mið. 3. apr. 2024 16:38
Bjarni Benediktsson við komuna á fundinn í dag.
„Verkefni að vinna úr ef að hún hverfur á braut“

Bjarni Benediktsson, utanríkisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, segir að boðað hafi verið til fundar hjá ríkisstjórninni í dag vegna endurkomu Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra. Hann kveðst ekki hafa áhyggjur af vantrauststillögunni sem vofir yfir Svandísi.

„Það er gleðilegt að endurheimta Svandísi og hún kemur heilbrigð til baka úr stuttu veikindahléi. Það var aðal fundarefnið,“ sagði Bjarni í samtali við mbl.is eftir fund ríkisstjórnarinnar í Umbru við Skuggasund í dag.

Katrín Jak­obs­dótt­ir for­sæt­is­ráðherra seg­ir von á því á allra næstu dög­um hvort hún láti verða af for­setafram­boði, líkt og marg­ir hafa talið lík­legt. Spurður hvort hugsanlegt forsetaframboð Katrínar hefði komið til umræðu á fundinum svaraði Bjarni:

„Nei, ekki nema bara að það var farið yfir þá stöðu og hún deildi því bara með okkur sem hún hefur opinberað núna að hún sé að íhuga þetta mál og muni ekki gefa sér langan tíma til þess að komast að niðurstöðu.“

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2024/04/03/katrin_a_lokametrunum/

Vilji ekki að verið sé að draga frambjóðendur í pólitíska dilka

Myndir þú styðja Katrínu í framboðið?

„Ég ætla ekki að vera með neinar slíkar yfirlýsingar og ég held að Íslendingar almennt vilji  að ekki sé verið að draga frambjóðendur í pólitíska dilka um of.“

Skyldi fara svo að Katrín fari í framboð. Hver tæki þá við af henni?

„Við verðum bara að sjá til,“ svarar Bjarni.

Spurður hvort hann hefði sjálfur áhuga á að taka við af henni sagði Bjarni:

„Við skulum bara sjá hvernig úr öllu spilast. Sjálfstæðisflokkurinn er stærsti þingflokkurinn á Alþingi í dag en þetta verður vissulega verkefni að vinna úr ef að hún hverfur á braut.“

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2024/04/03/katrin_er_god_i_ollu_sem_hun_gerir/

Hefur ekki sérstakar áhyggjur af vantrausti

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, hefur sagst ætla að leggja fram tillögu um vantraust á hendur Svandísi þegar þing kemur aftur saman í næstu viku.

Hefur þú áhyggjur að slík tillaga verði samþykkt?

„Nei ég hef ekkert sérstakar áhyggjur af því máli. Það eru önnur stærri mál sem ég er að hugsa um núna.“

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2024/04/02/hyggst_enn_leggja_fram_vantrausttilogu/

til baka