Verktaki fær 10 mánaða dóm fyrir skattsvik

mbl.is

Karlmaður á sextugsaldri hefur verið dæmdur í 10 mánaða skilorðsbundið fangelsi og til að greiða 59 milljónir í sekt til ríkissjóðs vegna meiri háttar skattalagabrota og bókhaldsbrota í eigin atvinnurekstri. Maðurinn, sem heitir Engilbert Runólfsson, hefur rekið nokkur verktakafyrirtæki á undanförnum árum og meðal annars fyrirhugað uppbyggingu á hóteli og verslunum á Akranesi.

Engilbert játaði fyrir dómi skattalagabrot, en í ákæru málsins var hann sakaður um að hafa ekki staðið skil á tæplega 24 milljónum í virðisaukaskatt í tengslum við rekstur félaga sinna. Var hann jafnframt ákærður fyrir peningaþvætti með því að nýta ávinning af brotum sínum í þágu atvinnurekstursins og eftir atvikum í eigin þágu.

Undanfarið hefur Engilbert unnið að fyrirhugaðri uppbyggingu hótels og verslunarkjarna …
Undanfarið hefur Engilbert unnið að fyrirhugaðri uppbyggingu hótels og verslunarkjarna á Akranesi. mbl.is/Árni Sæberg

Við þinghaldið lagði verjandi Engilberts fram reikninga sem lækkuðu upphæð brota hans um 756 þúsund krónur, en annað stóð óbreytt. Samkvæmt dóminum hefur Engilbert ekki áður sætt refsingum er hafa áhrif við ákvörðun refsingar og er það metið honum til málsbóta að hafa játað brotin skýlaust.Telur dómurinn að 10 mánaða skilorðsbundið fangelsi sé því hæfileg refsing.

Við ákvörðun sektar er miðað við þrefalda fjárhæð vanskila hans vegna brota árið 2017, en tvöfalda fjárhæð vanskila vegna ársins 2018. Eru það samtals 58,8 milljónir króna sem honum er gert að greiða á næstu fjórum vikum, ella sæta fangelsi í 12 mánuði.

Eftir að greint var frá ákærunni gegn Engilbert síðasta haust sagðist hann ætla að greina frá helstu viðskiptum sínum, en Engilbert stofnaði Stafna á milli árið 2002, en því var breytt í Innova árið 2007 með samruna við fleiri verktakafyrirtæki. Varð það þá meðal annars móðurfélag verktakafyrirtækjanna JB Byggingafélags og RIS. Vísaði Engilbert í færslunni sem hann birti á Facebook að hann ætlaði að greina nánar frá málum eins og því sem tengdist viðskiptum með Glaðheimasvæðið, eða „Gustmálið“ og samskiptum við Kópavogsbæ. 

Engilbert ætlaði meðal annars að tjá sig um umdeildar framkvæmdir …
Engilbert ætlaði meðal annars að tjá sig um umdeildar framkvæmdir á Glaðheimasvæðinu, en viðskipti með lóðir þar ná aftur til áranna fyrir hrun. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert