„Okkur miðar í rétta átt“

Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Okkur miðar í rétta átt sem er mjög mikilvægt og ég fagna því auðvitað að verðbólgan sé á niðurleið. Þetta eru mjög jákvæðar fréttir.“

Þetta segir Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastóri Samtaka atvinnulífsins, við mbl.is þegar hún er innt álits á nýjum verðbólgutölum en verðbólgan mælist nú 6% og hjaðnar um 0,8 prósentustig frá síðasta mánuði þegar hún mældist 6,8%.

„Við gengum frá kjarasamningi í síðasta mánuði til fjögurra ára og þeir samningar marka ákveðin tímamót. Þeim var ætlað að ryðja brautina þannig að við ættum möguleika á því að ná efnahagslegum stöðugleika,“ segir Sigríður.

Sigríður segir að það sé mjög mikilvægt að hafa það í huga að verkefnið sé langt frá því að vera búið. Hún nefnir að það eigi eftir að ganga frá kjarasamningum, bæði sérkjarasamningum á almenna markaðnum og kjarasamningum á opinbera markaðnum.

Verkefnið ekki búið

„Núna skiptir gríðarlega miklu máli að við höldum áfram á þessari braut, að við stöndum saman, sýnum aga og höfum úthald vegna þess að verkefnið er svo sannarlega ekki búið en okkur miðar í rétta átt,“ segir Sigríður Margrét.

Hún segir að verðbólgan sé búin að vera allt of mikil lengi og á síðasta ári hafi hún verið á bilinu 8-10%. Það sé því mjög jákvætt að hún sé komin niður í 6%.

„Það er líka jákvætt að greiningaraðilar séu að spá því að verðbólgan fari niður í 5% í lok ársins og það er enn þá jákvæðara að í nýrri þjóðhagsspá frá Hagstofunni sé gert ráð fyrir að hún verði 3,2% á næsta ári,“ segir Sigríður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert