Sex hafa greinst með listeríu

Sex einstaklingar hafa greinst með listeríu það sem af er …
Sex einstaklingar hafa greinst með listeríu það sem af er ári. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sex tilfelli af listeríu hafa greinst hér á landi það sem af er ári. Tíðni sýkinga virðist fara vaxandi en að jafnaði greinast tveir til fimm einstaklingar á heilu ári.

Þess má geta að á árinu 2017 greindust sjö tilfelli af listeríusýkingu og var það þá mesti fjöldi listeríusýkinga á einu ári.

Í tilkynningu á vef Matvælastofnunar (MAST), þar sem greint er frá listeríusýkingunum, segir að uppspretta sýkingarinnar í matvælum hafi enn ekki fundist. Helsta smit­leið listeríu er með mat­væl­um. 

Erfitt að rekja uppruna

Meðgöngutími listeríu er allt að þrjár vikur og því getur reynst erfitt að rekja uppruna smits. 

Listería veldur einkum sjúkdómi meðal áhættuhópa. Áhættuhópar eru einstaklingar með skert ónæmiskerfi, einstaklingar á ónæmisbælandi lyfjum eða í krabbameinsmeðferð, barnshafandi konur og aldraðir.

Taka skal fram að í heilbrigðum einstaklingum veldur neysla á matvælum sem eru menguð af Listeríu sjaldnast einkennum eða aðeins mildum flensueinkennum.

Í tilkynningu á vef MAST segir:

„Listería getur fjölgað sér í matvælum í kæli við 4 °C og skiptir þá ekki máli hvort umbúðir eru lofttæmdar, loftskiptar eða ekki. Viðkvæm matvæli tilbúin til neyslu, með nokkurra vikna geymsluþol, geta verið áhætta ef þau hafa mengast af Listeríu í framleiðsluferlinu. Listería getur hins vegar ekki fjölgað sér í matvælum sem eru sýrð þannig að pH sé undir 4.5 eða söltuð / þurrkuð þannig að vatnsvirkni sé undir 0.92. Hér má nefna þurrskinku s.s parmaskinka, spægipylsur, pepperoni, og sýrðar mjólkurvörur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert