„Skýr skilaboð til Seðlabankans“

Vilhjálmur Birgisson er mjög sáttur með nýjar verðbólgutölur.
Vilhjálmur Birgisson er mjög sáttur með nýjar verðbólgutölur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins og formaður verkalýðsfélags Akraness, segist afar glaður að heyra af lækkun verðbólgunnar en tólf mánaða verðbólga mælist nú 6% og hefur lækkað um 0,8 prósentustig frá síðasta mánuði.

„Ég er kátur og hress með þessar nýju verðbólgutölur og það er gríðarlega ánægjulegt að sjá að það sem við stefndum að er byrjað að skila árangri,“ segir Vilhjálmur við mbl.is.

Vilhjálmur segir að þessi tíðindi séu mikil hvatning og hann segist ítreka aftur mikilvægi þess að allir taki þátt í þessari baráttu.

Vinna bug á þessu í eitt skipti fyrir öll

„Nú er mikilvægt að verslun og þjónusta haldi aftur að hækkunum og að við beitum því afli sem við í breiðfylkingunni lögðum grunninn að með kjarasamningunum. Nú þurfum við bara að halda áfram á sömu braut og vinna bug á þessu í eitt skipti fyrir öll “ segir Vilhjálmur.

Hann segir að þessi verðbólgumæling sé skýr skilaboð til Seðlabankans um að koma með alvöru lækkun á vöxtum í næsta mánuði.

„Það eru stóru tölurnar fyrir íslensk heimili og fyrirtæki að sjá lækkun vaxta. Ég vil sjá myndarlega lækkun stýrivaxta í næsta mánuði,“ segir Vilhjálmur.

Vilhjálmur vill hvetja opinbera aðila sem eru núna í kjaraviðræðum við sveitarfélög og ríki um að fylgja fordæmi íslensks verkafólks og ganga frá kjarasamningum sem styðja við þau markmið að ná verðbólgu og vöxtum niður.

„Það er alveg ljóst að launafólk á hinum almenna vinnumarkaði getur það ekki eitt og sér.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert