegar afleiðingar veiðigjaldafrumvarpsins hafa furðu lítið verið í umræðu en þær eru þegar orðnar umtalsverðar og geta orðið enn meiri í framtíðinni. Þrjú sjávarútvegsfyrirtæki eru skráð í Kauphöll Íslands og þar af tvö þeirra, Ísfélagið og Síldarvinnslan, til þess að gera nýskráð. Gengi bréfa þessara fyrirtækja hefur lækkað um 20 til 25% það sem af er ári og augljóslega hefur dregið verulega úr áhuga fjárfesta. Þeir sem fjárfestu í útboðum þessara félaga hefðu betur sett sig inn í þá pólitísku áhættu sem fylgir fjárfestingu í íslenskum sjávarútvegi. Þá hafa Samtök skattgreiðenda bent á hið mikla tjón sem lífeyrissjóðirnir hafa orðið fyrir.
Velta má fyrir sér hvort ekki sé búið að spilla eða jafnvel eyðileggja möguleika þess að skrá íslensk sjávarútvegsfyrirtæki. Það er undarleg niðurstaða þar sem skráning eykur gagnsæi varðandi starfsemi þeirra en ekki síður gerir hún samkeppnisstöðu þeirra við erlend skráð sjávarútvegsfyrirtæki betri. Það gleymist í hinni einfölduðu og hatrömmu auðlindagjaldaumræðu hér á landi að íslenskur sjávarútvegur á í harðskeyttri baráttu á erlendum mörkuðum, oft við skráð félög sem eru margfalt stærri en íslenskir samkeppnisaðilar þeirra.
Á að opna á erlendar fjárfestingar?
Það er reyndar umhugsunarvert hvort ástæða sé til að endurskoða bann við fjárfestingum erlendra aðila í íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum eins og Eldur Ólafsson, forstjóri Amaroq, hefur stungið upp á. Stærð þessara erlendu samkeppnisaðila gæti mælt á móti því en hugsanlega þarf íslenskur sjávarútvegur að endingu að hafa aðgang að meira fjármagni. Þetta helst í hendur við það hvernig sjávarútvegsfyrirtækjunum reiðir af á næstunni. Niðurstaða þessa máls mun síðan senda skilaboð til atvinnulífsins því hver getur fullyrt að aðrar atvinnugreinar, svo sem ferðaiðnaðurinn, fái ekki sömu meðferð.
Fleiri og fleiri í atvinnulífinu velta nú því fyrir sér hvort nægilega vel hafi verið metið hvaða áhrif auknar álögur og skattahækkanir á sjávarútveg geti haft á verðmætasköpun í landinu.
Dregur strax úr fjárfestingum
Morgunblaðið benti á hið augljósa í frétt í gær en þar var sagt frá því að áform um skattabreytingar og auknar álögur á sjávarútveg hafi þegar haft áhrif á fjárfestingar og verkefni fyrirtækja sem þjónusta greinina. Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins hafa nokkur fyrirtæki, sem sérhæfa sig í tækni, búnaði og lausnum fyrir útgerðir og vinnslur, orðið vör við að verkefnum hafi verið frestað og eftirspurn dregist saman. Þetta kemur heim og saman við það sem fólk og fyrirtæki úti á landi upplifa en sjávarútvegsfyrirtækin hafa í mörgum tilvikum sett fjárfestingar á ís enda komið á daginn að útfærsla hækkunar veiðigjalda var um margt óljós. Það er ekki nema von að menn segi núna að „leiðréttingin“ standi undir nafni, svo oft er búið að leiðrétta veiðigjaldafrumvarpið.
Breytt rekstrarskilyrði
Morgunblaðið segir í frétt sinni að sérfræðingar í greininni bendi á að fjárfestingarþörf hafi byggst upp á undanförnum árum, ekki síst eftir erfitt tímabil með hátt vaxtastig. Merki hafi verið um aukna eftirspurn eftir tæknilausnum og sjálfvirkni í upphafi ársins, en óvissa vegna breyttra rekstrarskilyrða og fyrirhugaðra skattabreytinga hafi haft áhrif á þróunina.
„Við höfum klárlega orðið vör við þetta. Mörgum verkefnum hefur annaðhvort verið slegið á frest eða hreinlega fallið niður,“ segir Óskar Pétursson, framkvæmdastjóri tæknifyrirtækisins Klaka, í samtali við Morgunblaðið en Klaki sérhæfir sig í sjálfvirknivæðingu fyrir sjávarútveg. Haft er eftir Óskari að haustið líti út fyrir að verða rólegra en ella og að fyrirtæki þurfi í auknum mæli að færa fókus sinn annað vegna þessarar þróunar.
Hagkvæmt en slegið af
Það er sláandi að lesa það sem haft er eftir Óskari en hann nefnir dæmi um verkefni sem Klaki hefur haft lengi í undirbúningi og búið er að leggja mikla hönnun og þróun í sem hætt hafi verið við. „Þetta var verkefni sem var augljóslega hagkvæmt fyrir viðkomandi fyrirtæki til lengri tíma litið, en áhyggjur af rekstrarumhverfinu og auknum álögum hafa orðið til þess að ekki er ráðist í fjárfestinguna,“ segir Óskar. Morgunblaðið hefur eftir honum að þessi þróun geti grafið undan samkeppnishæfni íslensks sjávarútvegs á alþjóðamarkaði.
„Þetta er ekki flókið. Sjávarútvegurinn er eina alvöru magnframleiðslugreinin sem við höfum á Íslandi. Hún verður einfaldlega ekki samkeppnishæf erlendis nema framleiðslan sé eins sjálfvirk og mögulegt er. Ef fyrirtækin hafa ekki tök á því að sjálfvirknivæða framleiðsluna sína verða þau ekki samkeppnishæf,“ segir Óskar. Allt þetta hefuir verið til umræðu á Alþingi þó það henti stjórnarliðum að segja að þetat snúist bara um málþóf.