mið. 15. júlí 2020 15:06
Akranes
Stórframkvæmd á Akranesi gjaldþrota

Héraðsdómur Vesturlands úrskurðaði í síðustu viku að taka ætti til gjaldþrotaskipta bú Uppbyggingar ehf., en fyrir tveimur árum var greint frá því að félagið hefði keypt um tveggja hektara land við Smiðjuvelli á Akranesi og áformaði að byggja þar allt að 17 þúsund fermetra af blönduðu verslunar- og þjónusturými. Var áætlað að framkvæmdin myndi kosta um fimm milljarða.

Félagið var í eigu athafnarmannsins Engilberts Runólfssonar, en hann hefur áður komið að rekstri nokkurra verktakafyrirtækja.

Engilbert sagði við Rúv fyrir um tveimur árum að markmiðið væri að byggja „fyrirtækjagarða“ þar sem væru skrifstofuhúsnæði, verslun, blönduð þjónusta og sérhæfðar geymslur.

Engilbert var í janúar fundinn sekur um meiri háttar skattalagabrot í eigin atvinnurekstri og hlaut hann 10 mánaða skilorðsbundinn dóm. Jafnframt var honum gert að greiða tæplega 60 milljónir í sekt til ríkissjóðs vegna brotanna, en Engilbert játaði brot sín fyrir dómi.

til baka