Verk og vit; þorp í Laugardalshöll
Athyglisverðasti básinn á Verki og viti 2016 kom í hlut Tækniskólans, nemendur skólans úr flestum deildum hönnuðu, smíðuðu og settu básinn upp. Þetta var skólaverkefni þeirra í skólanum. Það sem var athyglisvert við þann bás var að þau sýndu þverskurð af húsi, hvað væri inn í veggjum o.s.frv., svo fólk sæi hvaða fagaðilar kæmu að byggingu húsa t.d. Sérlega skemmtileg útfærsla. Eva Björk Ægisdóttir

Verk og vit; þorp í Laugardalshöll

Þann 8. mars næstkomandi verður opnuð fagsýningin Verk og vit 2018 í Laugardalshöll og stendur hún til 11. mars. Þetta er í fjórða sinn sem sýningin er haldin og sem fyrr er hún einkum ætluð fagaðilum á sviði byggingariðnaðarskipulagsmála og mannvirkjagerðar. Þar á meðal eru framleiðendur, innflytjendur, verktakar, hönnuðir, sveitarfélög, ráðgjafar og iðnaðar- og þjónustufyrirtæki hvers konar. Fyrstu tveir dagar sýningarinnar, fimmtudagurinn 8. og föstudagurinn 9. mars, eru hugsaðir fyrir fagaðila en seinni tvo dagana, laugardag 10. og sunnudag 11. mars, er almenningur velkominn að heimsækja sýninguna.

Athyglisverðasti básinn á Verki og viti 2016 kom í hlut …
Athyglisverðasti básinn á Verki og viti 2016 kom í hlut Tækniskólans, nemendur skólans úr flestum deildum hönnuðu, smíðuðu og settu básinn upp. Þetta var skólaverkefni þeirra í skólanum. Það sem var athyglisvert við þann bás var að þau sýndu þverskurð af húsi, hvað væri inn í veggjum o.s.frv., svo fólk sæi hvaða fagaðilar kæmu að byggingu húsa t.d. Sérlega skemmtileg útfærsla. Eva Björk Ægisdóttir

Þann 8. mars næstkomandi verður opnuð fagsýningin Verk og vit 2018 í Laugardalshöll og stendur hún til 11. mars. Þetta er í fjórða sinn sem sýningin er haldin og sem fyrr er hún einkum ætluð fagaðilum á sviði byggingariðnaðarskipulagsmála og mannvirkjagerðar. Þar á meðal eru framleiðendur, innflytjendur, verktakar, hönnuðir, sveitarfélög, ráðgjafar og iðnaðar- og þjónustufyrirtæki hvers konar. Fyrstu tveir dagar sýningarinnar, fimmtudagurinn 8. og föstudagurinn 9. mars, eru hugsaðir fyrir fagaðila en seinni tvo dagana, laugardag 10. og sunnudag 11. mars, er almenningur velkominn að heimsækja sýninguna.

Spennandi vettvangur

„Verk og vit felur í sér einstakt tækifæri fyrir alla í þessari grein til að kynna vörur sínar og þjónustu, en ekki síður til að bæta við og styrkja tengslanetið, efla sambandið við núverandi viðskiptavini og bæta um leið nýjum í hópinn,“ segir Ingibjörg Gréta Gísladóttir, framkvæmdastjóri sýningarinnar. „Um þessar mundir er gríðarlega mikil uppbygging í gangi á þessum vettvangi hér á landi og þá getur skipt sköpum að hamra járnið meðan það er heitt. Sýningin Verk og vit er einn allsherjar suðupottur fyrir allt það helsta í greininni. Það er ótalmargt áhugavert að gerast og sýningin endurspeglar það.“

Á sýningunni verða að sögn Ingibjargar Grétu ný og áhugaverð fyrirtæki í bland við gamalgróin og vel þekkt, og breiddin hjá sýnendum eftir því mikil.

Heilu húshlutarnir rísa – þorp í Laugardalshöll

Að sögn Ingibjargar Grétu er sýningin fyrir bragðið ómetanlegur vettvangur til að sýna sig og sjá aðra, meðan árferðið er svo sem raun ber vitni. „Verk og vit hefur reyndar sannað mikilvægi sitt, hvort sem er í uppsveiflu eða samdrætti, fyrir fagaðila til að hittast og almenning að sjá hvað er í boði en ekki síður til að hitta viðskiptavini og efla viðskiptatengsl. Ingibjörg Gréta hlakkar ennfremur til að opna dyr sýningarinnar og svipta um leið hulunni af sýningarsvæðinu en að hennar sögn eru sýningarbásar þátttakenda einkar metnaðarfullir í ár. „Hér verða byggðir heilu hús­hlut­arn­ir og læt­ur nærri að á gólfi Laug­ar­dals­hall­ar muni rísa heilt þorp. Það er aðdáunarvert hversu mikla vinnu og hugsun sýnendur leggja í sín svæði og hér ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi. Greinin er óneitanlega með góðan meðbyr um þessar mundir, það er bjartsýni í fólki og ég er viss um að það muni skila sér á sýninguna. Það verður gaman ekki síður en gagnlegt að koma á Verk og vit 2018.“

Verðlaunahafar fyrir athyglisverðustu básana 2016
Verðlaunahafar fyrir athyglisverðustu básana 2016 Kristján Maack

Athyglisverðasti básinn valinn

Í framhaldinu er rétt að minna á að sýningin Verk og vit veitir viðurkenningar fyrir athyglisverðustu básana á sýningunni. Það eru þeir básar sem þykja hafa skarað fram úr í frumleika, hugmyndaauðgi og framsetningu. Nafnbótin „Athyglisverðasti básinn“ á Verki og viti 2016 kom í hlut Tækniskólans, en nemendur úr flestum deildum skólans tóku þar höndum saman við verkið. Þau hönnuðu, smíðuðu og settu básinn upp og var vinnan við básinn verkefni í námi þeirra. „Það sem var svo athyglisvert við þann bás var að nemendurnir sýndu þverskurð af húsi, bókstaflega hús sem búið var að saga í sundur.“ útskýrir Ingibjörg. „Það gaf gestum sýningarinnar færi á að sjá með skýrum hætti hvað er inni í húsveggjum og gera sér um leið grein fyrir hversu margir mismunandi fagaðilar koma að byggingu húsa – hönnuðir, smiðir, rafvirkjar, pípulagningamenn og svo framvegis. Sérlega skemmtileg útfærsla hjá tækniskólanemum og básinn fékk mikla athygli á Verki og viti 2016.“

Kristján Maack

Nemendur áberandi á Verki og viti

Að vanda býður Tækniskólinn 10. bekkingum að koma á kynningu um skólann – og Verk og vit býður 10. bekkingunum í framhaldinu á sýninguna til að kynna sér iðnaðinn. Um leið kalla skipuleggjendur eftir því að þátttakendur á sýningunni kynni starfsemi sína sérstaklega fyrir nemendum sem sækja sýninguna. „Þá eru fyrirtækin að kynna fyrirtæki sín og starfsemina og um leið hvernig menntun þarf í viðkomandi störf. Þetta vinnur allt saman, 10. bekkingar voru mjög áhugasamir um sýninguna, fyrirtækin og störfin og í kjölfar Verks og vits 2016 var metaðsókn í nám við Tækniskólann. Það er óhætt að segja að við áttum svolítinn hluta af því og við teljum nauðsynlegt og sjálfsagt að sýna krökkunum alla þá möguleika sem eru til staðar í greininni og hinum mörgu fagstéttum sem eru innan hennar.“ Ingibjörg Gréta bætir við að Háskólinn í Reykjavík muni líka kynna sínar deildir sem tengjast þessum geira og nemendur þaðan koma einnig á sýninguna til að kynnast starfseminni og tengjast inn í atvinnulífið. „Við erum því að tala um að nemendur á grunnskóla-, menntaskóla- og háskólastigi eru að koma og kynnast greininni, og mjög margir sýnendur eru á móti spenntir fyrir því að fá nemendur á sýninguna til að kynna starfsemina fyrir þeim.“

Eva Björk Ægisdóttir

Áhuginn áþreifanlega mikill

Ekki er annað að sjá en að umræddir fagaðilar séu með á nótunum því þeir hafa svo sannarlega tekið við sér í aðdraganda opnunarinnar og nú er svo komið að allt sýningarpláss á Verki og viti 2018 er uppselt með um 110 sýnendur. Ingibjörg Gréta segir þetta sérstakt ánægjuefni og til marks um þýðingu sýningarinnar fyrir greinina hér á landi. „Við skipuleggjendur og samstarfsfyrirtæki okkar erum himinlifandi með viðtökurnar og hlökkum mikið til að hleypa þessari veglegu sýningu af stokkunum. Tilbúin verður Verk og vit 2018 ekki bara áhugaverður viðburður fyrir fagaðilana heldur líka mikið sjónarspil fyrir almenna gesti sem koma um helgina.“ Ingibjörg Gréta býst við góðum hópi fólks með hliðsjón af aðsókninni hingað til; á síðustu sýningu Verks og vits sem haldin var árið 2016 komu um 23.000 manns en þá tóku þátt um 100 sýnendur – fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög – sem kynntu þar vörur sínar og þjónustu.

Kristján Maack

Hlökkum til að opna sýninguna

Ingibjörg fer ekki varhluta af því að væntingar eru miklar til Verks og vits 2018 og í mörg horn að líta á lokasprettinum. Hún segir að allt kapp sé lagt á að gera sýninguna sem best úr garði og í því augnamiði sé efnt til ánægjukönnunar að hverri sýningu lokinni til að meta hvernig til tókst. „Skemmst er frá því að segja að eftir Verk og vit 2016 töldu 96% sýnenda að sýningin hefði verið þeim til gagns og að markmiðum með þátttökunni hefði verið náð. Slíkur árangur hvetur okkur til að halda áfram á sömu braut og gera jafnvel enn betur.“ Það slær heldur ekki á ánægjuna að sjá um verkefni sem hefur jafn mikið fram að færa og Verk og vit. „Maður finnur áhugann og hversu mikill hann er í þessum geira. Það er einmitt alveg sérstaklega gefandi að koma að verkefni eins og Verki og viti 2018. Okkur skipuleggjendum finnst ákaflega gaman að sjá fólk og fyrirtæki um alla borg vera að undirbúa sig fyrir sýninguna og við getum eiginlega ekki beðið eftir að opna Verk & vit 2018 og bjóða gesti velkomna. Við hlökkum mjög til 8. mars þegar dyrnar verða opnaðar fyrir gestum.“

Framkvæmdaaðili sýningarinnar er AP almannatengsl en samstarfsaðilar eru atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Reykjavíkurborg, Samtök iðnaðarins, BYKO og Landsbankinn.

Allar nánari upplýsingar um sýninguna, opnunartíma og fleira má nálgast á vefsvæði sýningarinnar www.verkogvit.is.
mbl.is