Guðrún Bergmann - haus
8. mars 2011

Alþjóðlegur dagur kvenna 100 ára

Í dag, 8. mars 2011, er haldið upp á það að 100 ár eru síðan stofnað var til Alþjóðlegs dags kvenna. Í sögu kvenna og baráttu þeirra fyrir jafnrétti, kosningarrétti, jafnræði til erfða og réttar innan samfélagsins hefur margt áunnist á þessum árum. Við sem njótum menntunarmöguleika og atvinnutækifæra á við karlmenn eigum oft erfitt með að gera okkur grein fyrir því að mæður okkar, hvað þá ömmur og langömmur gengu ekki í skóla og sumar höfðu ekki einu sinni tækifæri til að læra að lesa. Móðir mín var sú eina af fimm systrum sem stundaði eitthvað nám fram yfir skyldunám og þó varð hennar nám ekki lengra en Kvennaskólanám.


Þegar ég lít til baka yfir þessa kvennabaráttu er mér efst í huga þakklæti til þeirra kvenna í minni ætt sem hafa barist fyrir jöfnum rétti kvenna til launa, tækifæra, mennta og kosninga, svo og allra annarra kvenna sem gerðu slíkt hið sama. Þær lögðu á sig mikla vinnu og höfðu kjark til að ráðast gegn ríkjandi hugmyndum um stöðu kvenna og knýja fram breytingar. Þær fóru í verkföll og kröfugöngur, sátu samningafundi og potuðu málefnum sínum áfram smátt og smátt, svo ég og mín kynslóð geri notið þeirra réttinda sem okkur þykja svo eðlileg í dag.

Í huga mínum snýst verkefni minnar kynslóðar og þeirra sem á eftir koma um að vernda náttúru okkar og umhverfi, ekki bara fyrir jörðina - heldur vegna þess að mengun og umhverfisspjöll hafa áhrif á líkama okkar og heilsu, ekki síður en á jörðina sjálfa. Þar tel ég að konur muni leiða veginn, ekki vegna þess að ég vilji kyngreina umhverfismál og skilning okkar á sjálfbæru samfélagi, heldur vegna þess að konur eru yfirleitt fljótari til að tileinka sér nýjungar og gera breytingar samhliða þeim.