fim. 11. júlí 2024 10:04
Tóm­as Már Sig­urðsson er for­stjóri HS Orku.
Endurfjármögnun HS: Lánakjörin ásættanleg

Lánakjör sem HS Orka fékk við 40 milljarða króna endurfjármögnun sína er í samræmi við fyrri kjör. Þetta segir Tómas Már Sigurðsson, forstjóri HS Orku, í samtali við mbl.is.

Fyrirtækið hefur staðið í ströngu undanfarin ár vegna jarðhræringa og eldgosa á Reykjanesskaga, sem meðal annars hafa ógnað vinnslu fyrirtækisins í Svartsengi og lögnum til Reykjanesbæjar.

Hafa lánakjörin versnað?

„Við tjáum okkur ekki um það en ég get heilt yfir sagt að við erum á mjög ásættanlegum kjörum og í samræmi við það sem við vorum áður,“ segir hann og bætir við:

„Undirliggjandi vextir hafa hækkað eins og hjá öllum en kjörin sjálf eru mjög ásættanleg.“

https://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2024/07/09/hs_orka_lykur_40_milljarda_endurfjarmognun/

Hjálpar við endurbætur á Svartsengisvirkjun

Tómas kveðst vera sáttur með kjörin og segir að þau útskýrist meðal annars af því að HS Orka hafi haldið lánveitendum upplýstum um stöðuna.

Fjár­mögn­un­in nær til yf­ir­stand­andi stækk­un­ar og end­ur­bóta orku­vers­ins í Svartsengi og er skref í átt að áform­um um frek­ari vöxt fé­lags­ins í jarðvarma og vatns­afli.

„Við erum í endurbyggingu á Svartsengi og þetta mun hjálpa okkur við að klára það. Það er bæði endurbygging á 50 ára gamalli hitaveitu og líka fáum við betri nýtni og rafmagnsframleiðslu út úr þessu,“ segir Tómas.

 

 

Stefnt að byggingu orkuvers í Krýsuvík

Hann segir HS Orku einnig ætla í rannsóknarboranir í Krýsuvík og að bora meira á Reykjanesi og Svartsengi. Þá vilji fyrirtækið halda áfram með Hvalárvirkjun.

„En þessi fjármögnun er ekki nóg til að ganga frá því. Það nær bara í undirbúningsvinnuna sem stendur yfir.“

Í Krýsuvík verður fyrsta rannsóknarborun á árinu og stefnt er að 100 MW orkuveri á Sveifluhálsi.

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2024/06/13/vilja_laga_virkjunina_ad_natturunni/

til baka